12.10.1943
Neðri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

35. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Herra forseti. Ég ætla að gera hér örstutta aths. út af ræðu hv. þm. N.-Ísf., og er hún sú, að hann virtist fetta fingur út í það, að ég hafi ekki komið auga á lögfræðing, sem hafi kynnt sér sérstaklega störf, er lögregluna varða. Í því sambandi benti hann á fulltrúa, sem starfað hefur hjá lögreglustjóra og er lögfræðingur að menntun. Ég get ekki sagt annað en allt hið bezta um þennan mann, en hins vegar er mér ekki kunnugt um, að hann hafi neitt sérstaklega kynnt sér þau störf, er hér um ræðir. Ég veit ekki betur en hann hafi aðallega verið hjá lögreglustjóra sem lögfræðileg aðstoð, en mér er ekki kunnugt um, að hann hafi stjórnað lögreglunni, hvorki úti né inni, heldur er hann á öðru verksviði. Til þess að koma í veg fyrir nokkurn misskilning, tek ég það fram, að ég tel þennan mann ágætis lögfræðing. Þó að hann hafi unnið inni hjá lögreglustjóra, er ekki nauðsynlegt, að hann hafi kynnt sér útistörf lögreglunnar. Ég ætlast til þess, að lögreglustjóri hafi það starf með höndum.

Annað vil ég líka taka fram út af ummælum hv. þm. N.-Ísf. Mér skilst, að hann vilji kenna lögreglustjóra um, af því að hann sé ekki löglærður maður, að ríkissjóður hafi í tvö skipti verið dæmdur til þess að greiða stórar bætur vegna lögreglunnar; í annað skiptið —vegna þess, að tveim lögregluþjónum var vikið frá starfi, og í hitt skiptið, er lögregluþjónum urðu mistök á í sambandi við handtöku borgara nokkurs hér í bæ, með þeim afleiðingum, að ríkissjóður var dæmdur til þess að greiða bætur fyrir. Ég geri ráð fyrir því, að mistök lögreglumannanna hefðu alveg eins getað komið fyrir, hvort sem lögreglustjóri hefði verið löglærður maður eða ekki, því að vitanlegt er, að lögreglustjóri getur ekki verið með augun alls staðar.

Hvað snertir fyrra tilfellið, þegar tilteknum lögregluþjónum var sagt upp stöðu sinni, af því að lögreglustjóri taldi sig hafa nægilega ástæðu til þess, en að hann hafi aftur á móti ekki sannað þessar ástæður fyrir dómstólunum, og hefur mér verið sagt, að lögreglustjóri hafi ekki viljað geta um þær. Oft getur verið mikið vafamál á því, hvort einn maður hafi hagað sér þannig í starfi sínu, að réttmætt sé að segja honum upp eða ekki. Þetta er álitamál, sem lögfróða menn hlýtur oft að greina á um. Ég get því ekki sakfellt lögreglustjóra fyrir það, þó að hann hafi ekki fært fram þær ástæður, sem dómstólarnir teldu gildar í þessum efnum. Um önnur atriði úr ræðu hv. þm. N.-Ísf. viðvíkjandi þessari till. nenni ég ekki að eyða tíma í að ræða. Ég vil þó aðeins minnast á það, að hann taldi, að lögreglustjóra væri ekki gert lægra undir höfði með till. hans en hverjum öðrum embættismanni samkv. 3. mgr. 16. gr. stjskr. Þessi röksemd lítur nógu vel út á pappírnum, en ég veit ekki til, að þessari 3. mgr. 16. gr. stjskr. hafi verið beitt gagnvart embættismönnum. Ég held, að ef embættismaður yrði fluttur þannig úr einu embætti í annað samkvæmt þessari gr. stjskr., þá yrði litið á þetta sem vantraustsyfirlýsingu og að maðurinn væri ekki hæfur til þess að gegna stöðu sinni.