11.09.1944
Neðri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2957)

89. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar o.fl.

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Á þessu stigi umr. þykir mér rétt að taka þetta fram:

Eins og þegar hefur verið minnzt á, var það 30. f. m., miðvikudaginn annan en var, að ríkisstj. sendi miðstjórnum allra þingflokkanna frv. það, sem hér liggur fyrir, til athugunar og óskaði svars flokkanna um undirtektir þeirra fyrir 10. þ. m. Á mánudaginn var var frv. útbýtt í þ. og hefur síðan verið almenningi kunnugt. Þar sem stj. varð nú brátt þess áskynja, að flokkarnir mundu ekki, eins og raun hefur á orðið, gefa nein þau svör fyrir 10. þ. m., sem hún mætti við una, þá ákvað stj. að æskja þess, að fram færu útvarpsumr. um málið, svo sem nú hefur orðið.

Í málgögnum flokkanna hafa till. stj. hvergi fengið stuðning, og í sumum þeirra hefur verið lagzt þunglega í gegn þeim. Í þessum umr. hefur það einnig orðið bert, að þær eiga ekki mikils byrs að vænta í heild í þinginu. Enginn þingflokkanna hefur þó borið brigður á það, að þingið geti ekki leitt dýrtíðarmálin hjá sér með aðgerðaleysi. Nýtt verðlagsár fyrir landbúnaðarafurðir hefst 15. þ. m., og vegna þessa var þingið kvatt saman 2. þ. m. og flokkunum sendar till. stj. nokkru fyrr, til þess að þeim gæfist tími til að íhuga ráðstafanir þær, er stj. taldi nauðsynlegar, og þinginu gæfist kostur á að hafa tekið afstöðu til málanna, áður en verðhækkunaraldan skylli yfir. Enn er það ekki vitað, að flokkarnir hafi komizt að niðurstöðu sín á millum um það, hvað gera skal, en eitthvað jákvætt í málinu verður að gera.

Stj. vill minna á það, að þótt þ. geti ekki fellt sig við að veita henni atbeina í viðleitni hennar til að forða því, að verðbólgan vaxi atvinnuvegunum yfir höfuð, þá hefur stj. lýst yfir því, að hún muni þegar víkja fyrir nýrri stj. er hefði yfirlýstan meiri hl. þings að baki sér. Þennan meiri hl. hefur til þessarar stundar ekki verið hægt að mynda þrátt fyrir endurteknar og enn varandi tilraunir. Nú hefur stj. hins vegar engan veginn skuldbundið sig til þess að víkja eigi, fyrr en meiri hl. þings væri fenginn fyrir annarri stj. Þegar stj. var skipuð, var það yfirlýst markmið hennar að stöðva verðbólguna þá og reyna að vinna bug á henni. Nú horfir málunum þannig, að vegna lagasetningar og margvíslegra umbrota og óreiðu í kaupgjaldsmálum hefst óhjákvæmilega stóraukin verðbólga nú þegar, sem því næst fer ört vaxandi í nánustu framtíð, ef látið er skeika að sköpuðu. Ef viðleitni stj. til þess að hafa hemil á þessu getur ekki fengið stuðning þingsins, þá getur ekki rekið að öðru en því, að hún vill ekki una því ástandi.

Stj. hefur því ákveðið, ef þingið eða meiri hl. þess hefur ekki fyrir 15. þ. m. bent á nýja stj. eða lýst yfir því eða samþ. það að gera þær ráðstafanir í dýrtíðarmálunum, sem núv. stj. telur eftir atvikum, að við megi hlíta, að leggja fyrir forsetann lausnarbeiðni sína, sem væntanlega verður tekin til greina.

Þá kann svo að fara, að einhver öfl innan þingsins, sem ekki hafa notið sín til þessa, leysist úr læðingi og sameinist með nægum styrk til þess að koma því til vegar, að fólkið verði enn um skeið varið fyrir stóráföllum af völdum flóðbylgju verðbólgunnar.