04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

27. mál, fjárlög 1944

Finnur Jónsson:

Ég hafði skrifað undir nál. með fyrirvara. Ég hafði gert aths. við áætlun um fjárgreiðslur til listamanna. Á þessu ári er greidd verðlagsuppbót á það fé, og mun fjárhæðin nema með. henni um 312.000 krónum. Ég tel þörf á að hækka hana talsvert.

Á síðast liðnu ári var gert ráð fyrir heimild til fjárveitinga og varið nokkru fé í byggingarstyrk til nokkurra listamanna. Tel ég, að ríkið ætti að standa straum af þessu áfram, og vænti ég þess, að leitað verði samkomulags í þessu máli fyrir 3. umr.

Næst eru fjárframlög til stuðnings sjávarútveginum, til nýbyggingar flotans. Nú hagar svo til á því sviði, að nýbygging fiskiskipa er lítt framkvæmanleg, því að mjög er erfitt að fá skip smíðuð. Þó tel ég, eftir eftirleitunum, sem fram hafa farið, að hægt muni vera að fá skip smíðuð í Svíþjóð, þannig að þau yrðu tilbúin til veiða um það bil, sem styrjöldinni kynni að ljúka, í síðasta lagi. Ég álít, að þar sem fiskiflotinn hefur gengið mikið saman á undanförnum stríðsárum, beri að sjálfsögðu að nota hvert tækifæri til þess að fá bætt úr þeim vandræðum, sem fyrirsjáanleg eru í þessu efni. Tel ég sjálfsagt, að möguleikinn til þess að fá fiskiskip byggð í Svíþjóð verði tekinn til athugunar.

Ég ætla ekki að fara mikið út í að ræða fjárlagafrv. En ég vil lýsa yfir, að ég er þeirrar skoðunar, að leggja beri fram verulegt fé til verklegra framkvæmda. Minni hl. fjvn. vill fara lengra en ég tel æskilegt í þessu efni, og ber minna á milli mín og meiri hl. Tel ég, að eftir útliti um tekjur ríkissjóðs megi segja, að till. meiri hl. geri ráð fyrir um 10 af hundraði fyrir vanhöldum, og álít ég það sæmilega varlega tekjuáætlun.

Hæstv. fjmrh. sagði, að till. meiri hl. lýstu mikilli bjartsýni um tekjur ríkissjóðs. Ég tel, að þær lýsi heilbrigðu áliti og heilbrigðri varfærni. Hæstv. fjmrh. benti á, að verðtollurinn kynni máske að bregðast eitthvað. Hann er tekinn af verði varanna, kominna í höfn hér, og flutningsgjöld eru hækkandi. Held ég, að í þessu efni sé ekkert að óttast.

Hæstv. fjmrh. gat þess, að ef tekjur ríkissjóðs minnkuðu, yrði að draga úr útgjöldum ríkisins sem mest. Tel ég það ekki fært að því er snertir fé til verklegra framkvæmda. Ég held, að heldur verði að finna nýjar leiðir til öflunar tekna, ef tekjustofnar þeir, sem Alþingi byggir á, kynnu að bregðast eitthvað. Ég álít það tvímælalausa nauðsyn að leggja fé til hliðar til verklegra framkvæmda og séð verði um, að því verði ekki eytt til annarra framkvæmda.