07.02.1945
Efri deild: 120. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

166. mál, bygging nokkurra raforkuveita

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta frv. hefur legið alllengi fyrir í d. Það var lagt fram 13. okt. í fyrra og var borið fram af hæstv. fyrrv. ríkisstj. Mál þessi hafa verið ofarlega á baugi á þ. undanfarin ár, og á þ. 1943 var ríkisstj. heimilað að kaupa efni í aðalorkulínu frá Hafnarfirði til Keflavíkur og verja til þess úr ríkissjóði allt að 1 millj. kr.

Þegar sýnt þótti, að efni fengist í þessa línu, og það sumpart var komið til landsins, þá lá fyrir að taka ákvörðun um, hver koma skyldi línunni upp. Ríkisstj. ráðgaðist um það við Rafmagnseftirlit ríkisins, sem taldi, að um 2 leiðir væri að ræða í þessu máli. Önnur sú, að ríkið byggði línuna og sæi um rekstur hennar fyrst um sinn, þar til ákveðið væri, hver við henni tæki. Hin leiðin er sú, að farið væri að á svipaðan hátt og gert var, þegar línan var lögð frá Sogsvirkjuninni til Hafnarfjarðar. Þá var það Reykjavíkurbær, sem lagði þá línu, og um það gerður sérstakur samningur.

Um þessar tvær leiðir leitaði ríkisstj. svo álits þingflokkanna og fékk hjá þeim samþ. til þess, að ríkissjóður legði fram fé til þess að byggja línuna til Keflavíkur. Þegar þessi samþ. þingflokkanna var fengin, var svo ráðizt í framkvæmdir, og er þeim komið nokkuð á leið.

S.l. haust bárust hingað fregnir um það, að efni fengist nú í Bandaríkjunum, ekki aðeins það, sem fengið hafði verið til Keflavíkur, heldur einnig nægilegt til allra helztu þorpanna á Suðurnesjum. Þá var borin fram í Sþ. till. um það, að ríkisstj. skyldi einnig heimilt að kaupa efni í framlengingu Keflavíkurlínunnar um Suðurnes. Þessi till. fór til hv. fjvn., sem einhuga mælti með því, að ríkisstj. yrði veitt þessi heimild, og síðan nál. var gefið út, hefur nú verið samþ. ályktun þess efnis í Sþ. Í nái. fjvn. út af þáltill., sem ég nefndi, er á það bent, að þar sem fyrir liggi frv. um raforkuveitu frá Hafnarfirði til Keflavíkur, sé hér um framhald á því verki að ræða og því eðlilegt, að þær breyt., sem leiðir af samþ. till., verði teknar upp í frv. það, sem hér liggur fyrir.

Á þetta féllst fjhn. og leggur því til, að á frv. verði gerðar þær breyt., sem beinlínis leiðir af samþ. þáltill. um innkaup á efni til rafveitna um Reykjanes, og að ríkisstj. sé einnig heimilað að koma upp veitu, sem nái til þeirra staða, sem greint er í till. n.

N. hefur leitað álits Rafmagnseftirlits ríkisins um, hversu mikið þessi aukning aðallínunnar muni kosta, og er talið, að hækkunin muni nema 1 millj. og 200 þús. kr., og er þá miðað við aðallínu og háspennustöð, en gert var ráð fyrir, að aðallínan til Keflavíkur mundi kosta 1 millj. og 800 þús. kr., svo að kostnaðurinn í heild yrði um 3 millj. kr.

N. leggur því til, samkvæmt þessu, sem ég hef sagt, að frv. verði samþ. með þeim breyt., að auk Njarðvíkur og Keflavíkur skuli hún einnig ná til Grindavíkur, Miðnes-, Gerða- og Hafnahreppa. Upphæðin, sem ríkissjóði er heimilað að verja í þessu skyni, hækkar samkv. áætlun Rafmagnseftirlitsins úr 1 millj. og 800 þús. kr. í allt að 3 millj. kr.

Nm. allir eru sammála um þetta, að ég hygg, en einn nm., hv. 1. þm. Eyf., var ekki á fundi, þegar málið var afgr., og er mér ekki fullkunnugt um afstöðu hans, en ég hygg, að ég muni það rétt, að hann væri meðmæltur því, að þetta yrði gert.