04.03.1944
Efri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki vera margorður um þetta, en ég vil út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um málið, láta í ljós undrun mína yfir þeirri ályktun, sem hann dregur af brtt., að hér sé um hugsunarvillu að ræða og mótsetningu við 2. gr., sem segir, að löggjafarvaldið sé hjá Alþ. og forseta. Breyt. er ekki þannig, að forseti hafi ekki eftir sem áður það synjunarvald, sem honum er ætlað í stjskr. Breyt. er aðeins um það, hvor aðilinn skuli ráða á tímabilinu, frá því að forseti synjar staðfestingar og þar til búið er að bera frv. undir þjóðaratkv. Forseti hefur eftir sem áður þessa stórkostlega merkilegu heimild til að bera lagafrv. undir þjóðaratkv. Það, sem um er að ræða, er, hvort frv. hefði lagagildi þennan styttri eða lengri tíma, sem hlýtur að líða, frá því forseti synjar staðfestingar, þar til þjóðin hefur sagt sitt orð.

Nú skal ég ekki fara út í að ræða um, hvað leiðir af hvoru fyrir sig, en ég býst við, að maður gæti sett ýmis hugsuð dæmi um, að þetta vald forsetans gæti ónýtt l. frá Alþ., sem væru þannig, að þau þyrftu þegar að ganga í gildi. Mér finnst hér hvorki um rangt né rétt að ræða, en það eitt, að Alþ. ákveði, hvora leiðina það vilji fara í þessu máli. Mín afstaða er sú, að okkur beri að halda valdi þjóðhöfðingjans praktískt talað óbreyttu frá því, sem það hefur verið fram til þessa. Og praktískt talað er synjunarvaldið, sem konungur hefur haft, — ekkert.

Það er í vitund allra manna, að Alþ. hefur löggjafarvaldið og synjun staðfestingar frá konungi komi ekki til. Nú tel ég rétt, að kosinn forseti hafi visst vald, og það fær hann. Hann getur skotið lagafrv., sem Alþ. hefur samþ., en hann telur háskalegt, undir atkv. þjóðarinnar. Þá er kominn upp ágreiningur milli þessara tveggja aðila löggjafarvaldsins, Alþ. og forseta, og meðan beðið er eftir úrskurði þjóðarinnar, vil ég láta Alþ. ráða. Af þessum tveim aðilum, sem ráða löggjöfinni, hika ég ekki við að telja Alþ. aðalvaldið og finnst því sjálfsagt, að það ráði, meðan beðið er eftir úrskurði þjóðarinnar, enda þótt rétt sé, að forseti, sem kjörinn er á lýðræðislegan hátt af þjóðinni, geti skotið málum til hennar. Ég veit ekki, hvaða traust menn bera til Alþ., ef þeir ætla, að það muni samþ. svo háskaleg lagafrv., að þau geri miska, rétt á meðan beðið er eftir úrskurði þjóðarinnar.

Fyrir mér vakir svipað og fram kom hjá hv. frsm. mþn., að þjóðkjörinn forseti verði, ekki sízt hjá svo lítilli þjóð sem Íslendingum, ákaflega valdamikill maður. Þó að honum væri ekki einu sinni ætlaður málskotsréttur í stjskr., þá væri hann samt sem áður valdamikill aðeins í krafti þess, að hann er ókrenkjanlegur þjóðhöfðingi og virðingarmesti maður þjóðarinnar. Og mér finnst eiga að láta hann hafa sem minnst völd fyrir utan þetta ósjálfráða. Ég skal ekkert um það segja, hvort ég á sínum tíma geti verið því samþykkur að fá forseta svo og svo mikil völd í hendur. Það getur verið, að reynsla okkar verði sú, að það verði heppilegt. En meðan við þekkjum þetta ekki og erum að flytja völd inn í landið, hallast ég eindregið að því, að hinir kjörnu fulltrúar þjóðarinnar á Alþ. ráði málefnum yfirleitt.