24.11.1943
Neðri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (3238)

100. mál, skipun mjólkurmála

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Við fyrri hluta þessarar umr. hér í d. urðu svo miklar umr. um þessa till., sem hér liggur fyrir á þskj. 173, að það mætti telja líklegt, að nú við framhald umr., þá að langt sé um liðið, væri ekki þörf að hafa miklar umr. um málið.

Eins og allir hafa sjálfsagt veitt athygli, þá hefur landbn. ekki getað orðið sammála um afstöðu til þessa máls. Þegar n. var að störfum, var borin fram brtt. um það, að þessu yrði snúið upp í að skipa 3 manna mþn. Við, sem skipum meiri hl., gátum ekki fallizt á þá breyt. og töldum eðlilegra, að till. væri samþ. í því formi, sem hún nú hefur.

Nú hefur komið í ljós, að bændur hafa verið æstir upp í því, að hér væri hættulegt mál á ferðinni, og skal ég ekki fara langt út í það, en aðeins víkja örfáum orðum að því, hvaða fjarstæða þetta er. Þessi till. er borin fram sem miðlunartill. milli þeirra manna annars vegar, sem virðast álíta, að það sé svo gott lag á þessum mjólkurmálum í heild sinni, að þar þurfi í engu um að bæta, og hins vegar þeirra, sem álíta, að það sé svo mikið ólag á þessum málum, að það verði ekki bætt nema á þann hátt að gerbreyta skipulaginu, og hefur verið borið fram frv. um það. Nú er það svo, að ástandið í þessum efnum er þannig, að framleiðendur hafa aldrei á síðustu árum verið í minni hættu en nú gagnvart því, að réttur þeirra væri fyrir borð borinn, og það er af því, að þeir búa nú, sem betur fer, við sæmilegt lögbundið verð fyrir sína vöru og verð, sem ætlazt er til, að sé, eins og vera ber, í samræmi við framleiðslukostnað. Ég hef ekki heyrt neinn þm. nú, — og það er nýtt í þessu máli, — leggja til, að því sé að neinu leyti haggað, og þetta er það aðalatriði, sem snýr að hag framleiðendanna. Ef þeirra hagur er tryggður á þennan hátt, þá er það eðlilegt og réttlátt, að kaupendurnir geri, eins og þeir hafa áður gert, kröfur til þess, að vörugæði og viðskiptahættir séu sem heppilegastir, og sú deila, sem nú stendur um þessa hluti, er þess vegna þannig vaxin, að hún snertir viðskiptahættuna einna mest og það, hvort gæði vörunnar og meðferð sé í svo góðu lagi sem þyrfti og ætti að vera. Ég hef ekki kunnugleika til þess að dæma um það, hverjir hafi á réttu að standa í þeim deilum, þeir, sem aðfinnslurnar gera, eða hinir, sem segja, að allt sé í góðu lagi, og þess vegna, af því að hér er um svo mikilsvert mál að ræða, þá er það frá mínu sjónarmiði eðlilegt og réttlátt, að það sé gerð athugun á þessum málum til þess að fá því til vegar komið, að þessar deilur séu settar niður og að það séu sæmilega greið viðskipti með þá þýðingarmiklu vöru, sem hér um ræðir. Málið hefur undanfarin ár verið rekið að mestu leyti sem baráttumál framleiðenda utan heiðar og vestan og að sumu leyti sem baráttumál milli neytenda og framleiðenda og að sumu leyti sem pólitískt mál. Nú er það svo, að frá mínu sjónarmiði er þetta mál, eins og það horfir nú við, ekki sérstaklega stefnumál okkar bændanna, og það er ekki heldur og á ekki að vera pólitískt mál, heldur lít ég á það sem alþjóðlegt viðskiptamál, mál, sem ekki einungis þeim, sem hlut eiga að máli á báða bóga, kemur við, heldur og þjóðinni allri. Því að það er á því brýn þörf, að af þeirri þýðingarmiklu vöru, sem hér um ræðir, sé sem allra mest neytt innan lands og sem allra mest framleitt. Og til þess að það geti orðið, þá er þess brýn þörf, að það sé meiri friður um þessi mál en verið hefur.

Það er tilgangurinn með þessari till., sem hér liggur fyrir, að undirbúa það í fyrsta lagi að fá sannprófun á því, hvað sé rétt í þeim ádeilum, sem gerðar hafa verið, og undirbúa það, að þessar deilur séu settar niður. Nú er það svo, að mér virðist, að það hafi einna mest verið fundið til foráttu þessari till. á þskj. 173, að það er gert ráð fyrir því samkvæmt henni, að sú n., sem ætlazt er til, að kosin verði, hafi óskorað vald til þess að heimta skýrslur og reikninga af samsölunni og þeim mjólkurbúum, sem hlut eiga að máli. Nú hefur þessu verið snúið á þann veg, sem náttúrlega er alls ekki tilgangurinn, hvorki frá flm. né neinum meðmælenda þessarar till., að þessi n. eigi að vera rannsóknarvald á alla framleiðendur, sem þarna koma til greina. Hér er aðeins um að ræða það að athuga þau fyrirtæki, sem með þessa vöru fara, í sambandi við það, hvaða till. n. mundi gera til úrbóta á þessu sviði.

Ég verð að segja, að ástæðan til þess, að ég get fallizt á að hafa þetta ákvæði í till., hún er dálítið sérstaks eðlis, og hún er aðallega sú, að ég hef sjálfur reynslu fyrir því, að þetta fyrirtæki hefur verið að því leyti ólíkt öðrum fyrirtækjum hér í bænum, að það hefur neitað um skýrslur, sem beðið hefur verið um. Þetta er þannig til komið, að á fyrra þinginu 1939 ákvað fjvn., ég átti þá sæti í henni, að fara fram á athugun og skýrslusöfnun um öll launakjör hjá opinberum fyrirtækjum í landinu, sem tilheyra ríki og bæjarfélögum og öðrum þeim, sem sett eru með sérstökum l., eins og þetta fyrirtæki og mörg fleiri. Það var tveim mönnum úr þáverandi fjvn., form. n. (JJ) og mér, falið að safna þessum skýrslum, og gögnum, og það var mikið og seinunnið verk. En það sannaðist, að öll þau fyrirtæki, sem við leituðum til, önnur en mjólkursamsalan, gáfu skýrslur, án þess að nokkur neitun kæmi þar fram. En þessi mjólkursamsala eða stj. hennar neitaði algerlega að gefa upplýsingar um það, sem beðið var um, og það alveg eins fyrir því, þó að þáverandi fjmrh. (EystJ) legði svo fyrir, að þessar skýrslur væru gefnar. Ef maður gerir ráð fyrir því, að það sé eitthvað líkt ástatt um þetta fyrirtæki enn, þá finnst mér ekkert undarlegt, þó að það sé sett inn í till. um nefndarskipun í þessu sambandi, að þessu fyrirtæki sé skylt að gefa skýrslur og upplýsingar þær, sem beðið er um. Það er nú líka komið í ljós, að þær till., sem fram hafa komið frá minni hl., fara í þessa sömu átt, þó að samkvæmt þeim sé ekki ætlazt til, að það sé fullkomlega skylt, að hægt sé að ganga að þessu eins og ætlazt er til með till. sjálfri.

Um þær brtt., sem fram hafa komið frá meðnm. mínum í minni hl., skal ég ekki ræða, fyrr en þeir hafa fyrir þeim talað. En ég geri ráð fyrir því, þegar þeir hafa fyrir þeim mælt, að tækifæri gefist til að lýsa áliti á því, hvernig þær mundu verka í þessu sambandi. — Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þessa till. Eins og ég sagði, þá var hún svo mikið rædd við fyrri hluta þessarar umr., að það ætti ekki að þurfa að fjölyrða um hana að þessu sinni.