29.11.1943
Neðri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (3248)

100. mál, skipun mjólkurmála

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það voru aðeins fáein atriði í ræðu þeirra hv. þm. Snæf. og hv. þm. A.-Húnv., sem ég vildi fara um nokkrum orðum. Þeir vildu báðir mótmæla því, að það væri tilætlunin, að þessi rannsókn næði inn á heimilin, en báðir hins vegar játa það, að ef leita ætti að orsökum misfellnanna, sem um er talað, þá væri þær stundum að finna á heimilunum, og þar með viðurkenndu þeir það í öðru orðinu, sem þeir neituðu í hinu. Ég held þess vegna, að það sé óhætt að slá því föstu, þó að þeir reyni nú að láta líta svo út, að það hafi ekki verið meining þeirra, að það verði aldrei til hlítar rannsakað, hvernig á því stendur, að mjólkin skemmist eða komi skemmd til búanna, nema sú rannsókn fari fram á heimilunum að einhverju leyti.

Hv. þm. A.-Húnv. var að tala um það, að hann gerði lítið úr þeim pöntuðu mótmælum, sem bændur hefðu látið í ljós með áskorunum til Alþ. um það að fella bæði þessa till. og fleiri mál svipuð, sem liggja fyrir Alþ. Í tilefni af þessu hafði hann óviðurkvæmileg orð um skoðanir manna og reyndi að láta líta svo út sem hægt væri að fá fram hvers konar undirskriftir og mótmæli, ef maður færi fram á það. Nú vil ég fyrst afsaka þennan hv. þm. með því, að hann þekkir bændur ekki almennt, — hann þekkir ekki utan síns hrepps bændur nema í tveim hreppum Austur-Húnavatnssýslu, — og hafi því viðhaft þessi ummæli og miðað við kynni sín af þeim, og þar þekkir hann þó ekki nema helzt íhaldsmenn. En þó að hann kunni að þekkja einhverja Húnvetninga, sem mundu bera það fyrir hann að halda fund og samþ. mótmæli eftir pöntun, þá hefur hann alls ekki leyfi til að færa það yfir á bændastétt landsins almennt. Ég vil halda því fram, að yfirleitt sé það svo, að bændur landsins samþykki ekki hluti, hvorki þetta né annað, fyrr en þeir séu búnir að kynna sér málavexti og mynda sér skoðanir. Þess vegna álít ég, að þetta séu bæði ómakleg ummæli af hv. þm. um bændastéttina og allt að því óforskömmuð.

Hv. þm. Snæf. var að tala um það, að ef þessi rannsóknarn. ætti að fara inn á heimilin samkv. 34. gr. stjskr., væri það svipað og mþn. í sjávarútvegsmálum færi að fara til hvers einstaks sjávarútvegsmanns og fá rannsókn hjá honum. Nú er einn af flm. í mþn. í sjávarútvegsmálum, og ég veit ekki betur en hún hafi skrifað öllum útgerðarmönnum og skyldað þá til að gefa upplýsingar til þess að reyna að finna frumorsakirnar og reyna að ráða bót á. Þessi mþn. hefur því gert það, sem hv. þm. Snæf. telur ómögulegt fyrir mþn. að gera, og sýnir þetta ekkert annað en það, hversu þeir menn, sem í mþn. eru, reyna að gera sitt verk rækilega, gagnstætt því, sem hv. þm. Snæf. getur dottið í hug, að þeir geri, þegar hann dæmir þá eftir sjálfum sér. Þeir voru báðir að tala um það, hv. þm. A.-Húnv. og hv. 7. þm. Reykv., að mikið væri um gallaða mjólk og slæma mjólk, og hv. þm. A.-Húnv. talaði um það sem eitt af því, sem rannsaka þyrfti. En hv. þm. verða að athuga það, að slæm mjólk er aldrei seld sem neytendamjólk, heldur er unnið úr henni og hún seld sem vara, og sýnir þetta hvað hv. þm. hefur kynnt sér málið eða hitt þó heldur.

Ég spurði flm. till. og frsm., hvað þeir hefðu kynnt sér af starfi þeirra sex nefnda, sem starfað hafa að rannsókn mjólkurmála áður, hvað þeir þekktu af þeim misfellum, sem þessar n. hefðu bent á, að ráðin yrði bót á, og hvað nú væri komið í framkvæmd til þess að bæta úr göllunum, og bað þá að gefa upplýsingar um þetta. En þeir þegja, líta skömmustulegir í gaupnir sér, því að þeir vita ekkert. Margt af því, sem þeir hér eru með, hafa þessar n. rannsakað, og sumt er búið að taka til greina, og til þess að þeim yrði sjálfum ljóst, að hve miklu leyti þetta væri byggt á hlutum, sem liggja fyrir, bað ég þá um að segja frá þessu, af því að ég hélt, að það yrði til þess, að þeir færu þá að kynna sér málið. En báðir þegja þeir um þetta. Af hverju? Af því að þeir hafa aldrei reynt að kynna sér, hvað þessar n. hafa samþ., þeir hafa aldrei spurt stjórn mjólkursamsölunnar um það, hvað hafi verið framkvæmt af því, er þær hver ein lögðu til úrbóta. Hafa þeir t. d. kynnt sér það, hvernig Stefán Björnsson vill láta reyna að koma í veg fyrir að mjólkin komist í 3.–4. flokk, og hvernig búið er síðan í vor að reyna að framkvæma það við mjólkurbú Flóamanna? Hafa þeir rannsakað það, hvað hefur verið gert á síðast liðnum árum til þess að vinna bug á mjólkurskortinum í haust? Mér er það alveg ráðgáta, hvernig þessum hv. þm. hefur getað dottið í hug að bera fram þessa þáltill. án þess að afla sér nokkurra upplýsinga í málinu, og landbn. hefði líka átt að leita sér einhverra upplýsinga um það, sem búið var að gera í málinu, áður en hún lagði fram till. sínar og þá hefði hún getað séð, að mikill hluti af þessum sjö liðum, sem á að athuga, er meira og minna athugaður, sumt til fullnustu og sumt að nokkru leyti. Ég vil því halda því ákveðið fram, að það sé með öllu óþarft að samþ. nokkra nýja till. í þessu efni. Hér er ekki um annað að ræða en það, að búið er að „agitera“ upp óánægju með mjólkina, sem farin er þó nokkuð að hjaðna, síðan mjólkin varð nóg, og þessi þáltill. er því aðeins afleiðing af þeirri óánægju. Hins vegar er ekki nema eðlilegt, að menn beri nokkurn kvíðboga fyrir mjólkurmálunum á næsta hausti. Heyskapurinn í sumar hefur orðið með þeim hætti, að það hefur orðið að fækka öllum bústofni mikið í haust. Það er að vísu ekki hægt að segja um það, hvað mikið hefur verið fækkað, en ég gæti hugsað, að það væri um 10–20%, sem nautgripum hefur fækkað. Það væri því þörf á því, að gerðar væru einhverjar ráðstafanir til þess að halda í horfinu og örva menn, hvað mjólkurframleiðsluna snertir, í stað þess að leggja stein í götu mjólkurframleiðslunnar, eins og nokkur hluti alþm. virðist vilja gera. Þessir menn hafa gert allt, sem þeim hefur hugkvæmzt, til þess að gera menn sem óánægðasta með mjólkurframleiðsluna. Og þessir menn höfðu með sér veðráttuna í sumar, sem varð til þess, að fækka varð nautgripum mikið, líklega um upp undir 15%. Samhliða skeður svo það, að þau ráð, sem til þess hafa verið höfð að örva haustmjólkurframleiðsluna undanfarið, með því að borga hana mun hærra verði til bænda en mjólk á öðrum tímum árs, er hæpið, að hægt sé að framkvæma nú, — þessi ráð er mjög vafasamt, að hægt sé að nota eftir ákvörðunum sex manna n. Þannig eru þarna tvö atriði, sem gera það að verkum, að það er ákaflega hætt við því, að sá litli mjólkurskortur, sem var í haust, sé ekki nema brot af því, sem vænta má, að verði næsta haust. Og þeir menn, sem staðið hafa að því að torvelda mjólkurframleiðsluna með öllu móti, sem þeir hafa getað, bera vissulega sinn hluta af ábyrgðinni á þeirri minnkun framleiðslunnar.