09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Það er leitt, að sá ráðh., sem þetta mál heyrir undir, skuli ekki vera staddur hér í d. til þess að svara fyrirspurnum, því að eftir svörum ráðh. hlýtur það að fara, hvernig brtt. á þskj. 189 verða afgreiddar.

Um 1. lið till. er það að segja, að það er að vísu rétt, að ríkisstj. hefur nú heimild til niðurgreiðslu, en samkv. skilningi stj. getur hún haldið greiðslum áfram, jafnvel þótt heimildin félli niður. Hvaða ástæða er til þess, að í dýrtíðarl. séu svo óskýr ákvæði, að um þau geti verið ágreiningur milli þings og stjórnar?

Það er rétt hjá hv. 3. landsk., að þetta atriði er þýðingarlaust nú, en það fær þýðingu, strax og heimildin fellur niður. Hvernig fer hann þá að komast að þeirri niðurstöðu, að till. sé þarflaus og ástæðulaust að taka afstöðu til hennar? Ég fæ ekki séð, hvernig hann getur í öðru orðinu fallizt á, að það sé ágreiningur um frv., en segja svo í hinu orðinu, að ekki sé þörf að setja skýrari ákvæði en þessi. Hvað sem liður gildi þessarar till., þá sé ég ekki, að um það geti verið nokkur ágreiningur, að skera beri alveg úr um þennan ágreining, og þegar menn greiða atkv. um þessa till., greiða menn atkv. um það, hvort þeir fallast á skilning ríkisstj. eða ekki, hvort þeir vilja, að ríkisstj. hafi þessa heimild í l. frá Alþ., eða ekki.

Nú kom það í ljós á síðasta Alþ., að meiri hluti var fyrir því að setja ákvæði inn í dýrtíðarl. um, að ríkisstj. hefði enga heimild til fjárgreiðslna úr ríkissjóði í þessu skyni, nema til kæmi samþykki Alþ. Málið dagaði uppi í Nd., og hefði það mátt furðulegt heita, ef till. hefði ekki verið samþ. þar við síðustu umr.

Hvað aðra brtt. snertir, á þskj. 189, þá tel ég hana alveg nauðsynlega, og er ég þar ósamþykkur hv. 1. þm. Eyf. Í fyrsta lagi orkar það ekki tvímælis, eins og nú er ástatt og eins og lögin eru nú, að ekki er hægt að reikna út verð landbúnaðarafurða á næsta hausti á neinn löglegan hátt, þ.e.a.s. það eru engin fyrirmæli um það í l., hvernig að því skuli farið, og mér þykir það harla ótrúlegt, að ríkisstj. kæri sig um slíkt ástand. Ríkisstj. hlýtur að óska eftir því, að Alþ. gefi um það skýr fyrirmæli, hvernig að þessu skuli farið.

Háttv. 1. þm. Eyf. spurði, hvers vegna ríkisstj. gæti ekki látið reikna þetta út, og geri ég ráð fyrir, að hann eigi þar við, að Hagstofa Íslands geri það. En þetta nær ekki nokkurri átt, því að hér er um um mjög flókinn útreikning að ræða, þar sem kemur fyrir fjöldi deiluatriða, og samkvæmt þessum útreikningi er svo verðlag á landbúnaðarafurðum ákveðið. Verðið getur að miklu leyti ákvarðazt af því, hver reiknar það út. — Hv. þm. veit, að miklar deilur eru um útreikning framfærsluvísitölunnar. Þó eru hins vegar um hana til l., og ef þau væru ekki til, þá væri nauðsyn á að setja þau. Á sama hátt eru ekki til nein lagaákvæði um það, hvernig reikna á verð landbúnaðarafurða á næsta hausti. (BSt: Gera það eins og n. gerði það.) N. gerði það í eitt skipti, en það koma fyrir fjöldamörg atriði, sem breytast frá ári til árs, og n. gerði ráð fyrir, að henni yrði falið þetta næsta haust. Hún gerði einnig ráð fyrir, að hún fengi leyfi til þess að breyta grunnverðinu og hlutföllum þess. N. talar um það á fleiri en einum stað, að þar sem upplýsingar vanti, þá séu sumar niðurstöður hennar hæpnar. Ég get nú ekki skilið, hvað geti verið hættulegt við það, að n. fái heimild til að breyta þeim grundvelli, sem nú gildir, ef fram koma upplýsingar, sem allir nm. eru sammála um, þegar svo er ákveðið, að þessi grundvöllur gildi áfram, ef n. er ekki sammála. Í brtt. þeirri, er hér um ræðir, er gert ráð fyrir, að n. fái sjálf að vinna þetta verk.

Ég skil miklu betur 3. landsk. og afstöðu hans. Hann bara segir og fullyrðir, að niðurstöður n. séu hæpnar og þess vegna sé ekki ástæða að fela henni neina endurskoðun á þessum grundvelli. En mér finnst þetta nú vera öfugt. Það, sem hann meinar, er, að n. sé ekki trúandi til að komast að réttri niðurstöðu, niðurstaðan sé röng og muni verða það aftur. En það er órökrétt að taka þessa afstöðu. Það er ekki nóg að spyrna á móti því, að n. endurskoði niðurstöður sínar. Hv. þm. þyrfti þá a.m.k. að koma fram með till. um að skipa aðra n., sem annaðist þetta næsta haust. Hv. þm. heldur því fram, að þýðingarlaust sé að fela sömu n. þetta, vegna þess að hún verði ekki sammála. Þetta getur verið, en ég tel, að hún þurfi að endurskoða ýmislegt, þar sem frekari athuganir tækju svo af öll tvímæli, að enginn ágreiningur gæti komist að. Dreg ég það af því, að. n. talar hvað eftir annað um ónógar upplýsingar, sem þeir hafi fengið á þeim stutta tíma, sem n. starfaði.

Hv. þm. sagði, að hér væri ekki um samkomulag milli stétta að ræða. Um það má deila, en ég veit ekki, hvaða aðilar hefðu átt að semja fyrir hönd stéttanna nema þeir, sem þar sömdu, því að þar voru sammála einn maður, sem tilnefndur var af Alþýðusambandi Íslands; og annar tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands. Ég veit ekki, hvaða fulltrúa hv. þm. vill fá fyrir þessar stéttir, ef hann vill láta þær semja, ef ekki frá þessum aðilum. Í Alþýðusambandinu var þetta samþ. einróma, og ég veit ekki til, að neinn ágreiningur hafi verið innan Búnaðarfélagsins um þetta. Þannig, hvað sem skoðunum okkar líður á niðurstöðum n., þá er ekki nokkur vafi á, að hér er að ræða um samkomulag milli tveggja stéttasamtaka, verkamanna og bænda.

Það mætti ef til vill segja sem svo, að líkur væru til þess, að ríkisstj. mundi fela sex manna n. að vinna þetta verk, þó að það verði ekki ákveðið hér á hæstv. Alþ. En því þá ekki að taka það þannig fram í l., að þetta verði ótvírætt? En ef þetta verk verður falið einhverjum öðrum, þá er samkomulagið, sem gert var um sex manna n., rofið. Ef menn yfirleitt óska eftir því, að þetta samkomulag haldi áfram, verða menn að samþ. þessa till. Að spyrna á móti þessari till. er ekkert annað en andstaða við niðurstöður sex manna n., andstaða gegn því, að samkomulagið haldi áfram, og þess vegna skil ég afstöðu og sjónarmið hv. 3. landsk.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en get aðeins bætt því við, að ég veit, að sex manna n. beinlínis bíður eftir því, að ákvörðun verði tekin um þetta, því að það þarf að fara að vinna þetta verk nú þegar. Hér er um umfangsmikið verk að ræða, sem nauðsynlegt er að byrja á nú þegar.