02.12.1943
Neðri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (3259)

100. mál, skipun mjólkurmála

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er ekki margt, sem ég þarf að svara. Það hafa tveir hv. þm. veitzt að mér persónulega, og það mætti ætla, að ég færi að svara þeim, en það ætla ég ekki að gera.

Hv. þm. A.-Húnv. varð sýnilega gramur, þegar ég var búinn að sýna honum fram á, að það er ekki hægt að gera þessa rannsókn, sem hann talaði um, að gera yrði, nema farið yrði inn á heimilin.

Hv. þm. varð líka gramur, þegar ég benti honum á þann áfellisdóm, sem hann kveður upp yfir bændum landsins — og þá sérstaklega húnvetnskum bændum, sem eru þeir einu, er hann þekkir, — þegar hann leyfir sér að segja, að þær áskoranir, sem fram hafa komið um þetta mál frá bændum landsins, væru pantaðar og það væri auðgert að fá slíkar áskoranir eftir pöntun. Gaf hann þannig í skyn, að bændur hefðu enga sjálfstæða skoðun. Þessa lýsingu dregur hann af bændum í þeirri sýslu, þar sem hann hefur starfað, en það er víst ekki nema í tveimur hreppum þar, sem hann þekkir bændur vel. En nú fór hann að reyna að klóra í bakkann og segjast hafa sagt annað en það, sem hann sagði, og í öðru lagi vildi hann skamma mig fyrir, að ég hefði sagt þetta. Og nú gerði hann annað, sem ekki var betra. Nú leyfði hann sér að segja, að bændur landsins hafi ekki áhuga á öðrum málum en þeim, sem snerta þá fjárhagslega. Hann segir, að bændur austur í landi og norður í landi láti sig engu skipta mjólkursölu í Reykjavík og þess vegna séu þær ályktanir, sem komi frá þessum bændum, pantaðar og yfirleitt sé bændastétt landsins þannig, að hún hugsi ekki um annað en það, sem henni komi fjárhagslega við. Þessa ályktun leyfði hann sér að draga af fámennum hópi manna í Austur-Húnavatnssýslu. Hann telur, að þeir séu ekki víðsýnni en svo, að þeim sé ekki trúandi til að gera ályktun um neitt annað en það, sem beint snertir þeirra eigin pyngjur. Þvílíkur hugsunarháttur. Ég ætla ekki að segja meira um þennan hugsunarhátt. Hann dæmir sig sjálfur, og ég vil helzt ekki þurfa að verða var við hann oftar, en ég vorkenni og aumka hv. þm.

Hv. þm. Hafnf. er hér ekki við, og mun ég því ekki svara honum mikið. Hann segir, að „við“ höfum unnið að því að láta mjólkurframleiðsluna á bæjarlandinu hverfa. Mér er ekki vel ljóst, hvað hann á hér við. Það, sem helzt sýnist ýta undir menn um að auka framleiðslu sína, er, að verðið fyrir þá vöru, sem þeir framleiða, sé það hátt, að framleiðslan borgi sig. 1942 er síðasta árið, sem fyrir liggur, hvaða verð menn hafa fengið fyrir mjólk á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur. Það eru til menn á bæjarlandinu, sem kallaðir eru undanþágumenn, þeir eru ekki margir, en þó nokkrir, sem hafa fjósin í því lagi, að heilbrigðiseftirlitið og dýralæknir leyfa þeim að selja mjólkina beint úr fjósum sínum til neytenda. Þessir menn fengu að meðaltali árið 1932 kr. 1,17 fyrir lítrann. Þá þurftu þeir að koma mjólkinni frá sér og senda til neytenda. Aðrir, sem seldu mjólk á bæjarlandinu í samsöluna, fengu 1,03 fyrir lítrann. Þeir hér á Reykjavíkursvæðinu, þ. e. milli Hellisheiðar og Skarðsheiðar, fengu 93 aura, þeir, sem eru austan Hellisheiðar, 87 aura, en í Borgarfirði ofan Skarðsheiðar 83 aura, allt í heilum aurum.

Nú vil ég spyrja hv. þm., hvort það, að skipulagið er búið að koma þessum verðmismun á, bendi til þess, að við séum, eins og hann segir, „búnir að drepa framleiðslu bænda“, þar sem þeir fá nú kr. 1,03 og kr. 1,17, þar sem þeir fengu áður 80 til 90 aura. Ef hlutföllin hefðu verið öfug, þá hefði kannske mátt segja, að settur hefði verið steinn í götu framleiðenda, enda er með því að setja upp, að fjós séu í lagi, hægt að fá undanþágu og selja mjólk beint úr þeim. Þess þurfti ekki áður. Ef honum finnst það sanngjörn krafa að krefjast meira hreinlætis, þá kemur það í bága við kröfu hans um góða mjólk. Ég veit því ekki, hvernig ber að skilja þetta.

Hv. þm. skorar á mig að nefna dæmi til sönnunar því, sem ég sagði, að hér á Alþ. væri gert allt, sem unnt væri, til að draga úr mjólkurframleiðslunni og styðja að því, að minni mjólk komi á markaðinn næsta ár en nú. Ég skal verða við því.

Ég skal þá fyrst benda á, að það hefur kveðið við þann són hér á Alþ., að mjólkin væri seld allt of háu verði. Það hafa verið fluttar tvær til þrjár ræður á þingi til að sýna, að verð það, sem sex manna n. komst að samkomulagi um, sé allt of hátt. Finnst honum það vera til þess fallið að ýta undir aukna mjólkurframleiðslu að halda því fram, að það þurfi að lækka mjólkurverðið? Og er það til að ýta undir mjólkurframleiðsluna, að Alþ. finni ástæðu til þess að skipa n., sem skuli hafa miklu víðtækara vald en nokkur n., sem skipuð hefur verið hér áður, til þess að rannsaka, hvort allt sé nú með felldu um mjólkurframleiðsluna? Er það til að ýta undir það, að nóg sé framleitt, að talað er um að taka af bændum framleiðslutæki þeirra sjálfra, mjólkurstöðvarnar? Svona mætti lengi telja.

Ég skal benda á, að þessir menn, sem yfirleitt vilja gera bændunum eins erfitt um mjólkurframleiðsluna og þeir geta, hafa gert það sumpart af skammsýni og svo af því að þeir eru dregnir með flokksbræðrum sínum, eins og hv. þm. A.-Húnv., sem er hér annarra verkfæri eins og stundum oftar.