01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. meiri hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. — Frv. þetta er stjórnarfrv., lagt fram í Nd., og er um það að framlengja um tvö ár l., sem hafa verið í gildi, viðvíkjandi skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands. Við meðferð málsins í Nd. voru gerðar svo miklar breyt. á frv., að Eimskipafélagið getur ekki notað sér þau hlunnindi, sem stóð til, að því yrðu veitt eftir frv., eins og það kom fram í Nd. Fjhn. þessarar d. hefur tekið frv. til meðferðar og lagt til, að það verði fært aftur í það horf, sem það var í, þegar það kom frá ríkisstj., en þó bætt við sem skilyrði fyrir skattahlunnindum, að birt verði skrá yfir hluthafa félagsins.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Að vísu er hagur félagsins góður, en þörfin fyrir fé hefur aldrei verið meiri en nú, þar sem félagið hefur af styrjaldarástæðum misst 3 af sínum beztu skipum. Ég þarf svo ekki að fjölyrða frekar um málið. Þetta félag hefur verið álitið sameignarfélag allra landsmanna og hefur unnið það mikið þjóðþrifastarf, að sjálfsagt sýnist vera að veita því þann styrk, sem frv. felur í sér. Ég skal taka það fram, að á fundi n., þar sem málið var til meðferðar, var hv. 3. landsk. þm. ekki við, en hv. 1. þm. Eyf. hefur lagt fram sömu brtt. sem hv. þm. V.-Húnv. kom með í Nd. og meiri hl. n. getur ekki mælt með.