08.01.1945
Efri deild: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

141. mál, kaup eigna setuliðsins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Mig langar til á þessu stigi málsins, áður en það fer í n., að gera nokkra aths., sem mér þætti vænt um, að hv. fjhn. vildi taka til athugunar. Í 1. gr. t.d. er ekkert talað um, hvort þessar eignir skuli keyptar á þessu ári. Í 2. gr. er talað um ráðstafanir og sölu á þessum eignum, en ég vildi gjarnan vita (fjmrh. er nú ekki við), hvort reiknað sé með að greiða af þessu toll til ríkisins eins og af innfluttum vörum, en það sýnist eðlilegt, að reiknaður sé tollur af öllum þessum eignun, hvort sem það eru fasteignir eða vörur, eins og öðrum vörum.

Þá langar mig til að vita, hver ræður og hvort þetta er undir verðlagseftirliti, eða er þeim mönnum, sem með þetta fara, eða þessari n. heimilt að selja fyrir hvaða verð sem er? Ég hef orðið var við, að sumt af þessu er selt með uppskrúfuðu smásöluverði, þannig að það er óhugsandi fyrir þá menn að kaupa neitt af þessu, sem þurfa að kosta flutning á því. Og það mun hafa komið fyrir, að þetta gamla drasl, sem búið er að rífa og lítur illa út, hafi verið selt með 20% afslætti frá því, sem verðið var hjá Völundi og fleiri timburverzlunum. Ég skil ekki í því, að ætlazt sé til, að þjóðin fari í kapphlaup um að kaupa lélegt, brotið og bramlað efni með slíku okurverði, og ég er á móti því að notfæra sér neyð þeirra manna, sem verða að kaupa þetta efni, af því að þeir geta ekki fengið annað. Ég vildi gjarnan, að þetta væri athugað, og þá vildi ég gjarnan fá að vita um það, hvernig þessi mál standa yfirleitt. Ég sé í nál. á þskj. 618, að n. hefur fengið skýrslu og reikningsjöfnuð sölunefndarinnar án þess að getið sé í nál., hvort um er að ræða, að það verði til ágóða fyrir ríkissjóð. Það virðist ekki óeðlilegt, fyrst þetta mál kemur á annað borð fyrir þingið, að þm. fái að vita, hvernig þessi mál standa fjárhagslega fyrir ríkið.

Þá er það viðvíkjandi 3.–4. gr., að ríkisstj. veitist heimild til þess að fela hæstarétti að nefna 3 manna matsn., sem meti kröfur og landspjöll, sem kunni að stafa frá þessum byggingum. Og síðar er sagt, að úrskurður n. sé fullnaðarúrskurður um bætur. Ég get ekki fellt mig við, að 3 manna n. geti að fullu og öllu gert út um stórar fjárupphæðir, þegar menn jafnvel geta deilt um tveggja krónu upphæð, farið með það í undirrétt og jafnvel til hæstaréttar. Ég álít, að það séu svo miklir gallar á þessu ákvæði, að nauðsynlegt sé að fá því breytt, áður en þetta frv. verður að l. — Þá er það 5. gr. frv., þar sem ríkisstj. getur, að fengnu leyfi hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar, látið mannvirkin vera þar áfram. Ég teldi mjög æskilegt, að sett yrði þar ákveðið tímatakmark, hve lengi það yrði leyft. Ég hygg, að það hafi verið skoðun landsmanna yfirleitt, að það færi bezt á því, að þau verksummerki, sem setuliðið hefur sett á land okkar, hyrfu sem fljótlegast, er það hefur farið héðan fyrir fullt og allt. Enda þótt ríkið sjálft sé orðið eigandinn að flestu þessu drasli, verður það til lítils sóma fyrir okkur, ef við ætlum að fara að láta t.d. braggana standa kannske í fleiri ár.

Á þessu stigi málsins vildi ég taka þetta fram við n. og vænti, að þegar til 2. umr. kemur, fái ég skýringar á þeim atriðum, sem n. sér sér e.t.v. ekki fært að taka til greina.