04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

27. mál, fjárlög 1944

Jakob Möller:

Herra forseti. Ég hef hér brtt. við fjárl., sem mér ber sérstaklega að mæla fyrir, þó að nafn mitt sé að vísu bundið við einhverjar fleiri till. Í till. undir XX á þskj. 314 á ég ásamt fleirum brtt. við brtt. hv. fjvn. á þskj. 296, lið 130, um byggingu iðnskóla í Reykjavík. Fjvn. lagði til, að lagðar yrðu fram 100 þús. kr. í þessu skyni úr ríkissjóði og þá ekki yfir 1/3 kostnaðar. Brtt., sem við flytjum, er á þá lund, að þessu verði breytt þannig, að framlagið verði 2/5 kostnaðar, allt að kr. 300000,00, og 250000,00 til vara. Gert er ráð fyrir framlagi úr bæjarsjóði Reykjavíkur kr. 250000, en iðnaðarsamtökin legðu þá á móti 1/5. Eftir þessu yrðu á komandi ári veittar til byggingar iðnskóla allt í allt kr. 750000. Við teljum þetta svo aðkallandi mál, að því beri að hraða sem mest. Þetta er ekki eingöngu mál Reykjavíkurbæjar, því að iðnaðarfræðslan hér í Reykjavík, hvort sem hún er verkleg eða bókleg, er raunverulega undirstaðan fyrir öllum iðnaði í landinu, vegna þess að bæði koma unglingar hingað til þess að nema ýmsar iðngreinir og ganga í iðnskólann, og einnig fara fulllærðir iðnaðarmenn héðan úr bænum út um land og setjast að þar og stunda sína iðn. Svo að tvímælalaust er iðnaðarskólamál Reykjavíkur mál alls landsins í heild. Iðnaðarmenn hafa staðið straum af iðnskólanum í Reykjavík af miklum dugnaði og fórnfýsi. Iðnskólinn hér er nú orðinn 36 ára gamall. Það eru 36 ár síðan iðnskóli sá, sem nú er notaður, var reistur. Hann var reistur mjög myndarlega, en er nú orðinn allt of lítill, þó að hann væri mjög við vöxt, þegar hann var reistur. Það hefur fjölgað mjög mikið í bænum á þessum 36 árum, sem liðin eru, og er alveg auðsætt, að sú bygging, sem þá var byggð, hlýtur að vera mjög mikið aftur úr nú. Í þessum skóla eru 7 kennslustofur, en nemendur skólans eru nú 560, og má sjá, að enginn möguleiki er á að komast af með það húsnæði, sem þar er, enda hefur skólinn orðið að fá kennslustofur annars staðar til þess að fleyta sér áfram.

Það er ekki upplýst, hvað viðkomandi skólahús mundi þurfa að kosta, en menn ganga þess ekki duldir, að slíkt skólahús er dýrara en hér er farið fram á, að lagt verði fram í fjárl., með því, sem kemur annars staðar að. En þar til svo byrjað er á byggingunni, yrði að vinna að því að fá áætlanir, og kæmi svo til kasta þingsins að kveða á um, hvað frekara framlag ætti að vera. Ég er þakklátur hv. fjvn. fyrir þann góða vilja, sem hún hefur sýnt með till. sinni, en ég veit, að bæði hún og aðrir þm. geta fallizt á að hækka tillagið eins og farið er fram á með brtt.

Þá á ég aðra till. undir XXIII, um styrk til Eiríks Kjerúlf, kr. 1200,00. Ég á tvo meðflm. að þeirri till., en efast ekki um, að ég hefði getað fengið fleiri til að styðja hana, en ég vona, að það spilli ekki, að fleiri standa ekki að henni. Maður sá, sem hér er um að ræða, hefur lagt stund á fræðastörf. Ég er ekki dómbær um þessi störf hans, en mér skilst, að það, sem hann hefur lagt stund á mörg síðustu árin, sé allmerkilegt. Það eru að vísu skiptar skoðanir um sumar kenningar hans á því sviði, sem sjá má á því, að vinur hans einn og bekkjarbróðir segir, að hann sé sá maður, sem hann hafi vitað hafa mest fyrir því að komast að rangri niðurstöðu. Ég er alls ekki viss um, að niðurstöður þær, sem hann kemst að, séu rangar, heldur virðast mér kenningar hans allmerkilegar, og án tillits til þess, hve raunhæfar þær eru, tel ég sjálfsagt að styðja hann í að stunda þessi fræði sín, meðan honum endast kraftar til, og geta þá síðari tíma fræðimenn dæmt um kenningar hans, ef til vill af meiri víðsýni heldur en þeir, sem halda fast í þær kenningar, sem þeir hafa alizt upp við. Annars er þessi maður gamall læknir, sem raunar hefur talið sig hafa orðið illa úti í sambandi við störf sín í þágu hins opinbera á fyrri hluta ævi sinnar, en það er annað mál. Þetta mundi að vísu bæta honum það að nokkru, en ég tel hann þess verðan að fá þennan styrk, án tillits til hans fyrra starfsferils.

Ég vænti þess, að þm. taki báðum þessum till. með velvilja, og treysti því, að svo verði.