24.09.1943
Efri deild: 24. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

55. mál, happdrætti Laugarneskirkju

Bernharð Stefánsson:

Af því að ég er einn af flm., vil ég segja nokkur orð. Ég hafði búizt við öðrum rökum frá hv. 5. þm. Reykv. Ég býst við, að fleiri en hann og hans flokksbræður hafi þá skoðun, að ríki og kirkja ættu að hafa aðskilinn fjárhag og ríkið ekki að leggja ákveðinni guðsdýrkun fé, en eins og hv. 1. þm. Reykv. (MJ) veik að, kemur sú skoðun þessu sérstaka máli ekkert við. En úr því að hér er þjóðkirkja, sem ríkið á skyldur við, og tveir söfnuðir í Reykjavík eru kirkjulausir, er ríkisvaldinu skylt að stuðla að því, að þeir eignist kirkjur, alveg eins og hin almenna skólaskylda knýr ríkisvaldið til þess að sjá fyrir skólum og kennurum, að þeir séu til. Af þessari ástæðu gerðist ég meðflm. að frv. Ég efast um hitt, sem þm. hélt fram, að aðrar byggingar væru miklu brýnni. Ég heyri sagt eftir seinustu skýrslum, að á Íslandi séu nú fleiri sjúkrarúm miðað við mannfjölda en í nokkru öðru landi. Flest börn komast nú í skóla, en fæstir íbúar þessara sókna í kirkju. — Ég held, að hv. 5. þm. Reykv. ætti að beita sér á stærri vettvangi en í þessu máli, ef hann vill koma í veg fyrir, að ríkið styðji að ákveðinni guðsdýrkun í landinu.

Það var fulldjúpt í tekið árinni hjá hv. þm. Barð., að enginn færi að hætta 10 kr., ef hann héldi, að hann yrði svo óheppinn að fá vinninginn og þurfa að greiða af honum skatta. Víst mundi ég vilja fá vinninginn, þó að ég þyrfti að greiða af honum alla lögmælta skatta. Hv. þm. var að tala um það, hvað væri með aðra skatta, hvort þeir ættu að hvíla á þessum happdrættisvinningi. Ég held, að þeir skattar, sem hann nefndi í því sambandi, komi alls ekki til greina að l. óbreyttum. Ef ég man rétt, var verðlækkunarskatturinn tímabundinn og gildir ekki fyrir tekjur ársins 1942, og hvað frv. um eignaaukaskattinn snertir, gildir það ekki heldur um eignaauka, sem verður á þessu ári, ef ég man rétt, — þó að ég hafi ekki frv. fyrir framan mig. Ég hygg, að þar sé eingöngu rætt um eignaauka, sem hefur orðið frá árinu 1939 eða 1940 til ársloka 1942, svo að ég held, að þess vegna þurfi engar breyt. á frv.