11.11.1943
Efri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í D-deild Alþingistíðinda. (3750)

142. mál, skipulagsnefnd ríkisins

Gísli Jónsson:

Ég vil taka undir það, að þessu máli sé hraðað sem mest gegnum þingið. Það er enginn vafi á því, að þetta er mjög mikið fjárhagslegt atriði fyrir mörg þorp, sem nú eru að rísa upp. Ég vil benda á það, að Alþ. veitti ríkisstj. fjárfúlgu til Grundarfjarðar á s. l. ári, og er mér sagt, að þar hafi risið upp þrjú hús, sem öll þurfi að sprengja upp aftur vegna skipulagsins. Ef þetta er svo víða, er engin vanþörf á því, að Alþ. grípi í taumana, og vil ég vænta þess, að hv. allshn. vildi jafnframt athuga, hvort ekki er þörf á því, að sett sé inn í till., að jafnframt skuli skipulagslögin endurskoðuð og skipulagsnefnd gefið meira vald og svið hennar víkkað meira en í lögunum segir. Þetta er mikið atriði fyrir sjávarþorpin og sveitaþorpin, sem eru að rísa upp, því að það er ekki sama, hvernig þau eru sett niður.