16.11.1944
Neðri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Sveinbjörn Högnason:

Hv. frsm. vildi undirstrika þau orð mín, að ég gæfi ekki tvo aura fyrir afrit, sem búin eru að flækjast milli sóknarmanna um fjölda ára. Í frv. segir, að heimilt sé sóknarn. að fela afritun öðrum mönnum, sem hún telur til þess færa. Við vitum, að þetta er rétt, að í langflestum tilfellum yrði slík kirkjubók orðin ónýt, og það er allt annað en kirkjubók, sem er kyrr hjá presti allan tímann.

Ég get ekki skilið, hvað þjóðskjalasafnið er bættara með að fá bækurnar, sem fullskrifaðar eru, eftir 50 ár, því að gera má ráð fyrir, að það verði ekki fyrr, fremur en að fá afrit árlega og geta þannig sjálft fengið ný eintök, jafnóðum og bækurnar eru færðar.

Hvað viðvíkur því, sem hv. frsm. sagði, að erfitt sé nú að fá nokkuð frá þjóðskjalasafninu, þá vita allir, að mjög erfitt hefur verið að ná í nokkuð frá safninu, eins og aðstæður eru nú. Ég hygg, að að því geti komið, að menn muni um. að borga fyrir símtal 3–5 kr., þótt slíkt þyki smámunir nú á tímum, og fólk kæri sig ekki um að þurfa að nota símann til þess að geta náð í nauðsynleg vottorð. Þess vegna finnst mér fyrir mitt leyti alveg sjálfsagt, að fólkið heima fyrir hafi sitt eintak og þjóðskjalasafnið annað, svo að báðir geti notað þau eftir því, sem þarf.