15.02.1945
Neðri deild: 130. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

166. mál, bygging nokkurra raforkuveita

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Þetta frv., sem liggur hér fyrir á þskj. 1100, er komið frá Ed. og hefur gengið í gegnum hana: Það fer fram á, að ríkisstj. heimilist að reisa á þessu og næsta ári rafveitu frá Hafnarfirði til Keflavíkur og Suðurnesja og að hinu leytinu línu frá Sogsvirkjuninni til kauptúnanna í Árnessýslu og til Þykkvabæjar í Rangárvallasýslu.

Fjhn. hefur athugað þetta frv., og eins og menn sjá á þskj. 1115, mælir hún með því, að frv. verði samþ. með tveimur breyt., annars vegar, að inn verði tekin lína, sem búið er að samþ. till. um, frá Akureyri til Dalvíkur og til Hríseyjar. Er þessi till. gerð eftir tilmælum hv. 2. þm. Eyf. Hins vegar er till. um línu frá Laxárvirkjuninni til Húsavíkur og Reykjahverfis.

N. gerir að sjálfsögðu ráð fyrir, að heimildin verði því aðeins notuð, að hæstv. ríkisstj. komist að samningum um kaup á efni og að öðru leyti sé fært að koma þessum rafveitum upp, án þess að það sé með nokkrum ókjörum.

N. álítur, að hér sé um svo mikils vert mál að ræða, sem sé réttlátur og eðlilegur áfangi á þeirri leið: sem hún vill, að farin verði í þessum málum, að það sé sjálfsagt að herða á framkvæmdum á þessu sviði, og telur því, að Alþ. beri að samþ. þetta frv. á þann veg, sem n. leggur til.

Í samræmi við þessa brtt. um að bæta við þessum tveimur rafveitum flutti svo n. hækkunartill. á þeirri lánsheimild, sem stj. er veitt með þessu frv.

Eins og ég hef skilið þetta mál, þá er ástæðan til, að þetta frv. kom fram, að ekki þótti nægilegt að fá um það þál., heldur yrði að fá lagaheimild, þar sem ákveðið væri, að stj. væri heimilt að taka lán til þessara framkvæmda, þegar til kæmi.

Fyrirsögn frv. leggur n. til, að sé breytt, af því að hér er orðið um fleiri raforkuveitur að ræða, á þann einfalda veg, að frv. heiti frv. um byggingu á nokkrum raforkuveitum. N. telur fara betur á að hafa fyrirsögnina á þá leið en að fara að telja þar upp allar þær rafveitur, sem um ræðir í aðalgr. frv.

Ég geri ráð fyrir, að mönnum sé ljóst, hvað hér er um að ræða, og þarf ekki að hafa um málið fleiri orð. Hv. 3. þm. Reykv. skrifar undir nál. með fyrirvara, en hann er ekki viðstaddur, og verður hæstv. forseti að ráða því, hvort hann vill bíða hans eða ljúka nú þegar afgreiðslu málsins við þessa umr.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið og vænti, að það fái greiðan gang í gegnum þingið.