02.03.1944
Neðri deild: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

25. mál, hafnarlög fyrir Bolungavík

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég hef ekki mörg orð að mæla í sambandi við þetta mál á þessu stigi. Það er einungis vegna þess, að hv. sjútvn. hefur gert till. til nokkurrar breyt. á frv. því, sem hér liggur fyrir, að ég sé ástæðu til að segja nokkur orð.

Í frv. var, eins og hv. frsm. sjútvn. tók fram, gert ráð fyrir því, að ríkissjóður legði fram helming kostnaðar við fyrirhugaða hafnargerð í Bolungavík. Og þetta byggðist á því, sem ég greindi frá við 1. umr. málsins, að fram til þessa tíma hefur þátttaka ríkissjóðs í kostnaði við hafnarbætur í Bolungavík, sem gerðar hafa verið fram til þessa, byggzt á þessum hlutföllum, að ríkissjóður hefur lagt fram helming. Það var þess vegna í samræmi við það, sem við létum þetta hlutfall haldast einnig í þessu frv.

Nú hefur hv. sjútvn. hins vegar ekki treyst sér til þess að fallast á þá breyt. frá hinu almenna hafnarlagaformi, sem þetta frv. felur í sér, og vil ég út af fyrir sig ekki lá hv. n. það. Og það verður ekki gert að neinu ágreiningsatriði af okkur flm. úr því, sem komið er.

Ég vil rétt benda á það, að enda þótt þetta sé kannske hættulegt fordæmi, að hverfa frá þeim hlutföllum, sem flest hafnarl. hafa hingað til byggzt á, þá segi ég það sem mína skoðun, að ég hygg, að í framtíðinni hljóti að verða breytt nokkuð um stefnu í þessum efnum, þannig að framlög til hafnargerða á einstökum stöðum verði látin miðast við það á hverjum stað, hversu góð skilyrði eru þar til þess að auka heildarframleiðslu landsmanna. Ég er óhikað þeirrar skoðunar viðkomandi þeim stöðum, þar sem skilyrði eru sérstaklega góð, til þess að útgerð geti orðið þar mikil, og með mikla þýðingu fyrir þjóðarheildina, að framlag ríkisins beri að vera meira til hafnargerða þar en til hafnargerða á þeim stöðum, þar sem skilyrði eru takmarkaðri um aukna þróun útgerðarinnar. — Ég læt þessa skoðun koma hér fram í sambandi við þetta mál. Og í samræmi við þá skoðun er það, að við flm. þessa frv. höfðum lagt til, að ríkissjóður legði fram að hálfu leyti kostnað við hafnargerð á þessum stað, Bolungavík, sem vissulega mun vera sá staður á landi hér, er einna bezt skilyrði hefur til sjósóknar. Og það sannast fyrst og fremst af fortíð þessa staðar sem verstöðvar og enn fremur af legu staðarins við hin ágætustu fiskimið þessa lands.

En eins og ég hef tekið fram, munum við flm. frv. að svo komnu máli sætta okkur við þær breyt., sem hv.. sjútvn. hefur lagt til, að gerðar verði á frumvarpinu.