16.12.1943
Neðri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

24. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Það er alveg rétt, sem frsm. minni hl. fjhn. segir, að afstaða meiri hl. n. til þessarar till. stafar ekki svo mjög af því, að nm. séu ósamþykkir efni hennar, heldur meira vegna þess, að þeir telja, að þar sem orðið er svo áliðið þings og gert er ráð fyrir, að þingslit fari sennilega fram á morgun, getur samþykkt till. orðið til þess, að málið verði ekki afgreitt. Hins vegar er ákaflega auðvelt að koma á þessari breyt. á l. á næsta þingi. Þessi l. eiga ekki að fá gildi fyrr en 1. júlí 1944, og innan þess tíma er hægt að gera hvaða breyt., sem er, á l., svo að engin hætta ætti að vera að fresta þessu. Hins vegar tel ég, a. m. k. fyrir mitt leyti, rétt að athuga, hvort gera eigi þessa breyt. og hvernig. T. d. finnst mér orka nokkuð tvímælis, hvort lögfesta eigi, að lífeyrir úr lífeyrissjóði geti hjá einum orðið 1/4 hærri en hjá öðrum, sem alveg sama máli gegnir um, hvað snertir starfsaldur og stöðu. Það er gert ráð fyrir, að mismunurinn geti orðið 15–25%. Þetta er vafasamt, að sé rétt, og þetta og fleira finnst mér rétt að athuga betur og leggja ekki í að gera breyt., nema athugað hafi verið, að rétt sé að gera hana.