30.01.1945
Efri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2713)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Bjarni Benediktsson:

Mín fáu orð áðan gáfu ekki tilefni til mikilla umr. En það er ekki að furða, þótt þetta mál vefjist nokkuð fyrir mönnum, þar sem í öðru orðinu er talað um miklar framkvæmdir, en í hinu orðinu á ríkið ekki að taka neina skyldu á sig. Mér virðist það óvéfengjanlegt, sem hv. þm. Dal. sagði hér um kostnaðarhlið þessa máls. Að vísu er ríkið ekki skyldugt að greiða þetta fé, fyrr en ákveðið er í fjárl., en hitt er óumdeilanlegt, að ríkið verður að halda uppi rekstrarkostnaði, eftir að skólarnir hafa verið reistir. Höfum við þar órækt dæmi, sem er Varmahlíðarskólinn.

Það er ekki ætlun mín að mála hér neina grýlu á vegginn. Ég er fullkomlega sammála um nauðsyn húsmæðrafræðslu og ef til vill enn þá ákveðnari í því máli en hv. flm. þessa frv. Það er t. d. skoðun mín, að ekki sé rétt, að nokkur stúlka sé laus við skólaskyldu fyrr en hún hefur fengið hliðstæða menntun þeirri, sem hér er talað um. Og samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir liggja, hefur sú mþn., sem starfaði að skólamálum, lagt til, — þó hef ég ekki séð það frv. enn þá, — að skólaskyldan yrði töluvert framlengd frá því, sem verið hefur, og þá með því, að héraðsskólarnir yrðu flestir teknir af þeim, sem hv. þm. kallar hina réttu eigendur, og lagðir undir ríkið til þess að gera þessa framhaldsfræðslu mögulega. En það, sem er að brjótast í mér, er: Er ekki alveg eins skynsamlegt að koma á slíkri almennri framhaldsfræðsluskyldu í landinu og hverfa að einhverju leyti frá því að láta þessa framhaldsfræðslu vera í formi gagnfræðaskóla eða samskóla pilta og stúlkna? Verður ekki skynsamlegra og happadrýgra að hafa þessa kennslu að einhverju leyti sundurskilda milli pilta og stúlkna og annars vegar einhvers konar búnaðarnám, en hins vegar beina húsmæðrafræðslu fyrir ungar stúlkur? Það er skoðun mín, að það væri heppilegra. Hugmyndin, sem vakir fyrir flm. þessa máls, sem hér liggur fyrir, er góðra gjalda verð. En það, sem fyrir mér vakir, er það, að ekki muni verða tekin skynsamleg ákvörðun um framhaldsfræðsluskyldu ungmenna hér á landi fram yfir það, sem nú gildir, sem miðast við 14 ára aldur, nema húsmæðrafræðslan sé einn verulegur þáttur í þeirri framhaldsfræðslu. Og menn verða að gera sér ljóst, að hvað sem gagnfræðanámi líður, — og allt slíkt getur verið gott — og líka að koma á samkomur og flytja kvæði, sem ég er þó ekki hrifinn af, að þeim ólöstuðum, — þá sé enn nauðsynlegra fyrir ungar stúlkur, að þær hljóti húsmæðrafræðslu.

Af þessu var það, sem ég bar fram fyrirspurn mína áðan, hvort hv. menntmn. þessarar d. hefði kynnt sér, hvort mþn. í skólamálum hefði gert nokkrar till. varðandi húsmæðrafræðslu og hvort ekki félli beinlínis inn í verkahring hennar að gera slíkar till. Þegar vitað er, að í uppsiglingu eru allsherjartill. mþn. í skólamálum, finnst mér misráðið af hæstv. Alþ. að fara að setja jafnvíðtæka löggjöf um húsmæðrafræðslu og hér er um að ræða. Og það þýðir ekki að bera á móti því, að þessi löggjöf er sett af ákaflega miklu handahófi, ef frv. ásamt brtt. við það, sem fram eru komnar, verður samþykkt. Fyrst er borið fram frv. um að koma upp einum skóla, og n. í hv. Nd. leggur til, að frv. það verði samþ. óbreytt. En þegar það frv. kemur svo úr hv. Nd., eru skólarnir orðnir fimm, sem frv. inniheldur ákvæði um, án þess að í þskj. sjáist nokkur grg. fyrir þessum skólum nema einum. Og menntmn. þessarar hv. d. segir hér í nál., að hún sé frv. samþykk. Og jafnvel þó að menn eins og hv. þm. S.-Þ. hafi fjallað um málið í n., hafa þeir algerlega kastað höndum til þess og vanrækt að skýra það fyrir þingbræðrum sínum á nokkurn hátt. Og málsmeðferð þeirra og till. eru svo lausar, að þeir falla fyrir hverri brtt., sem fram er borin, sem þeir hefðu ekki gert, ef þeir hefðu hugsað málið í heild. Og hv. þm. S.-Þ. segir, að það eigi að stofna eftir frv. húsmæðraskóla á stað, sem þar er alls ekki nefndur. Skinnastaður er alls ekki nefndur hér. (JJ: Það er á stað, sem þar er rétt hjá. — PHerm: Það er í landareigninni.) Þetta er þá ekki hið rétta nafn. Það virðist þá eiga að dylja það, að þessi skóli sé reistur á höfuðbóli. En þetta er nú aukaatriði í þessu efni, þó að ég vilji skjóta því að hér, þar sem hv. þm. S.-Þ. taldi, að hér væri verið að vinna að því að efla höfuðból með því að setja upp skóla. Það væri æskilegt, að þau væru öll efld með því höfuðbólin, þegar skólar eru settir upp á þeim. En ýmsum finnst, að reynslan hafi stundum orðið önnur. Og mér og öðrum, sem til Reykholts hafa komið, hefur verið raun að því, hve Reykholt hefur orðið að þola lélega umgengni af skólaráðsmanni á þeim stað. Ég vil spyrja hv. þm. Barð. og hv. þm. S.-Þ., hvort framfarir hefðu orðið í búnaði á Hólum, þessu höfuðbóli, síðan skólinn kom þar. En ég er ekki með því að mæla á móti, að skólum sé komið fyrir á höfuðbólum. En röksemdirnar fyrir því mega samt vera réttari en fram hafa komið.

Hér er um stórvægilegt mál að ræða, eitt af mestu menningarmálum landsmanna, og fyrir mér vakti það, að ekki mætti afgreiða það af slíku handahófi og hér er stefnt að, eins og sakir standa, heldur þurfi, — eins og hv. þm. S.-Þ. talar um, — einhverja tíu ára áætlun um skynsamlegar aðgerðir í þessu efni. En 10 ára áætlanir eru ekki samdar á þann hátt, að einn og einn hv. þm., annaðhvort með áróðri eða einhverju handahófi út í bláinn, fleygi fram till., sem svo samþ. eru af hv. þm. undirbúningslaust, heldur á þann veg, að athugun fari fram um málin. En sú athugun hefur í þessu efni verið vanrækt.

Ég hjó í það, að hv. þm. S.-Þ. lét ekki svo lítið að geta þess og vissi e. t. v. ekki um það, hvort mþn. í skólamálum hefði um þetta mál fjallað. Hann svaraði ekki spurningu minni um það. Hins vegar fór hann nokkrum almennum orðum um þá n. og fannst lítið til hennar koma. Það getur verið, ef hann lítur þannig á þessa n., að þá finnist honum ekki ómaksins vert að athuga, um hvað hún hefur fjallað. (JJ: Alveg rétt tekið fram.) En mér finnst það hið minnsta, sem við þdm. eigum rétt á að fá að vita í sambandi við þetta mál, hvort mþn. í skólamálum hefur hugsað sér að gera eða gert einhverjar till. í þessu efni. Þetta finnst mér, að við eigum rétt á að fá að vita, áður en við tökum ákvörðun um málið. Og ég vil ekki láta mér nægja það, þó að hv. þm. S.-Þ. lýsi yfir því, að hann sé svo á móti þeirri n., að hann telji ekki ómaksins vert að vita ráðagerðir hennar í þessu efni. En það er langt frá því að gera af nokkurri gætni 10 ára áætlun í máli eins og þessu, þegar mþn. er skipuð í málið, að þingn. vilji ekki kynna sér till. þeirrar mþn. eða svo mikið sem vita, hvort sú mþn. hefur gert nokkra minnstu till. um málið. Því fer fjarri, að ég beri nokkurn illvilja til þessa máls, því að ég álít það með hinum merkustu málum, sem hæstv. Alþ. fjallar um. Og ég vil allra sízt standa á móti raunverulegum framförum og framgangi húsmæðrafræðslunnar í landinu, því að ég álít fátt, sem meiru geti ráðið um menningu þjóðarinnar og hagnýtingu efna hennar en góða fræðslu húsmæðra. Og ég veit, að hv. þm. S.-Þ. er mér alveg sammála um það. Og hann mun verða með mér í því, sem bráðum verður, að við Reykvíkingar eflum húsmæðraskóla okkar með því annaðhvort að stækka það hús, sem hann er í nú, eða — og það öllu heldur — með því að reisa einn eða tvo slíka skóla til viðbótar, vegna þess að sá skóli fullnægir hvergi nærri þeirri þörf, sem er fyrir slíka skóla hér í bænum.