26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (3669)

113. mál, uppbót á landbúnaðarafurðum

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Mér datt ekki í hug, að ég mundi taka til máls af því að ég gerði ekki ráð fyrir, þegar farið var fram á, að umr. yrði frestað og málið sett í n., að það yrði þetta málþóf, sem orðið hefur um till. Ég hafði ekki gert ráð fyrir, að ástæða yrði til fyrir mig að taka til máls. Þessar umr. byrjuðu strax á útásetningi á till., og hefur allmikill hluti af umr. verið um það að sýna, að við, sem flytjum hana, ætlum að hafa af nokkrum hluta af framleiðendum landbúnaðarafurða þær verðuppbætur, sem þeim ber, þar sem við tölum um, að bændur eigi að kvitta fyrir. Nú vita menn það fyllilega, að með þessu er átt við framleiðendur til sveita, því að það eru mest bændur, og ég get tekið undir það, sem 1. flm. sagði, að sé orðalaginu áfátt, er hægt að breyta því, en það gefur ekkert tilefni til þeirra ummæla, sem þessir menn hafa látið falla um málið, því að þeir eru það vitibornir menn, að þeir vita, að sé orðalagið ekki greinilegt, er sjálfsagt, að við meðferð í n. verði það gert greinilegra.

Annars er rökst. dagskráin, sem fram er komin, einkennilega rökstödd, því að rökstuðningur hennar er sá, að af því að Alþingi sjái sér ekki fært að samþykkja till., skuli það ekki gert. Ég held, að það komi venjulega fram í atkvgr., hvort hægt sé að samþykkja eða ekki, og atkvgr. fari fram eftir venjulegum þingsköpum.

En hvað það snertir, sem komið hefur fram í umr., að till. sé óþörf, vil ég taka það fram, að þáltill. frá 31. ágúst 1942 varð til með talsvert undarlegum hætti. Eins og menn kannske muna, fer hún fram á greiðslur úr ríkissjóði, sem enginn þm. gat sagt um, hvað miklar yrðu. Sumir gizkuðu á 10 milljónir, aðrir 20 milljónir og enn aðrir 30 milljónir, og þótti ekki nema sjálfsagt að brjóta skýlaus fyrirmæli til þess að koma till. gegnum þingið, svona stórkostlegu fjárhagsmáli, án þess að hafa um það tvær umr. Við það var ekki komandi. Þegar svo er í pottinn búið frá Alþingi, að samþ. eru með einfaldri þál. fjárframlög, sem enginn veit, hvað mikil eru, og ekki þykir ástæða til að láta fara fram um slíkt tvær umr., þykir mér því tæplega við bætandi, að þm. séu að tala um, að menn þurfi ekki að gefa aðra tryggingu fyrir því en sín ærlegu andlit, — ég efast ekki um, að þau eru ærleg, — en það er ekki svo mikið að ætlast til, að þessir menn útvegi og leggi fram kvittanir þeirra manna, sem féð á að ganga til. Ég efast ekki um, að það er auðvelt. Ég vil upplýsa það, að það eru margir menn meðal bænda, sem halda, að féð komist ekki á sinn stað, og það er eins gott fyrir þessa menn að eyða þeirri tortryggni. Hún er ekki hjá mér, en það eru margir, sem hafa sagt í mín eyru, að þeir vissu ekki, hvað þeir fengju. Ég hitti í sumar ýmsa menn úr bændastétt, sem höfðu ýmsar sögur að segja, þar á meðal það, að verðuppbæturnar kæmu ákaflega misjafnt niður. Í einhverri beztu sauðfjársveit á Íslandi eru borgaðar kr. 4.00 á kg. „Þá fáið þið einhverja uppbót“, sagði ég. En þeir sögðu: „Við sjáum aldrei einn eyri af því“. Ég er ekki í vafa um, að þetta er rangt. Þessir menn fá uppbæturnar, en það rétta á að koma fram.

Ég vil taka það fram, að mér kom ekki til hugar, þegar ég gerðist meðflm. að þessari till., að nokkur væri á móti því að afla slíkra kvittana, og kom mér það nokkuð ókunnuglega fyrir sjónir, að menn gætu verið á móti þessu. En ég meinti meira en það, sem sagt er á þskj. 205. Ég meinti, að það skyldu ætíð koma kvittanir fyrir uppbætur úr ríkissjóði, til þess að menn geti séð, hver fyrir sig, hvort hlutur þeirra er fyrir borð borinn. Ég get sagt það, að það kom fram mikil óánægja í mín eyru út af skiptunum á verðlagsuppbótunum. Það er svo komið, að uppbætur á landbúnaðarafurðir eru komnar út fyrir þann grundvöll, sem þeim var ætlaður í fyrstu, — að sjá um, að menn fengju sæmileg laun fyrir vinnu sína, og er nú svo komið, að þetta er orðin viðbót við gróðann. Það er ekkert leyndarmál, að bændur, a. m. k. langflestir, hafa sagt, að árið 1942 hafi verið allra bezta búskaparárið, sem hér hefur verið líklega síðan á landnámstíð, og menn hafi grætt meira en dæmi væru til áður. Enda er það víst rétt, að sá, sem á 300 dilka, getur búizt við að fá 6000 til 8000 kr. í uppbætur, en sá, sem á ekki nema 50 dilka, fær aðeins nokkur hundruð krónur. Þetta þarf að endurskoða, og ég held, að það væri líka æskilegt að athuga, hvernig þetta skiptist um sveitir landsins.

Hv. 2. þm. Rang. sagði hér, að við þekktum ekki til þeirra verzlunarhátta, sem tíðkaðir væru með landbúnaðarafurðir. Það er að sönnu alveg satt, en ýmsar spurnir hefur maður af því, — þar á meðal það, að ekki er óalgengt að víkja til milli tegunda þannig að taka hluta af andvirði einnar vörutegundar og láta hana koma til góða annarri vörutegund hjá sama bónda.

Vera má, að með þeirri tilfærslu milli vörutegunda komi allt í sama stað niður, svo að hver fái sitt. En þetta er ekki venjulegt eða eins og önnur viðskipti. Það eru sjálfsagt dálítið fágætir verzlunarhættir, ef satt er, sem bændur hafa sagt mér að það hafi verið haft mikið af þeim með því að leggja á þá gjöld í sambandi við sauðfjárslátrun og taka af þeim garnir fyrir ekkert eða sama og ekkert, og margt fleira segja þeir einstakt um verzlun með landbúnaðarafurðir. Ég get ekki dæmt um þetta af eigin reynd, en það hefur áreiðanlega við nokkuð að styðjast.

Það var ekki rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að bændur fylgist almennt vel með því, hvað þeir fá fyrir sínar afurðir. Þeir fylgjast ekki vel með því. Greindustu og menntuðustu bændur eru oft lítt kunnugir því, hvernig þeim er reiknað verð afurðanna.