25.01.1945
Efri deild: 110. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

153. mál, hafnarbótasjóður

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Ég verð að segja, að mér virtist frv. þetta nokkuð varhugavert, fyrst þegar það kom fram, en við nánari athugun hefur skoðun mín á því breytzt, ef ég skil frv. rétt.

Það er meiningin með frv., eins og það liggur fyrir, að hafnarbótasjóður verði eins konar lánsstofnun og að það beri að veita eitthvað fé til hans á fjárlögum. Það fé, sem lánað er, verður svo að endurgreiða á næstu 5 árum.

Ef svo er sem mér sýnist, getur þetta greitt mjög fyrir hafnarbótum í landinu. Mér sýnist þetta form líklegra til þess, að sjóðurinn megi að gagni koma, en áður var, þegar veitt var fé úr honum án þess að fá það endurgreitt. Með þessu móti fæst meira fé til hafnarbóta en fengizt hefði, ef frv. hefði ekki verið borið fram.

Mér sýnist, að með þessu frv. sé ríkissjóði alls ekki misboðið, og Alþ. hefur þá valdið í hendi sér, ef fé það, sem úti er látið, er of mikið.

Ég vil að lokum segja, að ég tel þetta fyrirkomulag líklegt til að koma hafnarbótum í framkvæmd á hagkvæman hátt og að það muni stuðla að auknum framkvæmdum á þessu sviði.

Ef þessi skilningur minn á tilgangi frv. er réttur, mun ég greiða atkv. með því, að það nái fram að ganga.