05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Þetta frv. er borið fram í Nd. af menntmn. þeirrar d. Gekk það greiðlega í gegnum d. og var afgr. þaðan með 4 mótatkv.

Menntmn. þessarar d. hefur ekki getað orðið sammála um afgr. frv. Tveir nm. leggja til, að það verði samþ. óbreytt, en einn nm. hefur lagt fram brtt. við frv., sem er þó ekki stórvægileg.

Í rauninni er óþarfi fyrir mig að láta mörg orð fylgja þessu frv. Því fylgir ýtarleg grg. og fskj. frá háskólanum og ýmsum deildum skólans, og einnig er frv. borið fram að ósk háskólaráðs. Frv. felur aðallega í sér þrjár breyt. frá gildandi l., og í raun og veru ekki nema stofnun tveggja nýrra embætta við heimspekideild. —

Fyrsta breyt. er sú, að farið er fram á í 2. gr. frv., að staðfest verði embætti tveggja dósenta í viðskiptafræðum. Viðskiptadeild hefur starfað síðan 1941, en í raun og veru 1938–1940, í sameiningu við lagadeild, og er hér ekki farið fram á annað en að lögfesta tvö embætti, sem fyrir eru, og að því leyti er ekki um að ræða nein ný útgjöld fyrir ríkissjóð.

Önnur brtt. er um að setja lagaákvæði um verkfræðideild, sem líka hefur starfað við háskólann síðan 1940, en þessi deild hefur aðeins starfað með stundakennurum. Með þessu frv. er ætlazt til, að stofnuð verði þrjú prófessorsembætti við verkfræðideild. Það fylgir hér með frv. skýrsla yfir kostnað við stundakennslu við þessa deild, til samanburðar við kostnað við að ráða þrjá prófessora, og er kostnaðurinn mjög líkur. Um þessa breyt. er ef til vill rétt að fara nokkrum orðum.

Þegar stríðið skall á, varð mjög brýn nauðsyn á, að hægt væri að stunda verkfræðinám við háskólann til þess að spara mönnum utanfarir. Hefur ekki verið lögð áherzla á annað en að menn gætu stundað þar fyrrihlutanám, en síðan ætlazt til, að síðari hlutinn yrði numinn erlendis. Menntmn. Ed. hefur borizt till. frá verkfræðingum, sem fara fram á, að ekki verði aðeins bætt við þremur prófessorum, heldur fimm, með það fyrir augum, að menn geti lokið hér fullnaðarprófi í byggingarfræði. Rökstyðja þeir þetta mál sitt í rauninni mjög greinilega, og er því ekki að leyna, að menntmn. finnst þeir hafa mjög mikið til síns máls. Nú er mjög mikill skortur á verkfræðingum, sérstaklega í þessari grein, það vantar a.m.k. 20–30 verkfræðinga nú þegar. En við teljum samt, að með því að stofna þessi þrjú embætti sé þó vel af stað farið í bráðina og að örugglegast sé, að ekki séu skipaðir fleiri kennarar í svipinn, sem komi sér síðan upp deildinni til fullnustu. Í öðru lagi teljum við, að hætta sé á, að ef hér er . farið fram á að stofna fleiri prófessorsembætti en talað er um í frv., þá mundi málinu verða hætt í Nd., því að sú till. kom einnig fram í þeirri d., en menntmn. þeirrar d. taldi sér ekki fært að flytja það í því formi og bjóst við, að það mundi síður fást samþ. í d., svo að þótt við leggjum til, að frv. sé samþ. óbreytt, þá er það ekki af því, að við skiljum ekki nauðsynina, sem á því er að koma upp deild með fimm prófessorum, sem gætu útskrifað byggingarfræðinga.

Þriðja brtt. er um að stofna tvö ný dósentsembætti í íslenzkum fræðum, annað í sögu og hitt í bókmenntum. Það þarf varla að verja löngu máli til að sannfæra hv. alþm. um, hve mikil nauðsyn er á að efla norrænudeild háskólans, og ekki heldur að rökstyðja, hve vel það á við að gera það nú á þessu ári, sama ári og lýðveldi er stofnað á Íslandi. Við höfum viljað keppa að því, að hér gæti orðið sem mest miðstöð norrænna fræða, og í raun og veru er það svo, að með stofnun heimspekideildarinnar fær háskólinn nafn sitt. Okkur er ljóst, hve álit skólans hefur aukizt með stofnun norrænudeildarinnar hér. Þessi deild hefur verið að smáaukast, og í fyrstu, árið 1918, þegar Sigurður Nordal tók við embætti sínu, þá var hann bæði prófessor í bókmenntum og málfræði. Síðan var stofnað dósentsembætti í málfræði. Aftur á móti hefur ekki verið aukið við sögu- og bókmenntakennslu, svo að þar er aðeins einn prófessor í hvoru, en enginn dósent, en það er engu minni nauðsyn á að hafa dósent í bókmenntum og sögu en í málfræði, og væri auðvelt að rökstyðja það, hversu erfitt er fyrir einn prófessor í hvoru fagi að geta komizt yfir jafnyfirgripsmikið verkefni og sögu og bókmenntir, einmitt þær greinar, sem eru verst búnar í hendurnar á kennurunum, svo að þeir hafa orðið að semja fyrir nemendur sína kennslubækur jafnóðum og þeir hafa kennt, því að enn þá er hvorki til hæfileg kennslubók í sögu né í bókmenntum fyrir stúdenta í norrænum fræðum. Nú er völ á sérlega vel hæfum mönnum, sem gætu tekið að sér þessi störf við háskólann, og væri mikið tjón, ef háskólinn færi á mis við þá.

Mér er ljúft að flytja það, að stofnuð verði fleiri prófessorsembætti við verkfræðideildina, en tel ekki beina þörf á því að sinni. Ég tel, að það verði ekki heldur álitlegt fyrir framgang málsins, þar sem óvíst má telja, að frv. nái þá samþ. deildarinnar í því formi.

Ég sé, að fram eru komnar brtt. á þskj. 604 frá minni hl. n., hv. þm. S.-Þ. (JJ). Þær eru í raun og veru tvær. Önnur felur í sér, að það sé ákveðið í frv., að í háskólanum séu 5 deildir, en ekki 6, eins og stendur í frv. Hann á við það, að atvinnudeildin verði ekki tekin upp í deildir háskólans. Þetta frv. mun vera svo fram komið, að háskólaráð hefur sett 6 deildir inn í það af ásettu ráði. Voru ákveðnar 5 deildir, að atvinnudeildinni meðtalinni. Og ef nú verður stofnuð verkfræðideild, þá bætist sjötta deildin við. En það er missagt, að deildirnar væru 5 að atvinnudeildinni meðtalinni. En það var með vilja gert og er aðeins framkvæmdaratriði, hvenær atvinnudeildin verður sameinuð Háskóla Íslands. Þegar ráðnir voru deildarstjórar við atvinnudeildina, var ætlazt til, að þeir yrðu síðar prófessorar við háskólann. Nú stendur til, að reist verði náttúrugripasafn, og viðkomandi skólastofum þar má taka það til athugunar að nota þær sameiginlegar fyrir atvinnudeildina, því að eðlilegt má telja, að atvinnudeildin verði þá sameinuð háskólanum og forstjóri hennar gerður að prófessor við Háskóla Íslands. Ég tel rétt, að þessi heimild standi í lögunum, eins og hún hefur gert síðan 1936, og tel því ekki rétt að samþ. brtt. minni hlutans.

Hin brtt. er um það, að í verkfræðideild verði 4 prófessorar í stað 3. Í raun og veru væri háskólanum mjög ljúft að fá 4 í stað 3. Verkfræðingarnir telja, að 5 prófessora þurfi til að koma upp deild, sem útskrifi byggingarverkfræðinga. Ástæðan til þess, að ég tel ekki rétt, að d. samþ. þessa brtt., er sú, að við leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt og afgreitt frá d., svo að ekki þurfi að senda það aftur til Nd., því að óvíst er, hvort það næði þá samþykki deildarinnar. En við viljum, að málið verði afgreitt á þessu þingi. Við álítum, að þegar búið sé að stofna 3 prófessorsembætti við verkfræðideild, sé auðvelt að notast við stundakennara fyrst um sinn, ef háskólinn sér sér fært að koma upp fullkominni verkfræðideild.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Háskólinn og þjóðin eru tengd sterkum böndum. Nafn háskólans og þjóðarinnar fer saman. Það er eðlilegt, að háskólinn vaxi með þjóðinni og fleiri deildir bætist við hann, eftir því sem menningarstarfsemi þjóðarinnar vex. Öll þessi d. verður að samþ. þetta frv. og efla þar með háskólann. Þá bætist þar við ein ný deild og aðrar deildir verða efldar.