08.02.1945
Neðri deild: 124. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég sé nú ekki ástæðu til þess af minni hálfu að tala langt mál um þetta, sem til ákvörðunar liggur nú. Það er um tilhögunina, sem höfð er á því, hvenær Alþ. verður kallað saman næst.

Ég hef vikið að nokkrum höfuðatriðum í nál. mínu, sem ég tel, að miklu máli skipti um þinghald nú á þessu ári, og get eiginlega skírskotað til þess, sem þar stendur. Mér finnst, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir, að þingið komi svo seint saman eins og frv. greinir, nema ætlazt sé til, að hæstv. ríkisstj. fari að vinna að því, sem fyrst og fremst er þó Alþ. að vinna. Á þær röksemdir gæti ég ekki fallizt, þótt fram væru bornar, og tel þess vegna einmitt, eftir því sem málefni standa nú til, að það nái ekki nokkurri átt, að .Alþ. komi ekki saman fyrr en 1. okt.

Hitt getur verið, að menn geti greint á um, hversu löngu fyrr Alþ. ætti að koma saman, því að það getur verið skoðanamál. Mér þótti vænt um, að hv. frsm. meiri hl. virtist mér sammála um þann vanda, sem Alþ. og hæstv. ríkisstj. er á höndum um lausn þeirra höfuðvandamála þjóðarinnar, sem nú kalla að um lausn. Hann reyndi á engan hátt að andmæla því, að það væri ekki aðkallandi að leysa þessi mál, enda veit ég, að hv. 2. þm. Eyf., frsm. meiri hl., er það greindur maður, að hann sér, að það er ekki auðgert að gera það. Þó að þessir menn telji nú að vísu, að vel mætti dragast að kalla þing saman til 1. okt., og beri það fram, þá hefur þó af þeirra hálfu verið undirstrikað, hve mikilvæg vandamál kölluðu nú á úrlausn, og um leið og þetta er borið fram, er þó talað um að slá öllu á frest. Það er að vísu fært fram sem ástæða, að það verði ekkert gert fyrr en seinna á árinu. Er það máske vegna þess, að allt verði að vera komið í ófæru, áður en leitazt verður við að ráða bót á?

En þá vil ég segja, að þá hefur þjóðfélagið skaðazt svo mikið, að ekki verður tölum talið. Hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþ. heldur því fram, að engin von sé til að leysa þessi mál.

Við framsóknarmenn óskum þess af alhug, að takast mætti að leysa þessi vandamál, og vildum leggja því lið. Það væri eðlilegt, að því væri haldið fram, að hér væri ekki mikill vandi á ferðum og þess vegna mætti bíða, en því heldur enginn fram, og ég held satt að segja, að enginn leyfi sér að halda því fram.

Það er jafnvel gefið til kynna, að allt geti stórversnað frá því, sem er, en samt á að bíða. Því er haldið fram, að allra hluta vegna sé ekki unnt að semja fjárl. fyrr en síðla á árinu. Þetta skal viðurkennt, en það kann að vera, að þótt dragist fram á haustið, þá verði erfitt að sjá fram á árið 1946. Það má segja, að því lengra, sem líður, því fremur megi sjá, hverju fram vindur, en þetta er engan veginn nægileg ástæða til að réttlæta að kveðja þing svo seint saman, og þó er þetta raunar eina frambærilega ástæðan. En þegar meta skal allar ástæður, sem mæla með og móti, þá held ég, að þær, sem mæla með því, að þingið komi snemma saman, verði svo miklu þyngri á metunum, að ekki komi til mála að draga það til hausts.

Hv. frsm. meiri hl. vék að því, að í maí væri ekki hægt að sjá, hvernig síldarútvegurinn yrði. En ég vil segja, að ef útlitið er þá sæmilegt, þá megi nokkurn veginn sjá, hversu fer. En ef þá er ekki unnt að sjá neitt, hvað verða mun, þá er útlitið ekki glæsilegt, og þá væri full ástæða til, að þingið væri til staðar til að leysa þau vandamál, sem að steðja og það kynni að geta bætt eitthvað úr.

Hv. frsm. sagði, að ríkisstj. hefði það í hendi sér að kveðja þingið saman og mundi haga því eftir því sem ástæður væru til. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er stjfrv., og er því sýnt, að hæstv. ríkisstj. finnst, að til mala geti komið að kveðja þingið ekki saman fyrr en 1. okt., úr því að hún tiltekur þann dag. En fyrst svo er, þá get ég ekki að því gert, að mér virðist nokkuð mikið muni geta þurft til, til þess að þing verði kvatt saman. Því að eins og kunnugt er gilda dýrtíðarráðstafanirnar ekki nema fram í miðjan september. Og um leið og þær falla úr gildi, stórhækka vörur í verði.

Gert er ráð fyrir, að niðurgreiðslur dýrtíðarinnar á þessu ári nemi 18 millj. kr., og um leið og þær falla niður fara vörur í sitt fulla verð, og ef engin ráðstöfun er gerð, hækka þær enn meir vegna aukins framleiðslukostnaðar, og ég hélt satt að segja, að háttv. þm. væru það kunnugir, að þeir vissu, að ástandið má ekki vera verra en það nú er, ef sumar starfsgreinar eiga ekki að dragast stórlega saman. Vísitalan mundi fara upp í 300 stig eða meir,,og hvar hyggja menn svo, að slíkt mundi enda? Ég get ekki fallizt á, að, ríkisstj. grípi til neinna ráðstafana um miðjan september, og ég trúi því ekki, að hún vilji ekki hafa þingið að baki þeim ráðstöfunum, sem gerðar verða. Mér finnst þess vegna ekki þurfa að ræða þann möguleika, en ef svo færi, þá er hér í uppsiglingu nýtt stjórnarfar, sem kann að geðjast sumum vel, en ég treysti, að Alþingi sé svo skipað, að til þess komi ekki. Ég sé, að nokkrir þdm. hafa borið hér fram brtt. um, að þingið skuli kvatt saman 1. september.

Ég held, að það sé kannske fullseint, og þó er það mikil bót. Þá hefur þingið til umráða 1/2 mánuð áður en dýrtíðarl. falla úr gildi, og kynni það að nægja, ef Alþingi yrði samhent.

En ég tel þó heppilegra, að samkomudagur yrði ákveðinn fyrr, ekki einungis vegna þessa máls, heldur og annarra mála.

Ég get skotið því hér inn, að ef ekkert samkomulag yrði, gæti komið til kosninga. Skal þó viðurkennt, að þær gætu farið fram með eðlilegum hætti, þótt þingið yrði ekki kvatt saman fyrr en 1. sept. En ef til þess drægi, að þing kæmi ekki .saman fyrr en 1. okt., og samt yrðu að fara fram kosningar, þá yrði það ekki fyrr en í svartasta skammdegi, og ég trúi ekki, að nokkur kjósi að svo fari.

Ef allt gengur vel, þá getur flotið til 1. sept., og þó er alls kostar teflt á tvær hættur með þeim hætti, og enginn getur fullyrt, hvernig fer.

Þá er ein leið eftir, sem háttv. frsm. gat um, og hún er sú, að hæstv. ríkisstj. kalli þing saman. En ég get ekki treyst því, að hún geri það fyrr en um seinan, fyrst hún flytur þetta frv. Þetta kann, að vera óþarfa ótti, en ég get ekki varizt þeirri hugsun, að nokkuð mikið muni til þurfa, að hæstv. ríkisstj. noti sér vald sitt til að kveðja þing saman fyrr en ákveðið er. Ég ætla svo ekki að fjölyrða fremur um þetta, en vildi taka þetta fram til áréttingar því, sem getið er í nál. Ég get sætt mig við 1. sept., en ég fæ ekki skilið, hvernig háttv. þm. ætla að rökstyðja þá afgreiðslu, að komið geti til mála að kalla þing ekki saman fyrr en 1. okt.