02.12.1943
Neðri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (3255)

100. mál, skipun mjólkurmála

Sigurður Kristjánsson:

Þegar ég tók til máls síðast og lét í ljós þá skoðun, að mér þætti bezt fara á að samþ. till. þá, sem hér liggur fyrir á þskj. 173 samkv. till. meiri hl. landbn., skildist mér, að hv. þm. Mýr. þættu það firn mikil. Hann sagði, að ég væri að fjandskapast gegn bændum með því að aðhyllast till. meiri hl. landbn. Það er einkennilegt, ef það er fjandskapur gagnvart bændum að samþ. till., sem landbn. flytur.

Ég ætla, að allir hv. þm. sjái, að hér er meira um gífuryrði en rök að ræða frá hendi hv. þm. Mýr. og annarra, sem taka í sama streng. Ég get ekki skilið, hvernig hægt er að verja afstöðu hv. þm. Mýr. til þessa máls, svo rammvíxlaður er hann orðinn í því. Fyrst gerir hann þá till. að fella till. á þskj. 173. Síðan gerir hann brtt. við hana og er samþ. till. hv. 2. þm. Skagf. Síðan kemur hann með brtt. við brtt. sína, og loks flytur hann brtt. í þessu máli á þskj. 330, og verður ekki annað séð en hann sé orðinn nokkuð reikull.

Þessi hv. þm. virtist mjög reiður mér og talaði af móði miklum. Ég veit ekki til, að hann hafi ástæðu til þess, því að ég þykist hafa verið mildur við hann. Ég er ekki reiður honum, svo dauðmeinlausum þm. Þótt hann gerist mærðarmikill nú í seinni tíð, hefur það ekki vakið reiði neins þm. Það eru eins konar flautir, sem hann framleiðir, og er hann þekktur að því. Þm. þykir því undrum sæta, þegar aðalflautameistari þingsins fer að kasta stórgripahnútum. Hann sagði, að ég hefði gert veður út af hraunkjötinu, en ég minntist ekki á það að öðru leyti en orð hans gáfu tilefni til, en hann sagði, að andstæðingar sínir hefðu lagzt á úldið kjöt suður í Hafnarfjarðarhrauni og þótt það réttur góður. En hann skapaði það, að ég hefði gert kjötútburðinn að umræðuefni og gert það til tjóns fyrir landsfólkið. Þetta eru vísvitandi ósannindi hjá þm. Við þetta bætti hann nokkrum orðum í svipuðum tón. Hann sagði, að ég væri þessi gerfallni skapillskumaður, sem ekkert nýtilegt mál flytti, ég væri ekkert annað en skapillskan og árásargirnin, ég legði aldrei annað til málanna en að fylgja því versta, sem fram kæmi í hverju máli. Þannig lýsti hann minni framkomu hér í þinginu. Ég skal ekki halda langa ræðu um framkomu mína hér. En það skal ég játa, að ég hef ekki tekið mikinn þátt í umræðum nema um þau mál, sem ég hef áhuga á. Þau mál, sem ég hef flutt, hafa oft vakið ágreining, þau hafa valdið deilum og þótt merkileg og vakið alþjóðarathygli, þótt þau hafi verið fá. En ég get verið ánægður með það að þau hafa flest fengið samþykki Alþingis, þótt það hafi stundum ekki verið fyrr en í þriðju eða fjórðu atrennu. Annaðhvort hafa rök mín bitið eða þungi almenningsálitsins hefur knúið þingmenn til að samþ. þau. Ég þarf því ekki að skammast mín fyrir þau. En það eru undur, að hv. þm. Mýr. skuli telja sig þess umkominn að dæma aðra. Ég veit ekki til, að eftir hann liggi nokkurt afrek hér í þinginu. Ég tel víst, að enginn muni nokkurt orð af því, sem frá þessum flautaþeytara hefur komið. Engin spor sjást eftir hann í þjóðmálunum, þar verður hvergi vart við afrek hans. Það vekur því undrun mína, að þessi þm. skuli allt í einu vera orðinn svona herskár í minn garð. Það er í algerðu ósamræmi við það álit manna, að þessi þm. sé alveg dauðmeinlaus maður. Ég veit, að þessi sami hv. þm. hefur vakið nokkra athygli sem viðvikaliðugur við aðra þm. Þeir hafa leitað til hans um stuðning við ýmis mál, og hefur hann þá stundum komið úr merkilegum áttum í atkvæðagreiðslum. En það vekur enga sérstaka athygli að gerast lánshross. Ég man, að í minni sveit voru sérstök hross höfð til lána. Þau urðu talsverðir gutlarar og sæmilega lipur fyrir stöðuga brúkun, en aldrei meira. Var oft hugsað með meðaumkun til lánstruntnanna, en engum datt í hug að bera traust til þeirra, þegar mikils þurfti við, enda er sá hestur, sem hrakinn er í sína áttina hvern daginn, vissulega aumkunarverðastur, og hugsa ég, að slík meðferð geti vakið viss skapleiðindi. Það er því fjarri því, að ég geti borið kala til þessa hv. þm., ég finn frekar til með honum vegna þessa ömurlega ástands. En mig undrar, að þessi þm., þessi umkomulitli þm., skuli vera að leggja dóm á þingafrek annarra, þar sem hann á engin sjálfur og hefur komið fram í þjóðmálunum á þann hátt, sem ég hef nú lýst.

Ég geri ráð fyrir því og hef heyrt það frá hv. forseta, að líða taki nú á seinni hluta umr. um þetta að mörgu leyti leiðinlega mál. Vil ég vænta þess, að flestir hv. þm. geti orðið við og samþ. hina hóflegu till. á þskj. 173. Flm. hennar hefur með flutningi hennar viljað sjá fyrir hag beggja aðila, ná einhverju samkomulagi milli neytenda og framleiðenda. Og þó að ég álíti þörf róttækari aðgerða, finnst mér sjálfsagt að styðja þessa hóflegu till., sem er, eins og ég hef áður tekið fram, til þess eins fram komin að bæta samkomulagið milli framleiðenda og neytenda. Ég er sannfærður um, að ýmsir ágallarnir í mjólkurmálinu eru óviðráðanlegir, og veit, að ýmislegt er gert til að bæta úr þeim. En þótt svo sé, er ekki sæmandi, að ekki sé gerð tilraun til að koma þessum málum í betra horf, og er því sjálfsagt að láta fram fara rannsókn í því skyni.