18.09.1944
Neðri deild: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (2969)

124. mál, heimild fyrir þjóðhátíðarnefnd til að taka í sínar hendur umráð yfir bifreiðum

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég vildi aðeins segja örfá orð, ekki í sambandi við efni þessa frv., sem vafalaust allir eru sammála um, heldur um hina formlegu hlið málsins. Í 28. gr. stjórnarskrárinnar segir, að þegar brýna nauðsyn beri til, geti forseti gefið út brbl. milli þinga, og skuli þau ætíð lögð fyrir næsta Alþ. á eftir. Það er ekki beint tekið fram um útgáfuheimild brbl., þegar þingi er frestað, eins og gildir í þessu tilfelli, er um heimild þessa er að ræða. En stjórnarskráin hefur alltaf verið skýrð þannig, að gefa mætti út brbl., þegar þannig stæði á, að þessi skilningur er óumdeilanlegur. En ef þetta er gert, þá er það einnig óumdeilanlegur skilningur, að brbl. skuli lögð fyrir Alþ., þegar það kemur næst saman á eftir. Þau brbl., sem lögð eru hér fyrir, um heimild fyrir þjóðhátíðarnefnd til að taka í sínar hendur umráð yfir bifreiðum 16.–18. júní 1944, eru gefin út 31. maí 1944, 10 dögum áður en Alþ. kom saman. Þessi brbl. hefði því átt að leggja fyrir Alþ. 10.–17. júní, en er nú fyrst útbýtt 18. september. Það var þeim mun meiri ástæða til að leggja þau fyrir þingið í júní fyrir það, að þau voru ekki framkvæmd nema í þrjá daga. Sá tími er nú liðinn og hlutverki þeirra því lokið áður en þau eru lögð fram. Ég tek þetta ekki fram hér í ásökunarskyni á ríkisstj., sem vafalaust hefur sínar afsakanir fyrir þessu, en tel nauðsynlegt, að þetta komi fram vegna þess, að ef sams konar tilfelli koma fyrir síðar, verði ekki hægt að vitna í þetta sem fordæmi, er engar aths. hafi komið fram við.