10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

154. mál, olíugeymar o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það fór nú svo við síðustu umr. þessa máls, að það fékkst ekki samkomulag um það að vísa málinu til sjútvn. þessarar d., svo að það fengi þinglega meðferð eins og önnur mál, og var það dálítið einkennilegt, þar sem um mjög stórt mál er að ræða, en hv. þm. S.-Þ. (JJ) lýsti yfir því sérstaklega, að hann vildi ekki, að málið færi í n., af því að það væri svo útgjaldafrekt. Annars munu þm. hafa greitt atkv. á röngum upplýsingum frá hv. 9. landsk. (GÍG) um, að málið hefði verið hjá sjútvn., því að þeir vísuðu allir til grg. hans. Út af þessu vil ég leyfa mér að benda á, að þetta mál kom fyrst fyrir á sameinuðum fundi í báðum sjútvn. beggja d., og vil ég leyfa mér að lesa upp það, sem bókað er af hv. 9. landsk. (GÍG) í fundargerðabók sjútvn. 8. nóv., með leyfi forseta:

„Ráðherra skýrði frá, að hann hefði samið frv. til l. um olíumálin. Las hann frv. upp á fundinum og tilkynnti, að það mundi lagt fram næstu daga. Engar ákvarðanir teknar á fundinum.“

Ég vil geta þess, að þetta var á sameiginlegum fundi hjá sjútvn. beggja d., en þannig er þetta í fundargerðabók sjútvn. Ed. Síðan er næsta bókun hinn 13. nóvember, þar sem rætt er um olíumálin o. fl.:

N. fór nú á fund sjútvn. Nd., þar sem rætt var um frv. til l. um olíugeyma o. fl.“

Þetta er það eina, sem bókað er í fundargerða bók Ed. um málið, og getur hver maður séð eftir þessari fundargerð, að málið hefur ekki verið afgreitt og aldrei gengið til atkv. um það, og vænti ég þess, að þetta séu nóg rök, þar sem þetta er skrifað með eigin hendi hv. 9. landsk. (GÍG).

Nú ætla ég að halda áfram og benda á, hvað skeði í Nd. á sameiginlegum fundi beggja n. og er bókað hjá sjútvn. Nd., með leyfi forseta:

„Ráðherra kvaðst loks vera þakklátur fyrir athuganir n. og till. þeirra Finns Jónssonar og Gísla Jónssonar um það, hvernig málið yrði lagt fyrir, og sagðist mundu senda flokkunum afrit af frv., jafnframt og það yrði lagt fram.“

Næst er svo bókun á þeim fundi, sem ég geri ráð fyrir, að hv. 9. landsk. (GÍG) ætli að vísa til. Þar er bókað, að á þeim fundi vorum við staddir, en tókum ekki þátt í þeirri atkvgr., enda stendur, að 4 af 5 nm. hafi greitt atkv. Það er hvergi minnzt á í bókunum, sem heldur ekki er von, atkvgr. milli nm. Ed., enda lýst yfir af mér, að ég tæki ekki þátt í neinni atkvgr. Það eru því bersýnilega algerlega fölsk rök, sem hv. 9. landsk. (GÍG) bar fram í þessu máli, og er leiðinlegt, að mál eins og þetta hefur verið fellt frá n. á ósannri grg. eins af sjútvnm. Ed., vísvitandi til þess að málið fengi ekki þinglega meðferð. Nú þykir mér þetta því verra sem ég hef allan tímann, sem ég hef unnið með þessum þm., orðið þess var, að hann er mjög samvinnuþýður, og viðurkenni, að hans till. eru ekki einasta mjög góðar, heldur mjög viturlegar, því að hann er risi að vexti og viti, en dvergur að sjálfstæði og er alveg kúgaður af flokksbræðrum sínum, því að það sést, að hann þorir ekki að greiða atkv. eftir sannfæringu sinni, þegar hv. 3. landsk. (HG) situr við hlið hans og klípur í hann við og við til þess að minna hann á, að hann sé í flokknum. Þetta er því verra sem hann er vel af guði gerður. Nú hefur hann látið kúga sig af flokksmönnum sínum til þess að bera hér fram ranga grg. Mér finnst, ef hann ætlar sér að verða sjálfstæður þm., að hann ætti að stappa ofurlítið meira í sig stálinu í staðinn fyrir að hlaupa undir pilsfaldinn hjá hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf. (FJ).

Ég vil þá snúa mér beint að málinu. Ég hef borið fram við það brtt. á þskj. 561. Ég vil taka fram, að það væri löngu búið að afgreiða þessar brtt. í sjútvn., ef d. hefði fengizt til að vísa málinu þangað. Ég hygg, að það sé eina n. í þinginu, sem á ekkert mál óafgreitt, sem til hennar hefur verið vísað, og er það ekki sízt að þakka dugnaði meðnm. minna, sem hafa ætíð verið reiðubúnir að mæta til að afgr. mál á mögulegum og ómögulegum tímum. Ég fullyrði, að í n. hefði komizt á eitthvert samkomulag a. m. k. um sumar brtt., og hefði það mátt verða til þess, að frv. færi úr d. með heldur meiri sóma en á horfist. En ég vænti þess enn, að sjútvn. gefist tækifæri til að athuga þessar brtt. á þinglegan hátt. Ef hæstv. forseti óskar þess, að n. hraði afgreiðslu, skal ég lofa því, að málið skal ekki tefjast hjá henni að óþörfu og ekki verða tafið af minni hálfu í d.

Ég hef lagt það til á þskj. 561, að brott falli úr 3. gr. orðin „þegar ráðh. hefur ákveðið styrk til fyrirtækisins“. — Úr því að fiskveiðasjóður hefur þessa lánastarfsemi með höndum, sé ég ekki, hvers vegna hann er ekki frjáls að byrja að lána, fyrr en ráðherra hefur tiltekið, hvern styrk ríkissjóður greiði. Sjóðurinn ætti þar að vera sjálfráður. Í sömu gr. þykir mér rétt, að í stað Fiskifélags Íslands komi Landssamband íslenzkra útvegsmanna. Þetta mál snertir fyrst og fremst útvegsmenn, sem eru allir í landssambandinu og eiga fullkominn aðgang að þeirri stofnun. Nú skal ég viðurkenna, að sumir þm. bera meira traust til Fiskifél. Íslands, því að það sé eldri og reyndari stofnun. Ég gæti fellt mig við það til málamiðlunar, að þarna kæmi hvort tveggja, fiskifélagið og landssambandið.

Við 5. gr. flyt ég þá brtt., að í stað „ráðherra“ skuli koma ríkisstjórn, því að stórmál sem þessi eiga að vera á ábyrgð allrar ríkisstjórnarinnar. Hæstv. atvmrh. taldi ekki vera hægt að bíða eftir úrskurðum Alþingis, en hitt ætti ekki að vera ófært að bíða þess, að stjórnin í heild tæki ákvörðun.

Það er 6. gr., sem mestum ágreiningi veldur, og hef ég orðað hana alveg upp. Atriðin, sem ég vil breyta, eru þessi: Ég vil ekki láta eignarnámsheimildina í hendur neinna verzlunarfyrirtækja í landinu, einstaklinga né félaga. Eignarnám verður að vera gert af ríkinu. Það finnst mér vera þinglegri leið og í betra samræmi við stjórnarskrána, og þyki einhverjum sem stjórnarskráin tryggi, að ekki verði farin önnur eignarnámsleið, sakar sízt að taka það beint fram í frv. Þá vil ég setja ákvæði að áfrýja megi mati. Enn fremur legg ég til, hafi landeigandi vísað á land á öðrum stað en krafizt hefur verið, að þá skuli eignarnám eigi fara fram, nema fyrir liggí sameiginlegt álit þar til hæfra dómkvaddra manna, að land það, sem bent hefur verið á, sé ónothæft til slíks atvinnurekstrar. Ef þetta er ekki í l., geta menn misbeitt rétti sínum og sölsað undir sig land með einhverju yfirskini um bygging olíugeyma, en notað síðan að miklu leyti til annars verðmætara. Það er ósæmandi ríkinu að vernda ekki þarna rétt þegnanna. Það er stefnt að einhverju öðru en bættri olíuverzlun, ef þessi brtt. mín nær ekki samþykki. Þá legg ég til, að í stað orðanna „eftir að hafa fengið umsögn“ komi: að fengnum meðmælum. — Ef það nær ekki samþ., getur ríkisstj. lagt út í leigunám eða eignarnám þvert ofan í tillögur fiskifélagsins og vitamálastjóra og án þess að bera það undir Landssamband útgerðarmanna, sem ég tel vera þar aðila. Þetta eru aðalbreytingarnar, sem ég vil gera á 6. gr., og það loks, að eignarnámsheimildin falli niður í árslok 1944, hafi hún ekki verið notuð áður. Alþingi getur alltaf framlengt hana, ef nauðsyn þykir. Mér finnst það meir í anda stjórnarskrárinnar, að slík heimild verði ekki gefin um ótakmarkaðan tíma.

Ef svo færi, að olía yrði lækkuð á ýmsum útgerðarstöðum með aðstoð ríkisins samkv. þessum l., en lækkaði ekki eða jafnvel hækkaði á stöðum, þar sem flytja verður hana að í tunnum, legg ég til í 4. brtt. á þskj. 561 (ný gr.), að ríkisstj. ákveði jafnaðarverð á olíunni milli þessara staða, þannig að hinir síðarnefndu njóti hlutfallslega sama olíuverðs og nú miðað við þá staði, þar sem þegar er seld olía frá geymum. Ríkisstjórninni skal þá heimilt að leggja verðjöfnunargjald á alla olíu selda frá geymum, til þess að verðjafna megi olíuna, en sé eigi hægt að láta verðjöfnunargjaldið hrökkva til uppbótanna, megi verja til þeirra fé úr ríkissjóði. Verðjöfnunargjald fellur þá ekki á olíugeymana í Vestmannaeyjum og Keflavík, því að þeir eru byggðir án ríkisstyrks. En þegar það gjald yrði tekið af olíu á Norðfirði, Siglufirði eða hvar, sem ríkið kynni að verða búið að styrkja olíugeyma, getur maður ekki kallað það ósanngjarnt. Ég ætla engu að spá um, hvaða áhrif þessar ráðstafanir hafa á olíuverðið. En olíufélögin munu krefja af verðlagsstjóra, og fá fram hækkun á olíuverði á stöðum, þar sem selja verður í tunnum. Ríkisstjórnin yrði þá að taka tunnur eignarnámi og taka einhverja olíuhöfn á landinu, þar sem hægt væri að láta á tunnur. Í Hvalfirði er það nú ekki hægt. Ég legg áherzlu á, að þetta skipulag verði ekki til þess að gera mönnum á sumum stöðum erfiðara fyrir en er. Ef ekki fer svo illa, þarf ekki til þessara ráða að taka, en of seint væri að samþ. breyt., eftir að olían væri kannske orðin tvöfalt dýrari en nú.