13.09.1944
Efri deild: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2503)

95. mál, loðdýrarækt

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Ég vil aðeins gera aths. í sambandi við eitt atriði, sem kom fram hjá hv. síðasta þm. viðvíkjandi 6. gr. Ég vildi benda á það, að þótt það sé rétt, sem þessi þm. vitnaði í gildandi lög, þá hefur reynslan því miður orðið sú, að skinn frá miklum fjölda loðdýraframleiðenda í landinu hafa sannað, að ekki hefur borgað sig að framleiða þau. Þar á móti hefur einstaka framleiðendum heppnazt að halda þannig á málinu, að þeir hafa fengið ágæt skinn og þar af leiðandi ágæta atvinnu af starfi sínu. Það, sem mest á ríður í þessu eins og hverju öðru starfi, er að koma á sem heilbrigðustum grundvelli fyrir þá, sem þessa atvinnu stunda. Nú er það svo, að þessir tiltölulega fáu menn, sem hafa skarað fram úr í því að hafa góð skinn, hafa ekki getað látið öðrum í té þau dýr, sem þeir hefðu óskað eftir. Og með því að reynslan er sú, að skinnin svara vart kostnaði hjá öllum þorra framleiðenda í landinu, hef ég, –eftir að ég hef rætt málið við þá menn, sem þessum hlutum eru kunnugastir, — ekki getað komið auga á aðra leið til úrbóta en þá, sem bent er á í 6. gr. En hafi aðrir komið auga á betri leið, þá er það gott.