21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Það virðist svo, sem stuðningsmenn hæstv. ríkisstj.. hafi ekki mikinn áhuga fyrir framgangi þessa. máls, ef dæma ætti eftir sókn þeirra á þingfundi, enda er það ekki undarlegt, þegar tekið er tillit til fyrri afstöðu sumra þeirra í málum Eimskipafélagsins. Hæstv. samgmrh. gerði hér að umræðuefni áðan sumt af því, sem ég ræddi um í framsöguræðu minni, og þá einkum ummæli mín viðvíkjandi skipabyggingum. Kvaðst hann. ekki hafa heyrt svo lagar tölur eins og ég nefndi,. og talaði um tilboð frá Svíþjóð, en þær tölur voru miklu hærri en þær, sem ég hafði úr hinu enska tímariti. En ég hygg, að hann geti náð í þetta rit, og skal ég jafnvel vera hjálplegur í því efni, ef með þarf. Hæstv. ráðh. telur, að þótt eignir félagsins séu miklar, þá muni þær ekki nægja til að fullnægja þörfum félagsins um skipakost.

Ég vil vekja athygli á því, að samkvæmt mínum brtt. fær félagið að halda öllum sjóðum og aðstöðu til áframhaldandi tekjuöflunar til að mæta þörfunum. Ég legg einungis til, að ríkið fái aukna íhlutun í rekstri félagsins.

Hæstv. ráðh. kvaðst hvergi finna það í því, sem ég las upp úr Alþýðublaðinu frá í fyrra, að þar væri sagt, að afnema skyldi skattfrelsi Eimskipafélagsins. En ég hygg, að það hafi verið vilji Alþfl. og þessa málgagns hans, að þessi fríðindi skyldu niður falla. Hann viðurkenndi, að farmgjöldin hefðu verið of há, en segir svo, að það komi málinu ekkert við. Það virðist alleinkennileg málfærsla að viðurkenna annars vegar, að hér hafi átt sér stað óhæfilegt athæfi, en segja svo, að það komi málinu ekkert við. Hæstv. ráðh. kveðst fús að styðja að því, að ríkið fái aukið eftirlit með rekstri félagsins. Ég held, að hann geri það ekki betur á annan hátt en styðja mína till. Hann kvað erfitt að komast til botns í gögnum félagsins fyrir aðra en stjórn þess. Þetta mælir mjög með mínu máli. Það vill svo til, að einn maður í stjórn Eimskipafélagsins er framsóknarmaður, en er þó ekki kosinn í stjórnina af Framsóknarfi., heldur stjórnskipaður. En ég held, að allir sjái, hversu það er fráleitt að halda því fram, að þessi maður, sem er einn af 7 eða 9 í stj., geti ráðið málum félagsins. En þessi maður hefur gert ágreining í stjórn félagsins. Fyrir stríð vildi hann byggja flutningaskip, en hinir aðrir vildu byggja farþegaskip, og svo var auðvitað ekkert gert. Nú er það ljóst orðið, hvert tjón hefur orðið af því, að ekki var farið að till. þessa manns.

Þá kem ég að mjög eftirtektarverðum kafla í ræðu hæstv. ráðh., en það var viðvíkjandi hlutafénu. Hann kvað hlutaféð vera 1 millj. og 600 þús. kr., en eignir félagsins nú eru 30–40 millj. kr. Og síðan segir hann, að hvert hlutabréf sé tuttugu og fimm sinnum meira virði en það er skrásett fyrir. Þetta er rétt samkvæmt þessum tölum. En svo talar hæstv. ráðh. um, að ég sé að gera fél. það kostaboð að kaupa bréfin við nafnverði. Þótti honum þetta hin mesta fjarstæða. Með þessu hefur hæstv. ráðh. gefið í skyn, að þetta sé gróðafyrirtæki og verið sé að taka fé af hluthöfunum, ef ríkið eignist hlutina. Því hefur verið haldið fram, að hér væri ekki um að ræða venjulegt hlutafélag og félagana dreymdi ekki um að fá meira í arð en sem svaraði hæfilegum vöxtum, en nú kemur hæstv. ráðh. og telur ekkert athugavert við það, að hluthafarnir selji hlutabréf fyrir tuttugu og fimm sinnum hærra verð en þau eru skráð að nafnverði. Ég held, að þessi yfirlýsing gefi tilefni til nánari athugunar. Ef líta ber á þetta sem gróðafyrirtæki, þá er ekkert vit í að láta það hafa skattfrelsi.

Hæstv. ráðh. telur það óheyrilegt, að ég ætli að sölsa eignir félagsins undir ríkissjóð. Það, sem ég hef lagt til, er byggt á þeim skilningi, sem hefur ríkt um starfsemi þessa félags. Hann telur það ganga nærri stjórnarskrárbroti að taka þær eignir af félaginu, sem það hefur fengið sem ágóða af rekstri leiguskipa, sem ríkisstj. lét því í té.

Nei. Það, sem hér er um að ræða, er það, hvort á að fást í sambandi við þetta mál einhver trygging fyrir því, að félagið verði rekið með almenningshag fyrir augum. Að því er stefnt með till. minni.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að segja út af ræðu hæstv. ráðh.

Hv. frsm. meiri hl. er ekki hér í hv. d. Hann sagði um þetta mál nokkur orð og talaði um Eimskipafélagið á sama hátt og oft hefur verið gert áður, að þetta væri alþjóðarfyrirtæki. Talaði hann um, að þessar 23 millj. segðu nú ekki mikið, er að því kæmi að endurbyggja flutningaskipaflotann. Má vel vera, að það þurfi meira fé. En mín till. gengur ekki heldur í þá átt að takmarka á neinn hátt þá sjóði, sem þarna eru fyrir hendi til þeirra hluta. Hann virðist vera á þeirri skoðun, eins og hæstv. ráðh., að þetta fé sé raunverulega allt eign hluthafanna, enda er það svo, að lagalega séð er það auðvitað rétt. En ég vil endurtaka það, sem ég hef um þetta sagt, að því hefur alltaf verið haldið fram af þeim sjálfum, að ekki væri gert ráð fyrir því, að hluthafarnir fengju meira fé út úr þessu en það, sem þeir höfðu upphaflega í félagið lagt, og hæfilega vexti af fé sínu. En ef þessi skoðun fer að skjóta upp kollinum, að það sé eðlilegt, að hluthafarnir noti sér út í æsar þessa aðstöðu, þá er enn ríkari ástæða til að spyrna hér við fótum í þessu máli en að halda áfram að láta félagið auðgast, ef sú er meiningin, að þetta sé allt eign hluthafanna og renni í þeirra vasa.

Þá kom fram ýmislegt fleira í ræðu hv. þm. a.-Húnv., sem hann hefði helzt ekki átt að segja, því að þar fór hann ekki með rétt mál, t.d. það, að mínir skoðanabræður hefðu komið í veg fyrir, að Eimskipafélagið keypti skip fyrir stríðið. Ég er búinn að víkja að þeirri till., sem Jón Árnason kom með, um kaup á skipum fyrir stríð, en var hafnað. Þá sagði hv. þm. a.-Húnv., að ég hefði vel mátt lesa upp úr Tímanum eins og ég las úr öðrum blöðum um Eimskipafélagið. Það er raunar rétt, að ég hefði vel getað það. En ég held, að framkoma mín og till. í þessu máli sé í góðu samræmi við það, sem hefur verið haldið fram í Tímanum um þetta mál.

Þá er það hv. 8. þm. Reykv. Það var raunar ekki margt merkilegt í ræðu hans, sem ástæða er til að svara. Hann byrjaði á að tala um, að hann hefði talið eðlilegast, að ríkið annaðist um nauðsynlega aukningu flotans, En hins vegar hefði flokkur hans gengið inn á það til samkomulags við aðra, sem stóðu að hæstv. ríkisstj., að Eimskipafélagið annaðist þetta. Hafi flokknum nokkru sinni verið alvara með það, sem hann hefur haldið fram í þessu máli, sem ég lýsti hér að nokkru í fyrri ræðu minni, þá hefði hann vitanlega haft allt aðra aðferð við afgreiðslu þessa máls.

Þá ræddi hv. þm. um Eimskipafélagsgróðann og sagði hann til orðinn vegna slælegs eftirlits og slæmrar stjórnar þeirra, sem ráðið hafa í síðustu 20 ár, og Framsfl. hafi beitt sér fyrir þessu skattfrelsi. Það er allt annað mál, þó að félaginu væri hjálpað á þennan hátt, þegar það var fátækt, en nú, þegar það er orðið auðugasta félagið í landinu og skattar eru lagðir á aðra með öldungis óviðurkvæmilegum aðferðum. En Sósfl. söðlar hér alveg um. Einmitt þegar félagið er orðið ríkt og þarf síður á stuðningi að halda, vill hann veita því fríðindi áfram til að græða enn þá meira. En þessi hv. þm. telur, að áður hafi flokkurinn verið á móti þessu, meðan félagið hafði lítið fé og þurfti á meiri stuðningi að halda. Þetta er bara í góðu samræmi við aðra framkomu þessa hv. þm. í ýmsum málum.

En svo kom annar þáttur í ræðu hans, sem ég get ekki látið hjá líða að mótmæla, því að hann fór þar beinlínis með rangt mál, þar sem hann talaði um S.Í.S. í þessu sambandi. Sagði hann, að margir menn innan þessa félags hefðu haldið því fram, að félagið ætti að eignast skip. Svo kemur það furðulegasta í ræðu hans, sem sé það, að þessi hugmynd hafi verið barin niður af Framsfl., þ. á. m. af mér, og á þann hátt hafi verið komið í veg fyrir, að samvinnufélögin stofnuðu til samkeppni við Eimskipafélagið.

Hér er öllu snúið öfugt, þannig að ég get ekki hjá því komizt að fara um þetta nokkrum orðum. Það eina, sem er rétt í þessu, er það, að nú fyrir nokkru komu till. fram um það á fundum hjá S.Í.S. og ýmsum kaupfélögum, að rétt væri að safna fé í því skyni, að Sambandið og félög þess gætu eignazt eitthvað af skipum til að annast flutninga fyrir félögin að einhverju leyti. Aðalupphafsmaður að þessu máli var einn af framkvæmdastjórum Sambandsins, Jón Árnason, sem hv. þm. talaði um í þessu sambandi, þótt hann nefndi hann ekki með nafni. Jón Árnason og fleiri, sem kjörnir voru í nefnd til að vinna að þessu máli, sendu síðan erindi um þetta til allra kaupfélaga úti um land, og var hafin almenn fjársöfnun hjá kaupfélögunum í þennan sjóð. Undirtektir voru misjafnar, en viða hafa ýmsir kaupfélagsmenn og kaupfélög lagt allmikið fé í þennan sjóð. Ég tel það enn þá ámælisverðara, að hv. 8. þm. Reykv. skuli snúa þarna öllu við, vegna þess að hann hefur haft aðstöðu til að vita hið rétta, þar sem hann hefur verið fulltrúi á aðalfundum Sambandsins undanfarið, þar sem gefnar hafa verið skýrslur um þetta mál. Þessi hv. þm. hefur einnig verið í stjórn Kaupfélags Reykjavíkur, sem er í Sambandinu. Ég veit ekki, hvað hann hefur beitt sér fyrir þessu máli og hve mikið hefur safnazt til skipakaupa þar í félaginu. En ef miðað er við mannfjölda í þessu samvinnufélagi og borið saman við félagsmannafjölda í mörgum öðrum kaupfélögum, hefði þetta félag nú átt að vera búið að leggja fram allmikla upphæð til þess að komast þar hlutfallslega jafnlangt og ýmis önnur kaupfélög og félagsmenn þeirra.

Annars var megnið af ræðu hv. þm. tilraun til þess, eftir að hann var kominn í vandræði og gat ekki fært nein rök fyrir hringsnúning sínum, að koma sínum ávirðingum á aðra og kenna öðrum um það, sem miður hefur farið í stjórn þess félagsskapar, sem þarna er um að ræða. Það er bara mannlegt, þótt hann reyni þetta. Árangurinn verður að sjálfsögðu lítill, þótt hann reyni á þann hátt að klóra í bakkann, því að allt, sem hann sagði um þessa hluti, er vitanlega út í bláinn og alveg öfugt við það, sem rétt er í málinu.

Hv. þm. endaði með því að segja, að ef Framsfl. væri nú í valdaaðstöðu, mundi hann samþ. skattaafstöðuna án nokkurra skilyrða. En ég vil segja honum það, að þótt flokkur hans sé búinn þegar og verði ekki mikið fyrir að gleypa allt, sem hann hefur áður sagt um þetta mál, munu aðrir ekki vera eins fúsir til þess að hverfa þannig í einu vetfangi frá sinni stefnu, enda hafa þeir ekki gert það.