26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

18. mál, ríkisreikningur 1940

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ræða hv. 3. þm. Reykv. (JakM) gefur ekki tilefni til mikilla andsvara, en ég er honum þó ekki sammála um það, að fjhn. geti ekki skotið vissum málum eða í þessu tilfelli aths. um landsreikninginn til aðgerða Alþ. og að hún geti ekki átt frumkvæðið að því að taka meðferð mála upp. Það, sem fyrir okkur vakir, sem aths. gerðum, er í rauninni þetta: Er heimild í l. til þess að veita fé í þessu skyni? Ég reyndi að leiða rök að því, að í l. um lögreglumenn frá 1939 er ekki hægt að skilja, að lögreglan hér í Reykjavík skuli vera vopnuð. Þess vegna hlýtur hér að vera um greiðslur að ræða, sem engin heimild er. fyrir í l. Mér finnst því, að fjhn. eigi að taka upp þetta mál, ræða það hér á Alþ., og síðan má beina því til réttra hlutaðeigenda. Fjhn. veit, að þessum 19 þús. hefur verið varið án heimildar, og getur hún því hreyft þessu máli með fullum rétti. Ég er hv. 3. þm. Reykv. sammála um, að gera eigi breyt. á l., sem feli í sér heimild, annaðhvort jákvæð eða neikvæð ákvæði um það, hvort veita skuli fé til vopnakaupa fyrir lögregluna og að hvaða n., sem hefur áhuga á, að einhver skipan komist á þessi mál, taki þetta að sér.