15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (3283)

180. mál, jarðræktarmál

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er rétt, að það er óþarfi að eyða löngum tíma í umr. um þetta mál, því að það er auðvelt að mynda sér skoðun á því. En það er út af því, að fyrsti flm. þessarar till. lagði sérstaka áherzlu á það, að mýrarnar okkar væru góðar til túnræktar og að í þeim væri mikið frjómagn. Þetta hefur verið vitað síðustu tíu árin og er eitt af því fáa, sem menn hafa vitað. Það þarf enga rannsókn á því, hvernig á að ræsa mýrar fram. Það er búið að rannsaka það í Vesturálfu og Englandi með þeim vélum, sem hafa reynzt langafkastamestar við þá vinnu. Það er búið að fá tvær slíkar vélar hingað, og hafa þær verið reyndar. Það kostar 1/3 að grafa með þeim í samanburði við kaup, og það eru þessar vélar, sem eru notaðar við hina stóru jarðrækt í Englandi. Þetta eru þær beztu vélar, sem til eru, og er sú þriðja nú komin, og verða þær látnar raða sér á mýrlendið. Þessi nýja vél er alveg af sömu gerð og hinar, en nokkru stærri, og það þarf enga rannsókn á þessu. Það eru menn, sem kunna með þessar vélar að fara. M. a. er einn ágætur kjósandi í Árnessýslu, sem fer með eina vélina, og þm. þarf ekki annað en fara austur til þess að sjá, hvernig hún vinnur. Það er komin reynsla á því, og það eru nógir menn, sem kunna með þessar vélar að fara. Það er alveg fullrannsakað mál, hvernig mýrarnar okkar eru, og það er þegar fengin full reynsla af því erlendis, hvaða vélar eigi að fá. En það þarf að vinna meira og kaupa meira af vélum. — Viðvíkjandi jarðefnarannsóknunum vil ég segja það, að hingað heim kom maður, Björn Jóhannesson, til þess að rannsaka þetta. Hann dvelst nú fyrir vestan, er á jarðefnarannsóknastofnun og er að ljúka doktorsprófi. Hann kemur heim í vor og byrjar strax að vinna að því starfi, sem hann er ráðinn til, jarðefnarannsóknum. Það þarf enga þál. um það. Hann er einn af þeim ungu mönnum, sem ætlar, þrátt fyrir það að mikið er boðið í þá fyrir vestan, að helga starf sitt íslenzkum landbúnaði. Það, sem þarf að gera og þarf að gera svo fljótt sem unnt er, er að samþykkja frv., sem vísað var frá með rökst. dagskrá, til þess að verkið geti hafizt, í stað þess að tefja með umr. af þessu tagi. Svo skal ég ekki segja meira.