26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

18. mál, ríkisreikningur 1940

Jón Pálmason:

Herra forseti. Frsm. fjhn., hv. þm. V.-Ísf., er ekki við og hefur beðið mig að segja nokkur orð fyrir hönd n. Fjhn. hefur yfirfarið reikninginn og aths. yfirskoðunarmanna og leggur til, að hann verði samþ. án þess að Alþ. geri sérstakar till. út af aths. En að því er vikið af hálfu n. í sambandi við eina aths., nefnilega, hvað ríkisreikningurinn er seint tilbúinn, að hún telur mikla þörf á að fá breyt. á því, enda má það vera öllum ljóst, þar sem það er reikningurinn fyrir 1940, sem verið er að samþ. nú. Þetta atriði kemur til athugunar hér í d. í sambandi við annað stjfrv., um breyt. á fjárhagsári ríkisins.

Fyrir hönd n. þarf ég ekki að segja fleira, en fyrir mína eigin hönd sem yfirskoðunarmaður vil ég segja nokkur orð til skýringar á því, að ég get fallizt á að afgreiða málið án till. frá Alþ.

Vegna þess, hvað reikningurinn er gamall og ýmsar aths. af okkar hálfu halda áfram í næsta reikningi á eftir, er ekki bein þörf á, að Alþ. geri sérstakar ráðstafanir nú.

Um aðra aths. vil ég segja það, að hjá innheimtumönnum er innheimta ekki í svo góðu lagi sem skyldi, en þetta er að færast í betra horf, og er ekki ástæða til að gera sérstakar ráðstafanir út af því nú.

Varðandi húseignir ríkisins þá hefur yfirskoðunarmönnum þótt undarlegt, að rekstrarhalli hefur verið á þeim undanfarið, og er það atriði, sem er til athugunar.

Um 10. aths., þ. e. skólabúið á Hvanneyri, að það skuli aldrei hafa skilað reikningum, sem hægt sé að samþ. óbreytta, vil ég segja það, að fjmrn. hefur ákveðið að láta fara fram rannsókn á því atriði.

8. aths. fjallar um það, að ekki eru komnir reikningar frá yfirfasteignamatinu. En þeir eru væntanlegir fljótlega, enda er það óviðunandi, að stofnun, sem hefur svo mikið fé með höndum, skili ekki af sér á réttum tíma.

11. aths. er um mæðiveikivarnirnar. Svo að árum skiptir hafa okkur ekki þótt reikningar frá þeirri stofnun vera í æskilegu lagi og svör þaðan ófullnægjandi, og hefur því verið vísað til aðgerða Alþ., en núverandi framkvæmdarstjóri hefur afsakað sig með misfellum í tíð fyrirrennara síns.

Varðandi aðrar aths. hér, sem ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi kynnt sér, skal ég taka það fram, að þau atriði eru þannig vaxin, að þau eru til athugunar framvegis og verða tekin til athugunar við endurskoðun næsta reiknings. Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða, nema tilefni verði gefið til, en fjhn. mælir með, að reikningurinn verði samþ., því að reikningslega er ekkert við hann að athuga.