21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

36. mál, kjötmat o.fl.

Pétur Ottesen:

Mér skilst, að það séu ákaflega miklar líkur fyrir því, að þessi brtt., sem fram er komin við frv., með þeirri viðbót, sem nú hefur komið fram, beri ekki hinn minnsta árangur, — því að þegar búið er að orða þetta svona: „Eftir því, sem við verður komið“, — þá virðist mér, að þar sé svo rúmt um framkvæmdir eftir brtt., að enginn sé að neinu bættari, þó að ákvæði brtt. séu sett inn í l. Nú vitum við það, að ákvörðun á útborgunarverði fyrir kjöt er nálega eingöngu í höndum samvinnufélaganna í landinu, og er S.Í.S. þar stærsti aðilinn og svo Sláturfélag Suðurlands. Aðrir aðilar, sem þarna koma til greina, eru svo litlir í þessu sambandi, að þeirra gætir nálega ekki. Nú er það svo, eins og hv. 2. þm. N.-M., flm. þessarar brtt., tók fram, að á sumum stöðum, eins og t. d. er hjá Sláturfélagi Suðurlands, er gerður ákveðinn munur í þessu efni á verðinu til framleiðendanna eftir gæðum kjötsins. Hingað til hefur þetta verið miðað við kroppþungann. En nú fer þessi flokkun fram eftir öðrum reglum, því að nú á ekki einungis að taka tillit til kroppþungans, heldur einnig kjötgæðanna, eftir útliti, samkvæmt mati kjötmatsmanna. Ég held því, að frá þessu sjónarmiði felist í þessu ákaflega lítið öryggi til handa þeim mönnum, sem eftir tilgangi flm. þessarar brtt. eiga að njóta sérstaklega góðs af þessum ákvæðum, þar sem þeir njóta ekki nú þegar þeirra hlunninda, sem flokkun kjöts veitir:

Hins vegar skilst mér viðvíkjandi hinu atriðinu að láta þennan verðmismun vera á kjötinu til neytenda, að þá geti það beinlínis orðið bjarnargreiði við neytendur, orðið þeim beinlínis til ógagns. Því að ef þetta á ekki að vera fyrir fram steindauður bókstafur, þá fylgir þessu svo mikill kostnaður á útsölunni, að verðið til neytenda á kjötinu hlýtur að hækka vegna þessa fyrirkomulags á sölunni. Hv. 2. þm. N.-M. hefur bent á sem möguleika í þessu sambandi að setja upp sérstakar búðir, sem seldu aðeins 1. flokks kjöt, og aðrar, sem seldu aðeins annað kjöt, en það er vitað, að með slíku fyrirkomulagi mundi rekstrarkostnaður búðanna margfaldast. Ef hins vegar þessi kostnaður félli ekki á neytendur, nema þá kannske að nokkru leyti, þá kæmi hann niður á framleiðendunum að nokkru eða öllu leyti. Hjá því verður ekki komizt. Skilst mér þá, að jafnvel báðir aðilar og alltaf a. m. k. annar, seljandi eða neytandi, mundi líða við þetta skipulag. Enn fremur er þess að geta, að neytandinn hefur það á sínu valdi, hvort hann kaupir feitara eða rýrara kjötið, ef hvort tveggja er á boðstólum, því að hann getur valið um kjötið í verzluninni.

Með tilliti til þessara tveggja atriða held ég því, að ekki sé hægt að gera sér von um neinn árangur af ákvæðum brtt., eins og hún er orðin með viðbótinni, eins og flm. hefur orðað hana. En ég get viðurkennt, að þeir, sem hafa betra kjöt til að selja, eigi að njóta nokkurs í, vegna þess og það sé þjóðhagslega rétt. En þetta er þegar víða eða víðast gert, að mismuna framleiðendum í verði eftir gæðum kjötsins, til þess að stuðla að bættri kjötframleiðslu.