25.11.1943
Neðri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (3246)

100. mál, skipun mjólkurmála

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil byrja á því að taka fram eftir allar þær ásakanir og fullyrðingar, sem hér hafa verið bornar fram, að ef ég skyldi fara með jafnmiklar rangfærslur og hv. þm. Snæf. (GTh), er honum velkomið að grípa fram í fyrir mér eins oft og honum þóknast, án þess að ég láti það trufla minn málflutning. Annars ætla ég að segja það, að það er búið að eyða það mikilli orku, bæði frá hv. Alþingi og almenningi í bænum í að fjargviðrast út af því mjólkurleysi, sem hér var í haust og bætt var úr, að ef þeirri orku hefði verið varið til nytsamlegra starfa, hefði enginn mjólkurskortur verið. En eini árangurinn er það plagg, sem hér er, um að reyna að koma á fót rannsóknarn., helzt eftir umboði frá 34. gr. stjskr. til þess að hundelta þá menn, sem senda mjólk til Reykjavíkur á öllum tímum árs og hafa bætt úr mjólkurskortinum, á meðan hv. þm. Snæf. hefur lagt sig niður við þau vinnubrögð, sem hér eru sýnileg. Svo að ég held, að bændur mættu segja: Ólíkt höfumst við að.

Ég skal þá snúa mér að nokkrum fullyrðingum og ásökunam, sem fram hafa komið í þessu efni og vitanlega eru allar í sama tón og undanfarið, þótt bætt hafi verið úr því, sem miður fór. Það er stöðugt verið að álasa mjólkursamsölunni fyrir slæma stjórn, en þó er hún sú stofnun, sem fyrst hefur bætt úr skorti á neyzluvöru hér í Reykjavík. Hér hefur ekki enn verið bætt úr rafmagnsskorti, vatnsskorti eða fiskleysi. Þetta er ekki búið að laga, en bændurnir, sem eiga að vera svo slæmir, eru búnir að bæta úr mjólkurskortinum. Ég bauð borgarstjóranum að sjá, hverjir yrðu fyrri til, bændur og ég að bæta úr mjólkurskortinum eða hann að bæta úr rafmagnsskortinum í Reykjavík. Og hver hefur orðið fyrri til? En vitanlega er haldið áfram sama sóninum fyrir því og ekkert hirt um, þótt allt annað sé í mesta sleifarlagi. En ég skal lofa því, að ef samþykkt er till. um rannsókn á bændur og þeirra fyrirtæki, skal ég bera fram till. um rannsókn á útgerðarfyrirtækin. Ég býst líka við, að milljónagróði kaupmanna og heildsala hér geti gefið tilefni til rannsóknar með þeim verðlagsákvæðum, sem hér gilda. Það væri athugunarvert að hefja rannsókn á lagadeild Háskólans til þess að fá úr því skorið, hvort þeir menn, sem þar starfa, eru starfi sínu vaxnir og hvort prófessorarnir leyfa sér að koma þar fram með þær lagaskýringar, sem þeir bera fram hér í þd. Ef svo væri, mundi það vera miklu hættulegra en þótt það vantaði mjólk í bæinn í nokkra daga. Ef þm. Snæf. telur sig framkvæma starf sitt betur en bændur landsins og þykist þess umkominn að fá á sig rannsókn, þá hann um það. Ég skal gera honum það til geðs. Mig undrar það stórlega, að maður, sem er prófessor í l., skuli leyfa sér að hlaupa yfir það, að inn í þessa till., sem er flutt hér á Alþingi, með ákvæðum, sem tryggi það, að hún verði pólitísk, að hann skuli leyfa sér að hlaupa yfir það, að þessi n. hefur það víðtækasta rannsóknarvald, sem unnt er að veita. Svo vel er ég að mér í l., að ég veit, að rannsóknarvald það, sem þessari n. er ætlað, er víðtækara en allt það vald, sem dómarar landsins hafa. Ég skora á hann að koma, ef hann getur, með lagakrók, sem sýni það, að dómarar í landinu hafi víðtækara valdssvið en n., sem skipuð er samkvæmt 34. gr. stjskr. Og ef n., sem þannig er skipuð, hefur meira vald, sé ég ekki betur en lengra sé gengið en ef um hlutlausan dómara er að ræða. Það getur vel verið, að þetta sé ekki í samræmi við þær kenningar, sem prófessorinn flytur í háskólanum, sem þjóðin hefur varið mörgum milljónum til að reisa, svo hann gæti orðið menningarsetur, en ef Alþingi vill láta eitthvert siðferði gilda í þessu efni, verður það þegar í stað að skipa rannsóknarn. á Lagadeild háskólans.

Frsm. meiri hl., hv. þm. A.-Húnv. (JPálm), hélt uppi sínu friðartali með sitt friðarbros á vör, eins og venja hans er hér í þessari hv. þd., en ég hygg, að það færist öðrum betur en honum að tala menn til sátta, því að séu nokkurs staðar illkvittnislegar aðdróttanir, eru þær hjá honum, og kannske er það þess vegna, sem hann hefur verið talinn hæfur til þess að hafa á hendi ritstjórn fyrir Sjálfstfl., því að ég ætla að segja það hér, að ég hef ekki orðið var við aðra ritstjórnarhæfileika hjá honum, hvorki í málsmeðferð, málfærslu né öðru því, sem ritstjóra megi prýða.

Þá var þm. A.-Húnv. að kvarta yfir því, að bændur hefðu verið æstir upp víðs vegar um landið til þess að mótmæla því, sem hér liggur fyrir Alþingi. Mér hefði aldrei dottið í hug, að nokkur hv. þm. gæti borið á flokksmenn sína úti um landið það, sem hann gerir, þegar hann segir, að þeir hafi greitt atkv. með till., af því að þeir hafi haldið, að það gerði ekkert til, og hafi gert það heldur en sitja hjá. Er þannig sannleiksleitin hjá kjósendum Sjálfstfl., að þeir haldi, að það geri ekkert til, hvernig þeir greiða atkv., heldur en sitja hjá? Því miður eru til menn, sem þannig hugsa, því að annars mundi þessi þm. ekki sitja hér inni í sölum Alþingis, en ég vil fullyrða eftir þeim fundum, sem ég hef verið á með sjálfstæðismönnum og sjálfstæðiskjósendum, að þeir eiga ekki skilið þau skammaryrði, sem hér eru látin falla um þá í sölum Alþingis. Hv. þm. A.-Húnv. sér, að bændur eru allt of margir farnir að hugsa og hugsa skýrt, og það er víst, að fyrir mann, sem hugsar með áþekkum hætti og þessi hv. þm., er ekki holt að eiga að skrifa fyrir slíka lesendur á eftir.

Þá talaði hv. þm. A.-Húnv. um, að bændum væri nú tryggt sitt verð og að eðlilegt .væri, að neytendur krefðust þess, að vörugæði væru í góðu lagi. — Sér er nú hver tryggingin! Ég veit ekki betur en að innan hans eigin flokks sé hamazt gegn hjálp til bænda og að þeir geti fengið þetta verð. Það er vitanlegt, að það er unnið að því í flokknum að sprengja þetta samkomulag, og svo kemur þessi hv. þm. og segir við bændurna: „Það er allt í lagi, þið eruð tryggðir! Það er alveg óhætt að lofa neytendum að leika sér að fyrirtækjum ykkar“. Þetta er góður vökumaður bændastéttarinnar, ætla ég að leyfa mér að segja. Það er satt, að neytendur eiga rétt á að fylgjast með, að vörugæði séu góð, og það er búið sex sinnum að gefa þeim tækifæri til þess, og frá upphafi vega hafa þeir átt fulltrúa í stj. samsölunnar. Sem neytandi hér í Rvík hef ég á hverjum degi drukkið mjólk, og ég fullyrði, að hún er þau einu matvæli, sem hafa aldrei verið borin á borð skemmd fyrir mig. Ég hef fengið skemmdan fisk, skemmt kjöt, skemmdar kartöflur, en aldrei skemmda mjólk. Það getur verið tilviljun, en ég marka samt meira það, sem fullkomnir sérfræðingar ameríska hersins, sem hafa daglegt eftirlit með mjólkinni, segja, en maga hv. 7. þm. Reykv. Ameríkanarnir láta tvímælalaust í ljós, að mjólkin sé góð vara, enda mundu þeir ekki kaupa hana annars, svo mjög sem vandað er til matvæla handa hernum. Matvælin ganga þar fyrir öllu, jafnvel vopnum. Það er viðurkennt í öllum ritum frá hernaðarþjóðunum, að fyrsta skilyrðið í stríði sé að hafa nógu góð matvæli, en annað skilyrðið vopnaframleiðslan. Fyrst er að gæta þess eins og hægt er, að mennirnir séu hraustir, en síðan að gefa þeim í hendur verkfæri, sem duga.

Ég vildi tala meira um vörugæðin og þá ásökun hv. 7. þm. Reykv., að mjólkursamsalan hafi stórspillt heilsufari á heimili hans, en hæstv. forseti er orðinn órólegur, svo að ég mun verða við tilmælum hans og fresta umr. af minni hálfu.