09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

27. mál, skipun læknishéraða

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Frá því að þetta frv. fór héðan, hafa orðið á því allmiklar breyt. í efri deild. Eins og öllum er kunnugt, þá hefur þetta verið allmikið hitamál hér á þingi, en eins og það er nú komið, er það öllum viðkomandi til vansæmdar. Ég sé, að lagt hefur verið til að skipa n. til að ráða fram úr þessu, og er það vel.

Ég er ekki ánægður með frv. í þessari mynd. Við vitum um erfiðleika fólks úti á landi á því að ná í lækna, og á því verður ekki ráðin bót með því að skipta héruðunum, því að auðveldlega getur farið svo, að læknar fáist ekki.

Nú vildi ég leggja til, að þetta frv. yrði ekki afgreitt, fyrr en það hefur verið athugað af n. Þess vegna vil ég leyfa mér að koma fram með rökstudda dagskrá, en áður vil ég taka það fram um læknissetrið á Fljótsdalshéraði, að ákvörðun um það atriði þolir enga bið.

Hin rökstudda dagskrá hljóðar svo:

Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti þegar á þessu ári hefja framkvæmdir að stofnun Egilsstaðalæknishéraðs á Austurlandi, og þar sem auðsætt er, að frekari breytingar á læknaskipun landsins krefjast nánari undirbúnings, svo sem frv. þetta ber með sér með þeim brtt., sem fyrir liggja, enda fram komin þingsályktunartillaga um nefndarskipun í þessu skyni, — þá sér deildin sér ekki fært að samþykkja frv. þetta og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.