16.11.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (3421)

127. mál, fyrningar fiskiskipa o.fl.

Gísli Jónsson:

Ég vil í upphafi máls míns leiðrétta misskilning í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hann talaði hér alltaf um frv., en hér er um þáltill. að ræða, eins og allir sjá, og geri hann ekki gleggri greinarmun á málefninu en þessu atriði, þá skal mig ekki undra ræðu hans.

Hvað viðkemur fyrirspurn hv. þm. V.-Húnv. um það, hvort líkar afskriftir þyrftu ekki að ná til fleiri aðila en útgerðarinnar, þá er það mitt álit, að þetta ætti að vera víðtækara og ná til allra eigna, sem nýta og nota þarf við allan atvinnurekstur til lands og sjávar. Um þær eignir gegnir allt öðru máli, sem eru ekki notaðar í sambandi við atvinnurekstur. Ég álít, að nýbýli heyri hér undir, og tel miklu nauðsynlegra, að eigendum þeirra væru veitt þessi hlunnindi en einhverjum einstaklingum, sem leggja fé í byggingar, af því að þeir hafa auðveldlega komizt yfir það. Það væri mikill munur á þessu og því að taka bíla undir þessar afskriftir. Það nær ekki nokkurri átt. Þeir tilheyra lausafé, sem breytir verði frá degi til dags. Slíkt væri alveg ófært.

Hv. 2. þm. N.-M. minntist einnig á, að gera þyrfti glöggan greinarmun á nýbyggingum og nýkaupum annars vegar og gömlum fasteignum hins vegar, sem hækkað hefðu í verði við að ganga kaupum og sölum. Það má telja eðlilegt, að á þetta sé bent. En þar sem ríkið tekur ágóðann af þessu hækkaða verði af þeim, er selja, þá er ekki óeðlilegt, að þessi hlunnindi nái einnig til þeirra, er kaupa. Ef menn eru aftur á móti varðir samkvæmt 62. gr. stjskr., þá er ég hv. þm. sammála um að gera greinarmun hér á.

Ég stóð nú einkum upp til að gera aths. við þá till. flm., að mál þetta gengi til fjvn. Hér er ekki um neina fjárveitingu að ræða. Ég legg því til, að málinu verði vísað til allshn., og vona, að hv. flm. sjái sér fært að taka þessa uppástungu sína aftur. Vænti ég þess, að það mæti þar ekki minni skilningi en í n., sem það væri ranglega dæmt í.