23.10.1944
Neðri deild: 69. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (2918)

87. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Ég hafði búizt við, að þetta frv. hefði tekið breyt. nokkrum, er það kæmi frá hæstv. ríkisstj. Eins og þetta nú liggur fyrir, er mönnum opnuð leið til þess að veita tekjum sínum í annan farveg en lög almennt gera ráð fyrir. Þetta væri þó ekki svo athugavert, ef glögg takmörk væru fyrir hendi, sem nú eru ekki. Ég hygg, að engum þm., sem komið hefur við þetta mál, hafi komið til hugar að láta þetta ná nema til líknarstarfsemi.

Nú hefur ríkisstj., sem áður var á móti þessu, lagt frv. fyrir svo geysivíðtækt, að ekki verður annað séð en að mönnum sé fært að leggja fé sitt skattfrjálst í hinar margvíslegustu stofnanir og fyrirtæki og þá auðvitað til íþróttamála sem annars. Ég hafði vænzt þess, að hv. n. felldi úr frv. „menningarmál“. Ég legg því til, að hún fái um þetta umhugsunarfrest til 3. umr. Þetta er ekki mælt af neinni andúð til menningarmála, heldur af því, að ég tel, að hér sé komið á svo hála braut, að ég efast um, að Alþ. og ríkisstj. sjái sér þar stætt, ef á reynir.

Hins vegar er hér í þessu landi lagt fram meira fé af hálfu hins opinbera til menningarmála en þekkist nokkurs staðar annars staðar í hlutfalli við fólksfjölda. Eigi ráðh. eftir sínu þori og vilja að ákveða, hvað telja skuli menningarmál, þá er það svo vítt svið, að menn munu sjá, að slíkt er alveg ófært. Þar gætu heyrt undir framlög til skóla, fyrirlestra, ritgerða og bóka. Hér er og til félag, sem heitir Mál og menning. Hví skyldi ekki fært fyrir ráðh. að telja allt slíkt til menningarmála? Við því yrði að sjálfsögðu ekkert gert.

Ég tel, að mál þetta þurfi nákvæmrar athugunar við, og er tilefnið bæði það, sem fram kom í till. formannsins, og svo ætti n. að fjalla um allar þær till., sem hér kunna fram að koma.