25.10.1943
Neðri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (3234)

100. mál, skipun mjólkurmála

Sveinbjörn Högnason:

Ég skil ósköp vel, að hv. þm. Snæf. muni þykja erfitt að ganga til spurninga, enda virðist hann kunna mjög lítið og vera óþægilegt að eiga að setjast á spurningabekkinn. En hann hefur sett sig þar sjálfur, og þó að ég finni ekki skyldu hjá mér að taka hann í bekk, þá er það nú svo, að við, sem höfum stundað fræðslustörf mestan hluta ævinnar, eigum erfitt með að neita, þegar við sjáum svo brýna þörf fyrir fræðslu. Hann segir, að það sé eins dæmi, að þm. beri fram brtt. við frv., sem hann ætli að vera á móti. Ég hygg, að það sé algengt að reyna að bæta vitlaus frv., ef horfur eru á, að þau nái fram að ganga. Hverjum þm. á að vera áhugi að laga slík mál svo sem kostur er á. Og ef fara á að rannsaka mjólkurframleiðsluna, þá er það þm. til háðungar að rannsaka ekki framleiðslu og dreifingu annarra neyzluvara, sem þó er enn þá meiri skortur á. Því vil ég leggja hönd að því, að þessi till. til þál. fari ekki þannig úr þ., að þm. sé skömm að henni, jafnvel þótt hún verði ekki samþ.

Og þó að þessi hv. þm. vilji ekki setjast á bekk hjá mér, þá vil ég samt fræða hann, því að það er nauðsynlegt, þó að ég skilji hins vegar. að honum sé illa við, að ég framkvæmi slíkt próf. En „það er betra að vita rétt en hyggja rangt“. Ég og fjöldi annarra þm. hyggjum, að þessi till. sé ekki borin fram af umbótaáhuga, heldur af öðrum sökum. Og það sjáum við af því, hvort hv. þm. vill samþ. till. eins og ég flyt hana. Ef tilgangur hans er sá, sem hann segir, að hann sé, þá hlýtur hann að vera með minni till.

Þá segir hv. þm., að ég segi, að mjólkurbúðirnar séu til fyrirmyndar. Ég sagði það ekki. Formaður húsmæðrafélags Morgunblaðsins, frú Sigríður Eiríksdóttir, skrifar í það blað á laugardaginn var, og þar segir hún, með leyfi hæstv. forseta: „Mitt álit er enn sem fyrr það, að enda þótt umgengni og afgreiðsla í sumum mjólkurbúðunum sé til fyrirmyndar, séu of víða óhæf húsakynni“. — Hvers vegna? Vegna styrjaldarástandsins. Það er ekki hægt að endurbæta húsin, ekki hægt að halda húsunum við, og ekki hægt að fá ný húsakynni.

Hv. þm. Snæf. spurði, ef þetta fyrirtæki væri rekið þannig, að það væri til fyrirmyndar, hvers vegna ég væri þá óvinsælasti verzlunarstjóri í heimi. Ekki var nú lítið sagt. Ég vil upplýsa, að ég er ekki verzlunarstjóri mjólkursamsölunnar og hef aldrei verið. Það, sem er til fyrirmyndar við samsöluna, er mest að þakka þeim ágæta manni, sem þar hefur verið við forstöðu.

Þá sagði hv. þm. Snæf., að það væri rétt, að ekki væri hægt að fá alúmíníumlok, en sér væri kunnugt um tilboð, sem mjólkursamsölustjórnin hefði fengið til þess að loka flöskunum á annan veg. Hann veit meira en ég. Við sendum mann til Ameríku, og hann reyndi, ekki bara að fá lok, heldur vélar til að setja lokin á flöskurnar, en það reyndist ómögulegt að fá vél, sem kæmist fyrir í húsakynnum samsölunnar eða hægt væri að setja í samband við þær vélar, sem þar eru. Sennilega er engum ljósara en okkur, hver kostur það væri að geta dreift allri mjólkinni á flöskum, og það hefur verið reynt að gera allt, sem hægt er, til þess. Það hefur reynzt fremur vonum að dreifa henni eins og nú er gert.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta að öðru leyti en lýsa yfir, að hv. þm. segir ósatt, þegar hann segir, að ég segi ósatt, að við höfum ekki getað fengið lóð hjá bænum undir mjólkurstöðina fyrr en seint og síðarmeir. Ég bið hann bara að athuga skjöl bæjarstjórnar til að sjá, hvenær við biðjum um lóð og hvenær við fáum þá lóð, sem nú er verið að byggja á. Ég segi ekki, að það hafi verið gert til að tefja málið, en það tafði málið samt sem áður. Það kann vel að hafa verið af eðlilegum orsökum. Ég veit, að hann vill heldur „vita rétt en hyggja rangt“, þess vegna bið ég hann að fara í skjölin og kynna sér þetta. Þá getur hann svarað sér sjálfur. En ef hann vill halda áfram að ganga til spurninga hjá mér, þá skal ég gera mitt bezta til að fræða hann — héðan af sem hingað til.