25.01.1945
Neðri deild: 112. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (3113)

214. mál, útsvör

Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta frv. og vill mæla með, að það verði samþ., en þó með nokkrum breytingum.

1. brtt. n. er efnisbreyting frá frv. að því leyti, að n. álítur, að hverri sveitarstjórn sé skylt að tilkynna kaupgreiðendum, hve háa upphæð hver útsvarsgreiðandi skuldi, og geti sveitarstjórn þá krafizt þess af kaupgreiðendum, að þeir haldi eftir af kaupi fyrir þeim upphæðum og skili því fé síðan til sveitar- eða bæjarsjóðs. Sveitarstjórn getur krafizt þessi að vinnuveitendur sendi henni skýrslur um alla starfsmenn þeirra og haldi eftir af kaupi vinnuþiggjendanna, og er því ekki nema eðlilegt, að sveitarstjórn tilkynni, hve háa upphæð hver vinnuþiggjandi skuldi. 2. brtt. er um það, að sveitarstjórn sé skylt að senda kvittanabækur. 3. brtt. fjallar um það, að sveitarstjórn geti og gert kröfu um, að kaupgreiðendur haldi eftir af kaupi kaupþega til greiðslu á eldri útsvarsskuldum ásamt dráttarvöxtum og kostnaði. Hv. 4. þm. Reykv. hefur borið fram brtt. um, að sveitarstjórn beri að taka tillit til, af hvaða ástæðum vangreiðsla á útsvari er til orðin.

Ég get fallizt á þessa brtt.

4. brtt. n. er um að lengja frestinn upp í 6 daga, sem kaupgreiðendur skulu hafa til að skila af sér innheimtufénu. 5. brtt. er aðeins samræmisbreyting. Ég get ekki fallizt á 1. brtt. hv. 4. þm. Reykv., en um 3. brtt. hans get ég verið honum sammála.