13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (3530)

156. mál, rannsóknarnefnd vegna eyðileggingar á kjöti og öðrum neyzluvörum

Eysteinn Jónsson:

Ég óska þess, að hæstv. forseti sjái um, að hv. 1. flm. till. komi inn í d., svo að ég geti talað hér við hann. Sé flm. áhugamál að fá atkvgr. um málið, má ekki minna vera en hann sitji hér. Í ræðu hans voru atriði, sem ómögulegt er að ganga fram hjá. Hann hefur kennt sín nóg til þess undir umr., að hann var nú farinn að afsaka sumt af því, sem hann var búinn áður að láta sér um munn fara, en í öðru orðinu leitaðist hann þó við að dylgja um allt hið sama á nýjan leik.

Hann segir nú um rannsóknarbeiðni SÍS, að hún sýni, að SÍS „vill komast undan allri rannsókn“, og um þetta hljóti menn að hafa sannfærzt við lestur bréfs SÍS. — Það þarf hestaheilsu óskammfeilninnar til að bera slík öfugmæli fram eftir það, sem upplýst hefur verið, að sá, sem sökum var borinn, hefur krafizt sakamálsrannsóknar á sjálfum sér og öllum aðstæðum til að fá upplýst til hlítar, hvort ásakanirnar hafi við minnstu rök að styðjast. Þessi hv. þm. leyfir sér eftir sem áður að kasta því framan í þm., að allar getsakir sínar um sekt aðila séu sannindi, sem liggi ljóst fyrir, það þurfi enga frekari rannsókn. Svo fór hann að skýra, hvernig lægi í þessu, og útskýringarnar urðu álíka undarlegar og getsakirnar fyrr: Af því að stjórn SÍS sendir kröfuna um rannsókn, er ekki, segir hann, hægt að taka skýrslu af neinum starfsmanni þess í því máli, og með þessu er komið í veg fyrir, að rannsókn á gerðum þess beri árangur. Ég held, að fáum þýði að bjóða upp á annað eins og þetta. Allir vita, að sá rannsóknardómari, sem settur er í þetta mál, getur krafizt vitnisburðar af hverjum þeim starfsmanni þessa fyrirtækis, sem honum sýnist.

Hv. þm. sagði, að Alþ. væri eini aðilinn, sem gæti látið rannsókn fara fram, svo að mark væri á takandi. Nú veit hv. þm., að hver einstakur borgari hefur rétt til þess að senda dómsmrn. kæru yfir hverju því, sem honum þykir vítavert, og það þarf ekki að varða hann neitt sjálfan. Hv. þm. gæti þannig sjálfur farið fram á slíka rannsókn, sem hann vill nú láta Alþ. fara fram á. Ég skil ekkert í því, að maður með lagapróf skuli geta farið með aðra eins vitleysu, og ég gæti því hugsað mér, að Alþ. samþ., að bezt mundi að senda hann aftur í lagadeildina til þess að læra betur. Það sýnir bezt málstaðinn og hvaðan þetta er runnið, að hv. þm. Siglf. skuli vilja gera sig að slíku viðundri í augum alls þingheims sem hann hefur gert með því að halda þessu fram.

Þá sagði hv. þm., að hann væri hissa á því, að þeir, sem væru hlynntir málinu, skyldu ekki vilja láta fara fram rannsókn í málinu, í hvaða formi sem væri. Ég held, að það sé tæpast hægt að lá nokkrum manni það, þótt hann vilji ekki leggja sig undir rannsókn annars eins manns og hv. þm. hefur sýnt sig að vera með framkomu sinni í þessu máli. Það er auðheyrt af málsfærslu hv. þm., að það, sem fyrir honum vakir, er alls ekki það að fá upplýst það rétta, heldur að enginn endir verði á dylgjunum og róginum í sambandi við þetta mál. Þetta verður ekki dregið í efa. Það, sem honum þykir að sakamálsrannsókn, er það, að þar er ekki hægt að koma hlutdrægni að. Það er ekki hægt að kom við þeirri tegund af skýrslugerð, sem hv. þm. æskir eftir. Þess vegna heitir það á hans máli „að koma sér undan rannsókn“ að óska eftir því, að sakamálsrannsókn fari fram á óhlutdrægan hátt.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið helzt að heyra á mér, að það mætti kasta kjöti „eftir Behag“. Ég ætla nú ekki að ræða málið á þessu hjá honum, en hvernig gat hv. þm. fengið þetta út úr ræðu minni? Ég tók það þó fram, að fátt eða ekkert hefði verið talið jafnóhæfilegt hér á landi og það að fara illa með matvæli og kasta nýtum matvælum. En dylgjur hv. þm. falla einnig um sjálfar sig, vegna þess að það magn, sem hér er um að ræða, er svo lítill hluti, eitthvað 5–6‰, af því kjöti, sem kemur á markaðinn, að það getur engin áhrif haft á sölumöguleikana.

Þá sagði hv. þm., að hann vildi ekki neita því, að kjötið hefði verið skemmt. Þetta er hann þó farinn að bogna, en honum fannst þetta svo óeðlilega mikið. Nú hefur þó hv. þm. Ak. upplýst það, að jafnmikið eða meira kjöt hafi oft skemmzt undir alveg venjulegum kringumstæðum. Þá voru nægar tunnur og enginn dráttur á því, að kjötið væri saltað. En nú voru aðeins til ófullkomnar tunnur og talsverður dráttur á, að kjötið væri saltað, þar sem það átti að reyna að selja það fyrst. En hv. þm. tekur það alls ekki til greina, heldur ber bara höfðinu við steininn.

Ég minntist áðan á það, að hv. þm. hefði gefið í skyn, að kjötið hefði verið eyðilagt til þess að létta á markaðinum. Í þessu sambandi langar mig til þess, með leyfi hæstv. forseta, að benda á eitt atriði í grg., sem sýnir, hvernig þessir hv. þm. láta sér sæma að fara orðum um atriði, sem þeir þó viðurkenna nú, að sé alveg óupplýst. Í grg. segir svo: „Íslenzk alþýða hefur fram til þessa lifað við þau kjör, að hún hefur ekki haft nema til hnífs og skeiðar, þegar bezt lét, og frá öndverðu hefur það verið álitin ódyggð og hneisa að fleygja mat hér á landi, — löngum verið vitnað til þess sem táknræns dæmis, hvern óþokka landsmenn lögðu á Kolbein unga fyrir að láta brenna hval, er óvinir hans áttu.“ Með öðrum orðum, að þetta atriði er þarna túlkað þannig, að því er líkt við það, er Kolbeinn ungi fór til Vestfjarða til þess að eyða byggðina þar og herjaði með því að brenna hval fyrir óvinum sínum og hugðist þannig eyða matbjörg þeirra, svo að þeir gætu ekki haldizt við. Svo kemur hv. þm. Siglf. og segist ekkert skilja í því, hvað menn taki þetta óstinnt upp, og er hissa á því, að hann skuli ekki fá till. sína samþ. orðalaust. Fyrr má nú vera hræsni og yfirdrepsskapur en það, sem kemur fram í þessum látalátum hv. þm. Sannleikurinn er sá, að í þessu plaggi er ráðizt með slíkum ofsa og frekju, ekki einungis á alla starfsemi SÍS, heldur er einnig trúnaðarmönnum bænda líkt við mann, sem fór með her manns í þeim tilgangi að leggja í auðn byggðir manna, og gefið í skyn, að þeir leggi það fyrir sig að eyðileggja matvæli. En þessir hv. þm. eru ekki búnir að bíta úr nálinni með allan þann ofstopa, sem þeir hafa sýnt í sambandi við þetta mál. Ég hlustaði með mikilli athygli á ræðu hv. þm. Siglf., ekki þó af því, að ég byggist við, að það væri mikið á henni að græða, en ég hafði gaman af að hlusta á þær fjarstæður, sem hann hlaut að bera fyrir sig, og hef ég nú rætt þær nokkuð. Það er þó eitt atriði eftir, sem mig langar til þess að minnast á.

Þegar hann hafði lýst yfir því, að hann skyldi ekki neita því, að kjötið hafi verið skemmt, þá sótti hann í sig veðrið og sagði, að það væri ekkert að marka, þótt hv. þm. Ak. hefði séð úldið kjöt, það væri engin sönnun fyrir því, að kjötið hefði ekki átt að rýma af markaðinum, því að það væri hægt að gera kjöt úldið. En hann ætti að athuga, hve gáfulegt það er að gefa þetta í skyn, þar sem hann veit, að þetta voru aðeins 5–6‰ af því kjöti, sem kemur árlega á markaðinn, og það má því geta nærri, hve mikið það losar um á markaðinum, að þetta magn hverfur þaðan. Af því að úrskurður liggur fyrir um, að kjötið hafi verið skemmt, þá segir hv. þm., að það hafi verið gert úldið til þess að fá blessun yfirdýralæknisins. Það er nú rétt að athuga nokkuð nánar þessar dylgjur hv. þm. — Það er þá fyrst og fremst upplýst í málinu, að þetta kjöt var selt, það var búið að selja það til Bretlands. Ég hefði nú gaman af að vita, hvaða ástæður hefðu getað legið til þess, að SÍS færi að ýlda kjötið af ásettu ráði, þegar búið var að selja það og það stóð til, að uppbætur yrðu greiddar á það, og SÍS færi þá að skaða bændur þannig viljandi með því að ýlda kjötið. Þessu kjöti var ekki ofaukið á markaðinum, það var búið að selja það. Hvaða hvatir hefðu þá átt að liggja á bak við það, sem hv. þm. er að dylgja um? Hverjum hefðu fulltrúar bænda átt að vera að þjóna með því að eyðileggja kjötið? Til hvers ætti það að hafa verið gert? Auk þess hefði alls ekkert munað um þetta kjöt á markaðinum, svo að það var ekki hægt að hafa það fyrir átyllu til þess að eyðileggja kjötið, að það væri þar fyrir. Nei, ég hef aldrei vitað annan eins málsflutning og þann, sem hv. þm. hefur nú séð sig neyddan til að grípa til til þess að verja málstað sinn og öll þau ósköp, sem hann hefur ratað í í sambandi við þessa till. Vill hv. þm. taka þann kost, að við álítum hann þann sauð, að hann trúi því, að SÍS hafi í raun og veru ýldað kjötið viljandi? Hann verður annaðhvort að sætta sig við þann kost eða þá hinn, að hann hafi af framhleypni og illgirni til trúnaðarmanna bænda borið forráðamenn samvinnufélaganna þeim brigzlum í grg. sinni, að með einsdæmum má telja.

Ég minntist á það í fyrri ræðu minni, að hv. þm. vildi láta líta á sig sem eins konar varðmann í þessu máli, varðmann, sem gæti ekki horft á það þegjandi, að góður matur færi forgörðum. Ég sýndi þá líka fram á það, að hann gæti ekki orðið skoðaður í því ljósi, en hv. þm. gaf tilefni til þess að fara nánar út í það. Hv. þm. V.-Sk. sýndi fram á það í ræðu sinni, að í grg. væri það kyrfilega tekið fram, að það væri átt við afurðir bænda, þar sem talað er um rannsókn vegna eyðileggingar á öðrum neyzluvörum en kjöti. Það er ekkert vikið að því, að aðrar matvælaskemmdir þurfi að rannsaka. Þegar flm. eru svo að gefa það í skyn, að eyðilegging hafi átt sér stað, þá tala þeir um það af miklum fjálgleik í grg., hve sorglegt það sé, þegar verk bændanna fari þannig forgörðum. Þeir segja svo í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Bændur landsins vinna hörðum höndum langan vinnudag allan ársins hring að því að gera bústofn sinn sem arðgæfastan og efla framleiðslu matvæla í landinu. Hinir smærri sauðbændur landsins lifa við þröngan kost, mega aldrei um frjálst höfuð strjúka vegna anna við bú sín og bera þó í mörgu falli ekki úr býtum það, sem aðrar atvinnustéttir mundu kalla sjálfsögðustu og óhjákvæmilegustu lífsþægindi“. — Þetta orð, „sauðbændur“, er harla einkennilegt hjá þeim, og veit ég ekki, hvaðan þeir hafa það, en það má þó skilja það með lagi. Þetta segja þeir til þess að leggja áherzlu á það, hve mikil óhæfa það sé, að árangurinn af striti þessara manna skuli fara þannig forgörðum. En nú skyldu menn halda, ef hv. þm. hafa svo mikinn áhuga á þessu sem þeir vilja vera láta, að það hefði einnig átt að koma fram hjá þeim, hversu sorglegt það væri, þegar fiskimenn landsins leggja saman dag og nótt til að veiða fiskinn og hætta svo lífi sínu til þess að sigla með hann á markað, að þá skyldi vara þeirra einnig eyðileggjast í stórum stíi. En á það er ekki minnzt einu einasta orði. Nú er það þegar upplýst, að a. m. k. 15 sinnum meiri hefur eyðilagzt af sjávarafurðum en landbúnaðarafurðum, og það er aðeins miðað við það, sem upplýst er, að hafi skemmzt af þessa árs framleiðslu, fyrir utan þær þúsundir tunna af síld, sem hafa eyðilagzt, og fyrir utan þær þúsundir tonna af fiski, sem hefur verið fluttur á erlendan markað og verið fleygt þar, þegar sjómennirnir voru búnir að hætta lífi sínu við að flytja hann út, en hann hefur eyðilagzt í skipunum á leiðinni. Nú skyldu menn ætla, að hv. flm. hefðu einnig minnzt nokkuð á þetta, en um það er ekki sagt eitt einasta orð, eins og þeir viti ekki til þess, að nokkurn tíma hafi skemmzt eitt einasta kg. af sjávarafurðum. Þetta sýnir orðalag þáltill. og grg. svo greinilega, að ekki verður um villzt. Hv. flm. eru því alveg fullkomlega berir að fyllstu hlutdrægni í sambandi við þetta mál og geta aldrei þvegið það af sér, hvernig sem þeir stritast við.

Það er kafli í grg., þar sem hv. flm. gráta krókódílstárum yfir þessari eyðileggingu á kjöti, og í því sambandi reyna þeir að spila á þá strengi, sem viðkvæmastir eru. Í grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Eyðilegging íslenzkra matvæla í svo stórum stíl sem hér hefur verið framin er þeim mun alvarlegra mál sem heimurinn umhverfis okkur er nú á barmi hungursneyðar, en kjötskortur ríkjandi í öllum nálægum löndum, svo að skammtur fólks af þessari fæðutegund hefur hvarvetna utan Íslands verið knepraður til hins ýtrasta. Eyðilegging kjöts er á þessum tímum hneyksli í augum alls heimsins, og mun útlendum mönnum ekki síður en innlendum þykja það undur, ef aðilar, sem uppvísir verða að slíkum óhæfuverkum á neyðartímum, verða ekki látnir hljóta makleg málagjöld. . . .“ Það er með öðrum orðum hneyksli í augum alls heimsins, að 200 tunnur af óætu kjöti skuli urðaðar suður í Hafnarfjarðarhrauni. Hér er og talað um það af miklum fjálgleik, að menn séu nú mjög kjötþurfi í nálægum löndum, en það er hvergi minnzt á það, að nokkur erlendur maður muni hafa lyst á fiski eða síld. Þó vita þessir menn, að miklu af fiski er hent, þegar til Bretlands er komið. Þetta vita þessir menn, og þeir vita e. t. v. líka, að það eru uppi ásakanir um, að þetta stafi af því, að keppzt sé um að láta sem mest í skipin, þó að ég vilji ekki leggja dóm á slíkt. En fyrst þeir eru fullir vandlætingar út af þessum skemmdum á kjöti, hversu illa ætti þeim þá ekki að líða út af því fiskimagni, sem árlega er eyðilagt? Það gengur hneyksli næst, þegar þeir nota þetta tækifæri til þess að útausa hræsni sinni um erfiði íslenzkra bænda.

Ég ætla svo ekki að þreyta þm. meira, en ég varð að láta þá heyra, hve aumlega þessir menn eru nú komnir.