04.10.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (3493)

50. mál, gagnfræðanám

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að bera hér fram þáltill. á þskj. 62 um gagnfræðanám. Þau tvö aðalatriði, sem við álítum, að þurfi umbóta, eru í fyrsta lagi að samræma gagnfræðakennslu í landinu, þannig að próf frá hvaða gagnfræðaskóla sem er, veiti sömu réttindi til framhaldsnáms, og í öðru lagi, að héraðsskólunum verði sköpuð skilyrði til að halda uppi gagnfræðadeild. Nú sem stendur eru starfandi sex héraðsskólar hér á landi, svo og gagnfræðaskólar í flestum kaupstöðum, og eru þar veitt gagnfræðapróf, sem þó eru frábrugðin og veita ekki réttindi til framhaldsnáms að þrem undanteknum. Þessar undantekningar eru: gagnfræðadeildirnar við menntaskólana á Akureyri og í Reykjavík og Gagnfræðaskóli Reykvíkinga. Við teljum óheppilegt, að ekki skuli kleift fyrir nemendur að fá hin ákveðnu réttindi við hvern skólann, sem er, ef kunnátta er fyrir hendi. Með þessu er ekki ætlunin, að allir, sem í skólana fara, stundi framhaldsnám, heldur verði einnig aukin kennsla í öðrum greinum, t. d. verklegum, fyrir þá, er ætla sér ekki að stunda framhaldsnám. Mætti hátta því svo, að hafðar væru tvær deildir, og væri verkleg kennsla einkum í annarri og bókleg í hinni. Það mun nú vera starfandi nefnd skólafróðra manna, er vinnur að því að samræma kennslulöggjöf, og mun þetta þar tekið til athugunar.