30.11.1943
Efri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Gísli Jónsson:

Ég vil aðeins benda hæstv. atvmrh. á það, út af því, sem hann sagði um olíuverðið á Siglufirði, að ég hélt því fram, að þeir, sem réðu um stjórn síldarverksmiðjanna, hefðu reiknað út þetta verð, vegna þess að þeir þyrftu að fá þetta verð. Ef þeir hefðu ekki gert það, þá hefði hæstv. atvmrh. framið stórkostlegt brot á útvegsmönnum. En hvar er þá þetta fé, sem sparazt hefur? Hefur hæstv. atvmrh. tekið það í sérstakan sjóð, eða er það til hjá síldarverkmiðjunum? Ef svo er, því er það þá ekki tekið til þess að byggja fyrir það tanka hér á landi?

Þá viðurkenndi hæstv. ráðh., að hann hefði látið reikna út, hvað kostaði að smíða geyma með kostnaðarverði. En hvað er kostnaðarverð? Nú er ég þessu eins vel kunnugur og hæstv. atvmrh. Ef fyrirtæki eins og Landssmiðjan reiknar efnið og alla vinnu með kostnaðarverði án þess að viðhafa nokkra álagningu, þá verð ég að segja það, að slíkar áætlanir eru blekkingar. Hvernig fær slíkt staðizt? Það er auðvitað mál, að öll slík fyrirtæki verða að leggja nokkuð mikið á vinnu og efni til þess að geta staðið straum af slíkum atvinnurekstri, borgað alla skatta, skrifstofukostnað o. s. frv. Ég vil því halda því fram, að hver tankur muni raunverulega kosta meira en 50 þús. kr., eins og Landssmiðjan áætlar. Hvað snertir útgerðarmennina á Norðfirði, Keflavík og í Vestmannaeyjum, þá vil ég benda á það, að það voru fleiri en þessir útgerðarmenn, sem vildu fylgja þessu frv., ef þeir hefðu sömu aðstöðu og þeir. Norðfjörður er bara í þeirri aðstöðu, að þar hefur verið komið upp geymum fyrir ríkisfé. Þeir þurfa þar ekki að leggja á sig neinar byrðar fyrir það, að þessi skipan er tekin upp á olíumálunum. Og þeir standa á móti því, að það sé komið á verðjöfnun á olíunni til þeirra og annarra úti á landi, því að sú verðjöfnun mundi hækka verð hjá þeim frá því, sem er, til þess að þeir, sem ríkið hefur ekki gert það sama fyrir og þá með smíði tanka, geti fengið olíuna ódýrari en annars. Norðfjörður hefur fengið hjálp laganna til þess að skapa sér þessa aðstöðu. Hann vill svo njóta beztu kjara við þetta, en ekki taka þá byrði, sem aðrir staðir verða að hafa eftir þessa nýskipun á málinu. Þetta vill ekki hæstv. atvmrh. viðurkenna, og það sýnir, hve óskapleg „partiska“ yrði í framkvæmd l., ef hann fengi að ráða um þetta.