24.11.1943
Neðri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (3239)

100. mál, skipun mjólkurmála

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það hafa farið fram svo miklar umr. um þetta mál hér í d. áður, að þær ættu ekki að þurfa að verða langar að þessu sinni. Eins og tekið hefur verið fram, gat n. ekki orðið sammála. Minni hl. leggur til í fyrsta lagi, að ályktunin um verkefni n. sé orðuð öðruvísi og að n. sé öðruvísi skipuð, en þar skildust leiðir með okkur í minni hl., þar sem hv. þm. Mýr. leggur til, að n. verði öðruvísi skipuð, og mun hann gera grein fyrir því. Ég tel, að rannsókn mjólkurmálanna sé eðlileg með það fyrir augum að byggja á þeirri rannsókn till. til umbóta. Það er orðið alllangt, síðan mjólkurl. voru sett. Skipulagið var þá að ýmsu leyti nýmæli og studdist við takmarkaða reynslu. Þegar þess er hvort tveggja gætt, að þessi l. voru sett 1933 eða 1934, að það er orðið þetta langt um liðið og ekki var nein reynsla fengin um þetta fyrr, þá er eðlilegt, að það fari fram athugun og endurskoðun á löggjöf þessari. Það er frekari ástæða til þess, af því að menn greinir mjög á um það, hvernig þessi löggjöf hafi reynzt, og þá enn fremur um framkvæmdina. Eins og ég sagði áðan, þá stóðu um þetta atriði harðar umr., allmarga daga hér í þinginu, sem sýndu það glögglega, að það er ýmislegt, sem stendur til bóta í þessu máli. Það er ekki nema eðlilegt um jafnstórt fyrirtæki, — ég vil segja á okkar mælikvarða risafyrirtæki, — að það verði á vissum tíma árs, þegar safna þarf saman mjólk úr órafjarlægð og jafnframt verður að notast við mjög lélega mjólkurstöð, að það verði fyrir umkvörtunum. Það kann að vera eitt eða annað, sem betur mætti fara í sambandi við þennan stórrekstur, og slík n. sem þessi gæti kannske bent á það í samráði við þá, sem fyrir þessu standa, og enn fremur einhverjar breyt. á l. eða reglugerð í því sambandi. En þegar rætt er um óánægju almennings um þessi mjólkurmál, má ekki gleyma því, að alltaf er nokkuð af fólki þannig gert, að það er óánægt með allt það, sem er, ekki aðeins með mjólkina og kjötið, heldur yfirleitt allt, sem fram kemur við það. Þess verður að gæta, að hvernig sem skipulagið er, verður þessi hópur fólks aldrei ánægður. Það, sem ég tel því, að leggja verði áherzlu á, það er að fullnægja öllum sanngjörnum kröfum neytenda, svo sem framast er unnt, og það er því frekar ástæða til þess að leggja áherzlu á þetta, að þetta hefur engu minni þýðingu fyrir framleiðendur en neytendur.

Þó að mér eða okkur í minni hl. beri í rauninni ekki á milli um þessa hluti, þá höfum við ekki getað fylgt till. uns og hún liggur fyrir. Ástæðan til þess er í fyrsta lagi sú, að till. er þannig orðuð, að hún hlýtur að egna bændur til andstöðu. Í öðru lagi er dregið inn í hana deiluatriði, sem okkur virðist óviðkomandi kjarna málsins og ég sé enga ástæðu til að draga inn í. Loks er n. heimilað, samkvæmt 34. gr. stjskr., að heimta skýrslur, og hygg ég, að það sé nokkuð einstætt um mál sem þetta. Það eru þá þessi þrjú atriði, sem ég nú hef drepið á, sem ég hygg, að hafi valdið því, að bændur hafa þótt taka þessari till. þunglega. Nú er það öllum kunnugt, sem um þessi mál hugsa, að einn sterkasti þátturinn í umbótaviðleitni á þessu sviði er í fyrsta lagi, að þær umbætur hafi samhug og áhuga þeirra bænda, sem framleiða sölumjólk, að það sé áhugi hjá þeim á þessum umbótum. Framleiðsla og meðferð mjólkur á heimilunum er vitanlega undirstöðuatriði í þessum málum, og það er ómögulegt að ganga fram hjá því, að slík mál sem þessi verða fyrst og fremst að tryggja sér áhuga bænda, áhuga framleiðendanna á því að gera mjólkina þannig úr garði, að hún fullnægi sem bezt kröfum neytenda. Till. okkar í minni hl. um verkefni n. er þess vegna þannig orðuð, að bændur geta vel við það unað, og einnig væntum við þess, að allir þeir, sem hafa áhuga á því, að málið verði leyst til hagsbóta bæði fyrir framleiðendur og neytendur, geti einnig mjög vel sætt sig við það orðalag. Ég kem þá að hinu atriðinu, hvernig n. er skipuð. Ég hef leyft mér að leggja til, að sú breyt. verði gerð, að n. verði ekki skipuð af Alþ., eins og till. ætlast til. Ég tel, að n., ef hún yrði skipuð af Alþ., yrði hrein pólitísk n., og það mundi að sjálfsögðu móta allt starf hennar. Ég tel líka æskilegt, að það væri mjólkurfræðingur í n. Hans er ekki kostur hér á Alþ., og þar af leiðandi er ekki hægt að fullnægja þeirri ósk með því, að n. sé þingskipuð. Með skipun n., eins og ég legg til, að hún verði, þá er haldið því, að aðalflokkum neytenda í Reykjavík og Hafnarfirði er gefinn kostur á að skipa menn í n. Ég tel, að þetta sé hyggilegt, af því að það er fengin reynsla um það, þegar um deilumál er að ræða, að þegar menn fara að kynna sér málið ýtarlegar en þeir hafa átt kost á áður, þá verður það til þess, að þeir fá aðra skoðun á málinu og líta öðrum og sanngjarnari augum á málefnið en þeir gerðu áður. Þess vegna tel ég það vinning, að þessir menn eða fulltrúar þeirra fái tækifæri til þess að kynna sér þessi mál og verði með í ráðum, hvernig þeim skuli skipað. Ég vil í því efni vænta þess, að þeir komi fram sem fullkomlega ábyrgir menn fyrir þær stofnanir, sem þeir eru kosnir af, og sýni fullan vilja og viðleitni til að leysa málin vel og í fullu samræmi við það, sem hentar og æskilegt er, bæði fyrir neytendur og seljendur. Enn fremur hef ég lagt til, að tveir sérfræðingar verði í n., yfirdýralæknir ríkisins og mjólkurfræðingur. Og loks hef ég lagt til, að maður frá mjólkursölun., sem yrði þá að sjálfsögðu gagnkunnugur öllum rekstri mjólkursamsölunnar, tæki sæti í n. Ég tel það skipta talsverðu máli, og væri eðlilegra til mikils hægðarauka fyrir n. að hafa gagnkunnugan mann á þv í sviði, sem gæti gefið upplýsingar, hvenær sem með þyrfti, þar sem ekki lægju þá fyrir skýrslur að öðru leyti. Ég er sannfærður um, að með þeirri skipan, sem hér er lagt til, að höfð verði, eru miklu meiri líkur til þess, að raunverulegur árangur náist af starfi n. en með þeirri skipan, sem þáltill. gerir ráð fyrir.

Ég hef þá í stuttu máli gert grein fyrir aðalatriðunum í till. minni hl., og ætti það að nægja í bili. En ég skal geta þess, að ég hef orðað breyt. við seinasta liðinn á þá leið, að það er nokkuð öðruvísi en var í upphafi, og hygg ég, að það fari betur og sé meira eðli málsins samkvæmt, eins og það er orðað í brtt. minni á þskj. 506. Ég vil þess vegna mælast til þess, að sú brtt. verði samþ., og þarf ég þá ekki að fjölyrða um þetta frekar.