08.03.1944
Neðri deild: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. Það fór svo í Ed., að 26. gr. stjskr. var breytt í það horf, sem hún var í, þegar frv. var lagt fram í upphafi. Vegna þess að brtt. sú, sem ég leyfði mér að bera fram á sínum tíma, náði svo miklu fylgi hér í þessari d., taldi ég, að ég brygðist skyldu minni, ef ég endurtæki hana ekki hér í þessari d. Ég hef að vísu ekki mikið fram að færa fram yfir það, sem ég lét um mælt í þessari d. undir umr. þá, en ég get þó ekki gengið fram hjá því, að það komu vissar skýringar við málið í Ed., sem mér voru í raun og veru kærkomnar og skýrðu betur, hvernig stjskrn. hefur litið á ákvæði þessarar gr.

Hv. frsm. stjskrn. Ed. lét m.a. svo um mælt, að það væri í algeru ósamræmi við þá hugsun, sem vakað hefði fyrir meiri hl. stjskrn., ef 26. gr. væri samþ. á þann veg, sem Nd. gekk frá henni, því að fyrir stjskrn. hefði vakað, að löggjöfin væri að öllu leyti í höndum Alþ. Ég vil vekja athygli á þessu, því að hér er skörulega mælt um það, að horfið skuli frá hinni eldri og algengu skoðun á hugtakinu „þingbundin stjórn“. Það er ekki þingbundin stjórn, sem hér um ræðir, heldur bara þingstjórn.

Enn fremur vil ég benda á það, sem ég lét um mælt við stjskrn., að þá hefði þurft að leiðrétta 2. gr., þar sem stendur, að Alþ. og forseti lýðveldisins fari saman með löggjafarvaldið. Hv. frsm. gaf þá skýringu, að það, sem meint væri með því, að forseti færi með löggjafarvaldið, væri eingöngu miðað við brbl., og þetta skýrði það enn frekar, að forseta væri ekki ætluð hlutdeild í hinu almenna löggjafarvaldi. Hvað verður þá um vald forseta yfirleitt í sambandi við 2. gr.? Hann verður ekkert annað en nokkurs konar afgreiðslustjóri, og ríkisráðið verður ekkert annað en lítils háttar afgreiðslustofnun. Þessi ákvæði í gildandi stjskr. og í þessu frv., ákvæði 1. gr., að hér sé þingbundin stjórn, ákvæði 16. gr., að l. skuli borin upp fyrir forseta í ríkisráði, og enn fremur í 19. gr., að undirskrift forseta veiti l. gildi, eru ekkert annað en skrautfjaðrir, sem eru felldar af með því að svipta forseta öllu valdi.

Þá skal ég einnig benda á annað, að ég hef heyrt það fært fram sem ástæðu, þó að það komi þessu máli ekki við nema óbeint, að ef þessi d. færi nú að færa málið í sama búning og það hafði áður, væri málinu stefnt í voða, því að stjskr. mætti ekki fara í sameinað þing. — Ég vil nú fyrst benda á, að þessi d. þarf engar áhyggjur af þessu að hafa, heldur þá , Ed. En málinu er alls ekki svo farið, því að það er ekki krafizt annars en samþykkis Alþingis. Og ef nokkur vafi hefur verið á því, að stjskr. mætti koma í Sþ., þá sýnist mér, að sá vafi sé burtu fallinn. Auk þess er það nýjasta kenningin, ég vil segja sú mest „moderne“ kenning, sem fyrrv. prófessor við háskólann, Bjarni Benediktsson, hefur látið uppi, að ekki sé hægt að álíta annað en stjskr. megi koma í sameinað þing. Ég vil benda á þetta, af því að sumir telja, að þessu máli væri hætta búin, ef nú yrði gengið á móti vilja Ed. En ég vil undirstrika, að þetta er alveg ástæðulaus ótti. Stjskr. gengur fram, ef ekki í d., þá í Sþ.

Hér liggja fyrir tvær brtt. nýjar. Ég skal ekki orðlengja neitt um þær. Þar er komið inn á aðra stefnu um hið frestandi synjunarvald forseta, sem hér er deilt um. Mun ég bíða eftir að heyra, hvað hv. flm. till. á þskj. 176 hefur fram að færa til stuðnings þeirri till., því að hún er víðtæk og sjálfsagt reist á gildum rökum, sem fræðilega væri hægt að fallast á.