08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

130. mál, reikningaskrifstofa sjávarútvegsins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að fá upplýsingar um visst atriði í sambandi við þetta mál, áður en það verður afgreitt.

Um nokkurt skeið hefur verið starfrækt stofnun af hálfu Búnaðarfélags Íslands, er nefnist Búreikningaskrifstofa ríkisins. Hér á þessu þingi hafa komið fram raddir um, að það væri ekki að treysta þeim tölum, sem frá þessari stofnun kæmu, nema því aðeins, að það væri í sambandi víð hagstofuna. Nú er hér á ferðinni frv., sem er byggt upp á sama hátt fyrir sjávarútveginn sem frv. um Búreikningaskrifstofu ríkisins fyrir landbúnaðinn. Nú vil ég spyrja: Ef ekki er hægt að treysta tölum, sem koma frá búreikningaskrifstofunni, nema því aðeins, að hagstofan hafi umsjón þar með, hvernig er þá hægt að treysta tölum, sem koma frá Fiskifélaginu, ef þær eru ekki yfirfarnar af hagstofunni?

Ég er annars alveg sammála þessu frv., en finnst undarlega misjöfn sjónarmið hafa komið fram og vildi óska eftir nánari upplýsingum, þar sem frá flm. þessa frv. hafa heyrzt raddir um, að sameina yrði Búreikningaskrifstofu ríkisins og hagstofuna.