19.11.1943
Neðri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Ég hef sérstöðu um eina brtt., sem kemur fram frá fjórum nm. Brtt. þessi fjallar um það að fella niður úr frv. heimild til þess að styðja samvinnufélögin, sem mun í þessu tilfelli þýða sama sem kaupfélögin, til þess að koma sér upp olíugeymum. Eins og frv. var byggt upp af hendi atvmrh. var heimild til að veita stuðning öllum þeim félögum, sem uppfylltu skilyrði samvinnufélaga, til þess að koma upp olíugeymum. Atvmrh. fannst þetta eðlilegt, en fjórir nm. vilja nú gera þá brtt. að útiloka kaupfélögin frá því að fá slíkan styrk, en vilja binda heimildina við félög útgerðarmanna og olíusamlögin. Ég get engan veginn fallizt á þær röksemdir, sem meðnm. mínir hafa lagt fram fyrir þessari breyt., og tel, að það sé rangt að útiloka kaupfélögin á þessa lund. Ég vil sérstaklega benda á, að svo er víða ástatt í landinu og verður sjálfsagt víða svo ástatt, er stundir líða, að útvegsmenn eru með öðrum mönnum í verzlunarsamtökum. Þar, sem þannig háttar til, er vitanlega eðlilegt, að þau félög, sem þannig eru byggð upp, vilji sjálf koma sér upp tækjum til þess að verzla með þessa einu nauðsynjavöru útvegsins, og ég sé því ekki annað en það sé fullkomlega eðlilegt, að þeim sé veitt heimild til slíks stuðnings. Kaupfélögin eru byggð þannig upp, að þau fullnægja þeim ákvæðum, sem hér eru sett í frv. um olíusöluna, þannig að þau skipta arðinum af rekstri sölunnar milli félagsmanna í hlutfalli við viðskiptin Kaupfélögin eiga því jafnfullkominn rétt til að verða aðnjótandi þeirra réttinda, sem l. heimila, sem félög útgerðarmanna. Sú ástæða var færð fram í n. fyrir því, að þessi breyt. var gerð, að svo gæti farið, ef frv. yrði óbreytt, að einhver ráðh. tæki sig til og veitti stuðning til þess að koma upp aðstöðu til olíusölu kaupfélaga. En samt eru kaupfélagi á staðnum veitt sérstök réttindi samkvæmt þessum lögum. Ég benti á, að ég teldi hægt að koma í veg fyrir slík misnot með því að setja þau ákvæði inn í frv., að ef fleiri en eitt félag í hverri verstöð sækir um stuðning samkvæmt lögum þessum, þá skal það félag sitja fyrir, er flesta útgerðarmenn hefur innan sinna vébanda. Þar með gætu útvegsmenn valið á milli, hvort þeir vildu heldur hafa þessi viðskipti við kaupfélögin eða hafa sérstakan félagsskap. Þetta vildu meðnm. mínir ekki fallast á, svo að ég hef nú leyft mér að flytja brtt. á þskj. 447, og er það viðauki við 2. gr. Fjallar hún um, að ekki skuli veita nema einu félagi í hverri verstöð þennan stuðning. Enn fremur legg ég til, að bætt verði við eftirf.:

„Nú sækja fleiri en eitt félag í hverri verstöð um stuðning samkvæmt lögum þessum, og skal þá það félag sitja fyrir, er flesta hefur útgerðarmenn innan sinna vébanda.“

Ég álít, að þetta ákvæði verði til tryggingar því, að ríkisstj. á hverjum tíma veiti því félagi stuðning, sem flestir útvegsmenn standa saman í. Ég get ekki séð nokkra ástæðu til þess, að Alþ. sé að setja ákvæði í l., sem beinlínis koma í veg fyrir það, að fleiri útvegsmenn geti tekið þátt í almennum verzlunarsamtökum landsmanna, sem heimili þessi viðskipti. Mér finnst því alveg stefnt í ranga átt hjá fjórum meðnm. mínum, sem leggja til, að það þurfi að hafa sérstök samtök um þessa einu vörutegund. Mér finnst hins vegar, að mönnum ætti að vera frjálst, hvort þeir vilji heldur vera í sérstökum samtökum eða standa með öðrum stéttum. Ef útvegsmenn vilja standa með öðrum stéttum, þá finnst mér því alls ekki rétt að útiloka þá frá því.

Ég ætla mér ekki að tefja þetta mál og læt því þessi orð nægja til þess að benda hv. dm. á, í hverju ágreiningurinn milli meðnm. minna og mín er fólginn.