22.11.1944
Neðri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

145. mál, iðnaðarnám

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Það hefur viljað svo einkennilega til í þessari iðnn., að 2 af 5 mönnum, sem þar eiga sæti, hafa ekki getað mætt á þeim fundi, sem meiri hl. virðist hafa haldið um málið. Hv. 11. landsk. er ekki hér á landi, en í hans stað er mættur hér annar hv. þm., sem hefur tekið sæti í n. Í stað mín hefur hv. 4. þm. Reykv. tekið sæti í n. Þessir menn hafa, að því er mér skilst, ekki átt kost á því að kynna sér meðferð málsins. Hins vegar hefur meiri hl., hv. þm. Vestm., hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. Ak., sem allir eru flm. þessa frv., einir gefið út um það nál., og mér finnst satt að segja eðlilegt, að einhverjir fleiri heldur en flm. einir geti fengið tækifæri til þess að láta sína aðstöðu í ljós. Meðan ég átti sæti í n., lýsti ég því yfir, hvernig ég liti á málið, og ég hef ástæðu til að ætla, að hv. 4. þm. Reykv., sem mætir í minn stað, muni ekki líta á þetta ósvipuðum augum. Aftur á móti veit ég ekki um þann hv. þm., sem mætir fyrir hv. 11. landsk., en ég er viss um það, að hv. 11. landsk. vildi ekki láta samþ. frv. eins og það lá fyrir.

Ég vil ekki skorast undan því við hv. þm. Vestm. að ræða málið, ef út í það verður farið, og mér hefði fundizt eðlilegt, að aðrir en flm. einir hefðu fengið tækifæri til þess að kynna sér það og gefa út um það nál. Að öðru leyti vil ég aðeins taka undir að nokkru leyti það, sem hv. frsm, hafði eftir iðnfulltrúunum, að hér væri um að ræða aðeins byrjun, sem þeir að vísu teldu góða byrjun, en ég ekki, um breyt. á iðnlöggjöfinni. Ég er sammála að því leyti, að hér er ekki tekið nema eitt atriði, og um það hefur verið deilt í seinni tíð. En það eru mörg fleiri atriði, sem fullkomin ástæða væri til að taka til athugunar. Þessi löggjöf hefur verið í gildi milli 10–20 ár, og er fengin af henni margvísleg reynsla, og þar sem hún er á sínu frumstigi, er ekki óeðlilegt, að hún standi til bóta. Ég hefði getað hugsað mér, að þessi löggjöf yrði í heild tekin til endurskoðunar á næstunni, bæði þetta atriði og önnur. En áður en þetta atriði verður afgr. á þennan hátt á fundinum, finnst mér sjálfsagt, að minni hl. n. fengi tækifæri til þess að setja fram sitt álit.