12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Eysteinn Jónsson; Ég hafði gert ráð fyrir, að það mundi verða samkomulag um afgreiðslu þessa máls eftir till. allshn. með brtt. hennar, sem sé, að framvegis verði reynt að keppa að því, að í lögreglustjóraembætti sitji maður, sem bæði hefði lögfræðilegan undirbúning undir starfið og hefði sérstaklega kynnt sér önnur atriði, sem einkum þarf að kunna skil á til þess að geta gegnt slíku starfi sem bezt, en að hitt mundi þykja sjálfsagt, að maður, sem löglega hefur þetta embætti á hendi og reynzt hefur vel, héldi því áfram, meðan hann sæi sér fært að gegna því.

En nú vill svo einkennilega til, að hv. þm. N.-Ísf. virðist ekki geta sætt sig við þessa lausn. Hann virðist ekki geta sætt sig við annað en núverandi lögreglustj. láti af störfum og annar komi í hans stað. Hv. þm. N.-Ísf. hefur ásamt fleirum flutt hér áður frv., sem fór í þessa sömu átt, en það fékk litlar undirtektir. Það mun hafa stafað af því, að mönnum fannst það vera flutt meira til þess að skeyta skapi sínu á ákveðnum einstaklingi en til þess að lagfæra galla. Það leit út fyrir það þar til nú fyrir fáum dögum, að samkomulag gæti náðst um lausn á þessu máli, en nú gerir þessi hv. þm. sig ekki ánægðan með annað en smeygja þessum fleyg inn í frv. í stað þess að sætta sig við, að samkomulag yrði um, að lögreglustj. skyldi framvegis jafnan vera lögfræðingur. Nú liggur það ljóst fyrir, og það veit þessi hv. þm., að núverandi lögreglustjóri er skipaður samkvæmt ótvíræðri lagaheimild, og það er upplýst af hæstv. dómsmrh., að hann telur embættinu vel gegnt af þessum manni. Þrátt fyrir þetta á nú Alþ. samkvæmt till. hv. þm. N.-Ísf. að taka sig saman um að reka þennan mann frá starfi. Einu rökin, sem hv. þm. N.-Ísf. getur svo komið með fyrir máli sínu, eru þau, að lögreglustj. ætti að vera löglærður maður. Það eru alls einu rökin. Hitt lætur hann sig svo engu skipta, þótt löglega skipaður embættismaður, sem hefur gegnt starfi sínu vel, sé rekinn frá embætti. Nú er það svo, að það getur verið gott fyrir lögreglustjóra að vita fleira en það, sem lögfræðingar eiga að kunna. Það getur líka verið gott fyrir hann að kunna vel að stjórna mönnum til verka og hafa góða þekkingu á því öðru, sem lýtur að útistörfum lögreglunnar. Þetta hefur líka verið skoðun Alþ. á þeim tíma, sem það gaf heimildina um að ráða mann til þessa starfa, þótt hann hefði ekki lagapróf. Alþ. gaf þessa heimild með því skilyrði, að ef maðurinn væri ekki löglærður, þá skyldi hann kunna sérstaklega góð skil á öðrum atriðum í starfinu. Nú mun það vera svo, að núverandi lögreglustj. sé einn með reglusömustu embættismönnum, sem við höfum. Það væri því meira en lítið harðleikið, ef Alþ. færi nú að samþ. að víkja þessum manni frá störfum, enda geri ég tæpast ráð fyrir því, að það komi til mála, að Alþ. samþ. slíkt. Hitt er annað mál, hvort menn vilja setja markið það hátt, að í framtíðinni skulum við eiga völ á mönnum, sem bæði eru lögfræðingar og kunna góð skil á öðrum störfum lögreglustjóra. Það er allt annað mál að keppa að því í framtíðinni eða hitt að víkja þessum manni nú úr embætti. Þessu tvennu má alls ekki blanda saman. Það er misskilningur af hálfu þessa hv. þm., ef hann heldur, að þeir, sem hafa ákveðið að fallast á þá samkomulagslausn á málinu, sem hér er í undirbúningi, hafi ástæður til þess að fallast á þessa till. hans. Hér við bætist, að eins og hv. 1. þm. Árn. hefur upplýst, þá var fullt samkomulag um það í ríkisstj. þeirri, sem þá sat, að núverandi lögreglustj. yrði ráðinn til starfans, og áður en hann tók við embættinu, kynnti hann sér sérstaklega skoðun hv. þm. G.-K., formanns Sjálfstfl. og þáverandi atvmrh., á þessu máli og hvort hann væri þessari ráðningu fylgjandi, og fékk þar þau svör, að hann væri því samþykkur. Þetta hefur líka komið fram hér áður og það meira að segja í þskj., og því hefur ekki verið mótmælt. Ég var satt að segja alveg hissa á þeim æsingi, sem greip hv. þm. N.-Ísf., þegar rætt var um samkomulag það, sem fyrrverandi ríkisstj. gerði um skipun lögreglustjórans. Hann æsti sig upp, þar til hann hrópaði yfir þingsalinn, að hann gæti látið sér það í léttu rúmi liggja, hvað fyrrverandi ráðh. Framsfl. segðu um þetta mál, því að þeir væru lygarar, sem hefðu logið versta óhróðri upp á samstarfsmenn sína í ríkisstj., og væri því ekkert að marka, hvað þeir segðu. Ég verð að segja það, að ég varð meira en lítið undrandi á þessu hjá hv. þm., og ég hefði gaman af að vita, hvað hann hefur fyrir sér í þessum staðhæfingum og hvað kemur til þess, að hann skuli leyfa sér að viðhafa slík ummæli hér á Alþ. Hann minntist í þessu sambandi á ummæli þau, sem ég og hv. þm. Str. höfðum viðhaft í sambandi við kjördæmamálið og afgreiðslu þess, og átti það að vera sönnun þess, að við værum lygarar. Ég vil nú segja þessum hv. þm., að hann veit eða ætti að vita það af því, sem komið hefur fram í sambandi við það mál, að allt það, sem við höfum sagt um það, er satt, og öll þjóðin veit, að það er satt, og því hefur ekki verið mótmælt, sem er ekki heldur von.

Ég ætla mér ekki að fara að munnhöggvast hér við þennan framhleypna hv. þm., en vil aðeins láta mér nægja að láta bókfæra þessi ummæli eftir mér í Alþ.tíðindin. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta, en vil eiga minn hlut að því, að það samkomulag, sem allshn. hefur lagt til, að gert verði um þetta mál, komist á, og ég tel það illa farið, ef till. hv. þm. N.-Ísf. gæti orðið til þess að spilla því samkomulagi.