27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í D-deild Alþingistíðinda. (3609)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa miklar málalengingar.

Það er nú orðið nokkuð síðan málið var rætt hér, og hefur margt gleymzt, sem fyrirspyrjendur hafa ef til vill óskað að fá svarað. Um brtt. mína við frv. vil ég taka það fram, að ég tel sjálfsagt, að henni verði vísað til nefndar, að því er mér skilst, til allshn.

Það var aðeins eitt atriði í ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem ég vildi drepa á. Hann ræddi um það, að hann vildi ekki bera brtt. mínar á þskj. 175 saman við till. á þskj. 171, það væri ekki líku saman að jafna, þar sem væru ráðstafanir þær, sem farið er fram á á þessum tveimur þingskjölum. Ég vildi í þessu sambandi lýsa yfir því, ef fara á inn á þá leið að banna vissum þegnum þjóðfélagsins skipti við setuliðið, að það eigi að ganga jafnt yfir alla borgara þjóðfélagsins. Ef einhver fær að skipta við setuliðið, er ekkert réttlæti í því að banna öðrum það.

Reykjavíkurbær rekur tvö fyrirtæki, sem skipta við setuliðið og ég vil nefna í þessu sambandi, en það eru vatns- og rafmagnsveitan. Það er kunnugt, að stórkostlegur skortur er á neyzluvatni í bænum, sökum þess að herliðið tekur til sinna þarfa vatn úr vatnsveitukerfi bæjarins. Þrátt fyrir skort á vatni meðal innlendra neytenda selur bærinn setuliðinu vatn. — Einnig er það vitað, að mikil óþægindi stafa af skorti á rafmagni hér í bænum. Samt vill bæjarstjórnin selja rafmagn til setuliðsins og gerir það.

Því hefur verið haldið fram, að verð það, sem setuliðið greiddi fyrir rafmagnið, væri mun hærra en neytendur hér í Reykjavík greiða. En það sjá allir, hve veigamikil þessi rök eru, þegar annars vegar er þörf neytendanna.

Ég er sannfærður um, að Bjarna Benediktssyni, sem hefur verið prófessor í lögum, er ljóst hið rétta í þessu máli. Vil ég í þessu sambandi taka dæmi. Ef við herra borgarstjórinn værum jafnréttháir borgarar þjóðfélagsins og honum leyfðist að selja vinnu sína, en mér væri bannað að selja mína vinnu, af því að hann hefði þörf fyrir hana. Hann ætti að fá afraksturinn af vinnu minni, jafnvel þótt það væri mér í óhag! — Þetta virðist vera hugsunarháttur, sem má ekki líðast í þjóðfélaginu.

Ef einhver vill verzla með vöru sína, á hann ekki að koma fram með kröfu um að banna öðrum aðilum það. Fyrst er að gera kröfur til sjálfs sín í þessu efni, áður en farið er að krefjast afraksturs af vinnu annarra. Þetta er svo augljóst mál, að ekki er ástæða til að fjölyrða um það. Og þar sem þeir vilja ekki fallast á þetta, geta þeir ekki að réttu lagi verið með kröfur á hendur öðrum.

Ég vil, eftir því sem málið allt horfir við, fara fram á og gera að till. minni, að málinu verði vísað til hv. allshn., og þá sérstaklega með það fyrir augum, að það er viðurkennt af hv. flm. sjálfum, að það sje vitanlega óhugsandi, að samþ. þáltill. eins og hún liggur fyrir, þar sem hv. flm. segja, að það hafi aldrei verið ætlun sín, að mjólkin yrði tekin af sjúkum mönnum í setuliðinu, sem þurfa á henni að halda. Þess vegna þarf þessi þáltill. stórbreytinga við, jafnvel þó að hún yrði samþ. Og það er líka samþ. af hv. flm. sjálfum. Og jafnhliða þarf þá að athuga í n., hvort ekki er um sambærilegt efni að ræða í brtt. minni eins og í þáltill. sjálfri.