09.02.1945
Efri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Ingvar Pálmason:

Ég hef ekki langt mál að flytja hér um.

Háttv. 6. þm. Reykv. taldi, að ég með ummælum mínum hefði verið að búa til grýlu handa bændum, og kom síðan inn á það, að Framsfl. hefði ekki síður gefið tilefni til vetrarkosninga með framkomu sinni á s.l. hausti. Þessi málafærsla háttv. þm. er þannig, að ég hefði talið hana sæma öðrum betur en fyrrv. kennara við Háskóla Íslands. Það, sem er hér aðalatriði, er það, að núv. stjórnarsamvinna stendur ekki traustum fótum, og rofni hún síðla í haust, leiðir það til vetrarkosninga. Og háttv. þm. virðist mér sammála um, að það væri böl, og fyrir það er ég honum þakklátur. Hann kvað stj. nauðsynlegt að fá frið til starfa, það skilja allir, en ég vil bara ekki kaupa þann frið of dýru verði, og þess er satt að segja ekki að vænta, að við framsóknarmenn treystum ríkisstj. til þess, að hún kalli saman Alþ., þótt óvænlega kunni að horfa.

Hæstv. forsrh. bar hér ekki fram nein rök; hann lýsti því einungis yfir, að hann hefði trú á, að samstarfið tækist. Ég ber virðingu fyrir öllum trúarbrögðum, en ég get því miður ekki haft sömu trú og hæstv. forsrh., þótt ég beri ekki fram neinar óskir um, að hans trú verði sér til skammar, en ég óttast það. Og ég get ekki treyst því, sem hæstv. ráðh. sagði um, að ef til kæmi, yrði þing kallað saman fyrr en ákveðið hefur verið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja um þetta umr. Það mun fyrir fram ákveðið, hvernig atkv. falla. Ég get fyrir mitt leyti tekið undir það, að ég hef enga löngun til að sitja hér mánuð eftir mánuð, og ég hygg, að stjórnarandstæðingar verði ekki sakaðir um þann drátt, sem orðið hefur á þinginu síðan um áramót. En heppilegra held ég það hefði verið fyrir hæstv. ríkisstj. að stytta þetta þing um hálfan mánuð og setja hið næsta hálfum mánuði fyrr og fá á þann hátt tóm til starfa.