15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (3591)

85. mál, vatnsveita í Grímsey

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér fyndist nú, að eftir hina síendurteknu umvöndun hæstv. forseta um, að þm. eigi að sitja hér eitthvað kyrrir við störf sín, þá væri það hið minnsta, sem hægt væri að gera, a. m. k. þegar enginn flm. máls er viðstaddur, þegar þeirra eigin mál koma til umr. hér á Alþ., að því máli yrði vísað frá og það kæmi ekki fyrir hæstv. Alþ. til meðferðar fyrr en á næsta þingi. Það mundi kannske vera þeim verðugt aðhald í því starfi, sem þeir eiga að sinna.

Ég ætla að gera ofurlitla aths. við þessa till., þó að ekki hafi farið fram um það neinar umr. af hálfu flm. Ég vil leyfa mér að benda þeirri n., sem kann að fá mál þetta til athugunar, sem ég geri ráð fyrir, að verði hv. fjvn., á það, að hér er farið inn á mjög hættulega braut. Það er ekki vafi á því, að nái frv. fram að ganga, þá fylgir því það, að það munu koma óstöðvandi kröfur frá öllum sveitaþorpum og bæjum um að fá ekki aðeins styrk til þess að gera vatnsveitur hjá sér, heldur, eins og hér er farið fram á, allan kostnaðinn við vatnsveitur hjá sér greiddan úr ríkissjóði.

Í sambandi við þetta vil ég einnig benda á, hvort ekki sé í raun og veru tímabært að taka málið upp á þeim grundvelli að semja að fullu og öllu vatnsveitulöggjöf fyrir hina ýmsu staði landsins, ekki aðeins fyrir smáþorpin, heldur einnig fyrir ýmsar byggðir og bæi á landinu. Það er vitanlegt, að það er ákaflega stór baggi á fjöldamörgum sveitabýlum landsins að þurfa að sækja allt sitt vatn. Það er að vísu ekki ákaflega mikill kostnaður fyrir býlin að gera vatnsveitur hjá sér, þó að í ýmsum tilfellum geti bændur það ekki hjálparlaust. Mér sýnist því þess vert, að það sé athugað, hvort hv. n. vildi ekki gera þá dagskrártill. að vísa málinu frá á þeim grundvelli, að það yrði undirbúið að semja sem allra fyrst lagakerfi um þessi mál fyrir allt landið.